06.04.1973
Efri deild: 84. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3124 í B-deild Alþingistíðinda. (2594)

228. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Þorv. Garðar Kristjánsson) :

Herra forseti. Á þskj. 501 ber ég fram frv. til l. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, nr. 30 frá 12. maí 1970. Í þessu frv. felast verulegar breytingar á skipan þessara mála frá því, sem nú gildir í lögum. Það er í fyrsta lagi gert ráð fyrir þeirri nýjung, að lánin, sem húsnæðismálastjórn ríkisins veitir, verði mismunandi há eftir því, hvar er á landinu. Það er í öðru lagi gert ráð fyrir, að tekin verði upp verðtrygging á íbúðum á vissum stöðum á landinu. Það er í þriðja lagi gert ráð fyrir. að byggingarsjóður verkamanna verði efldur stórlega. Í fjórða lagi er gert ráð fyrir verulegri hækkun hinna almennu lána húsnæðismálastjórnar. Og í fimmta lagi er gert ráð fyrir fjárframlögum úr byggðasjóði til aðgerða í húsnæðismálunum, sem miða að því, að stuðlað verði að jafnvægi í byggð landsins.

Á nauðsyn byggðajafnvægis er víðtækur skilningur. Þó er það svo. að við þetta mál hefur verið fengizt með minni árangri en flest önnur viðfangsefni. Þetta er vegna þess, að mönnum hefur seint skilizt, að til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins þarf að koma til alhliða uppbygging þeirra byggðarlaga eða landssvæða, sem efla skal til aukins byggðajafnvægis. Enn fremur hafa menn lengi skirrzt við að viðurkenna, að ekki verður unnið að jafnvægi í byggð landsins nema mismuna þannig, að meira verði gert fyrir þá staði, sem efla þarf, en hina.

Efling byggðajafnvægis er í framkvæmd margslungið viðfangsefni. Ekki tjóar að láta til sín taka hluta vandamálsins. Venjulega þurfa að koma til samverkandi aðgerðir á ýmsum sviðum. svo sem á vettvangi samgöngumála, atvinnumála, skólamála, heilbrigðismála og félagsmála.

Í allri viðleitni til eflingar byggðajafnvægi kreppir nú skórinn ekki hvað sízt að í húsnæðismálunum. Víða úti um land skortir nú íbúðarhúsnæði. Þetta á einkum við þróttmikla útgerðarstaði. Þar er húsnæðisskorturinn þess eðlis, að hann kemur í veg fyrir fólksflutninga til þessara staða, sem annars væri grundvöllur fyrir. Þetta er á stöðum, þar sem skortir fólk á vinnumarkaðinn til þess að framleiðslutækin, sem þar eru þegar fyrir, verði fullnýtt og rekin með eðlilegum hætti. Á þessum sömu stöðum eru víða hinar hagkvæmustu aðstæður til frekari atvinnuuppbyggingar. Þar sem svo háttar til, getur því verið hinn ákjósanlegasti grundvöllur til eflingar byggðajafnvægi í landinu, ef ýtt er undir fólksflutninga til þessara staða frá þeim landshlutum, þar sem fjölmenni hefur raskað eðlilegu byggðajafnvægi.

Til að hagnýta þennan grundvöll til eflingar byggðajafnvægi þarf aðgerðir, sem koma í veg fyrir, að húsnæðisskortur hindri búsetu fólks, sem vill leita til þessara staða í atvinnuskyni. Þessar aðgerðir þurfa og að vera þess eðlis, að þær í sjálfu sér örvi til þessara fólksflutninga. Þess vegna eru ekki önnur úrræði í þessu máli en að gera mögulegt, að íbúðarlán, sem veitt eru til þessara staða, verði hærri og hagkvæmari en almennt gerist.

Þetta þarf að gilda um öll íbúðarlán, sem veitt eru til þeirra byggðarlaga, sem njóta þessarar aðstoðar. Ekki er t.d. nægilegt að binda þessi sérstöku lán við byggingu leiguíbúða. Á þessum stöðum eru leiguíbúðir að vísu nauðsynlegar, en þær leysa ekki allan vandann. Engin frambúðarlausn fæst, nema öllum, sem byggja íbúðarhús, séu veitt þessi lán. Ekki á þetta sízt við um þá, sem vilja koma sér upp eigin íbúðum, svo sem algengast er um landsmenn. Mest er um vert að ýta undir íbúðarhúsabyggingar einstaklinga á þessum stöðum, því að það eru einstaklingarnir, sem eru driffjöðurin í þessum framkvæmdum í landinu. Hins vegar hefur í þessum efnum reynzt sá Þrándur í Götu, að einstaklingar hafa oft veigrað sér við að byggja sér íbúðir á mörgum þeim stöðum, þar sem þessi sérstaka aðstoð í húsnæðismálunum þarf einmitt að koma til. Menn hafa óttazt, að fjármunir þeir, sem þeir legðu í íbúðarbyggingar á þessum stöðum, rýrnuðu í verði vegna ótryggrar framtíðar viðkomandi staða. Þeir hafa óttazt, að þeir gætu ekki selt íbúðir sinar á kostnaðarverði eða í eðlilegu samræmi við almennt verðlag, ef þeir þyrftu að selja þær, t.d. vegna brottflutnings. Gegn þessum vanda verður ekki snúizt, nema þessir menn fái nokkra tryggingu fyrir því, að þeir bíði ekki tjón af framtaki sínu, sem er þjóðfélaginu svo mikilvægt til eflingar byggðajafnvægi.

Með skírskotun til þessa, sem ég hef nú sagt, þá gerir frv. þetta ráð fyrir, að í lögin um Húsnæðismálastofnun ríkisins komi nýr kafli, er fjalli um íbúðarlán til eflingar byggðajafnvægi. Þar segir, að ríkisstj. geti ákveðið eftir beiðni viðkomandi sveitarstjórnar sérstaka fyrirgreiðslu við húsbyggjendur í þeim héruðum landsins, þar sem aðstoðar er þörf til eflingar byggðajafnvægi í landinu. Lagt er til, að stjórn byggðasjóðs sé kvödd til ráða við slíkar ákvarðanir. Þarf þá að meta, hvort aðstoðar er þörf og hvort aðstoð kemur að tilætluðum notum til eflingar jafnvægi í byggð landsins. Enn fremur getur þurft að meta, hvaða staðir hafi forgang eða í hvaða röð hin einstöku byggðarlög hljóta aðstoð þessa, ef ekki verður hægt að sinna öllum réttmætum umsóknum samtímis.

Frv. kveður svo á um form þeirrar aðstoðar, sem veita skal, að ákvörðun um aðstoð eigi að gilda fyrir 4 ár í senn. Hér er reiknað með ákveðnu framkvæmdatímabili hliðstætt því, sem lög mæla nú fyrir um aðstoð úr byggingarsjóði verkamanna, til að koma við skipulegum vinnubrögðum og áætlunargerð um að ná settum áfanga í íbúðarbyggingum. Á þessu tímabili skal veita í viðkomandi sveitarfélag sams konar lán og veitt eru nú úr byggingarsjóði ríkisins til íbúða, sem byggðar eru á vegum framkvæmdanefndar byggingaráætlunar ríkisins í Breiðholti í Reykjavik. Þessi sérstöku íbúðarlán á að veita öllum byggingaraðilum, bæði til byggingar eigin íbúða og leiguíbúða, hvort sem það eru einstaklingar, byggingarfélög eða viðkomandi sveitarfélag sjálft. Hin sérstaka aðstoð er fólgin í því, að lán þessi eru að upphæð 80% af byggingarkostnaði íbúðar og eru til 33 ára, afborgunarlaus fyrstu 3 árin, en endurgreiðast síðan á 30 árum. Hér er um að ræða miklum mun betri lán en hin almennu lán byggingarsjóðs ríkisins. Þau lán, sem nú eru ákveðin 800 þús. á hverja íbúð, nema naumast 40% af byggingarkostnaði meðalstórrar íbúðar og eru einungis til 25 ára og með engum afborgunarfresti.

Til að mæta fjármagnsþörf byggingarsjóðs ríkisins vegna framangreindra íbúðalána til eflingar byggðajafnvægi er í frv. lögð sú skylda á byggðasjóð að kaupa skuldabréf, sem veðdeild Landsbanka Íslands er heimilt að gefa út til fjáröflunar í byggingarsjóðinn. Þessi skuldabréfakaup byggðasjóðs hljóta að nema verulegri fjárhæð á hverju ári, ekki undir 200—300 millj. kr., ef miðað er við, að íbúðarlán til eflingar byggðajafnvægi verði ekki til færri en 200—300 íbúða árlega. Með tilvísun til þess, sem ég sagði um mikilvægi þessara aðgerða, getur ráðstöfunarfé byggðasjóðs ekki verið betur varið miðað við tilgang sjóðsins en að standa undir því, sem sérstaklega er gert í húsnæðismálunum til eflingar jafnvægi í byggð landsins. Ef hins vegar kann að þykja nauðsynlegt að auka tekjur byggðasjóðs í þessu skyni, þá er það aðgerð, sem að mínu viti krefst forgangs.

Þá felur frv. í sér ákvæði um verðtryggingu þeirra íbúða, sem hin sérstöku lán til eflingar byggðajafnvægi hafa verið lánuð út á. Þessi verðtrygging er til góða upphaflegum lántakendum, en nær ekki til eigenda íbúðanna, sem síðar kunna að verða. Er verðtryggingin í því fólgin, að byggingarsjóði ríkisins er að beiðni lántakenda gert skylt að yfirtaka viðkomandi íbúð, ef 5 ár eru liðin frá lántöku og lánið er ekki greitt að fullu. Skal þá kaupverð íbúðar nema byggingar kostnaði að viðbættri hækkun samkv. byggingarvísitölu að frádreginni fyrningu að mati dómkvaddra manna. Þessa verðtryggingu er ekki skylt að láta í té, ef sveitarfélag er lántakandi.

Ekki er gert ráð fyrir, að byggingarsjóður ríkisins hafi eignarhald til frambúðar á þeim íbúðum, sem hann yfirtekur. Sjóðnum er gert að skyldu að selja þessar íbúðir á hæsta fáanlegu verði. Hins vegar er ekki heimilt, að söluverð þessara íbúða sé lægri en sem nemur byggingarkostnaði, nema sveitarfélag sé kaupandi.

Til að mæta tapi, sem byggingarsjóður kann að verða fyrir vegna mismunar á kaupverði og söluverði hinna verðtryggðu íbúða, kveður frv. svo á, að ráðstafa skuli fjárhæð, sem svarar tekjum af 1% lántökugjaldi, sem sjóðurinn tekur nú samkv. lögum af öllum útlánum sínum. Erfitt er af augljósum ástæðum að gera sér grein fyrir, hve miklu byggingarsjóður kann að tapa við framkvæmd verðtryggingarinnar. Það hlýtur að fara mikið eftir árangri þeirra aðgerða, sem gerðar eru samkv. þessu frv. Ef vel tekst til, eru líkur fyrir því, að fólksflutningar til staða, sem njóta verðtryggingarinnar, stuðli þar að hækkun húsaverðs eða geti komið í veg fyrir óeðlilega lágt verðlag húsa. Hins vegar er nauðsynlegt að kveða á um, hvað heimilt er að verja miklu fjármagni vegna verðtryggingarinnar. Þess vegna er lagt til, að fjárhæð, sem svarar lántökugjaldi byggingarsjóðsins, megi verja í þessu skyni.

Í bili þarf aftur á móti ekkert fjármagn vegna verðtryggingarinnar. Samkv. ákvæðunum um verðtryggingu getur hún ekki komið til framkvæmda fyrr en í fyrsta lagi eftir 5—6 ár frá því, að frv. þetta verður að lögum. Ekki er óvarlegt að reikna með, að það fjármagn, sem lántökugjaldið gefur á þessu tímabili, verði orðið samtals a.m.k. 100 millj. kr., þegar komið getur til útgjalda að ráði vegna verðtryggingarinnar. Nauðsyn ber hins vegar til að hafa hliðsjón af þessari nýju fjármagnsþörf vegna verðtryggingarinnar, þegar hinir almennu tekjustofnar íbúðarlánakerfisins verða efldir, eins og augljóslega þarf að gera, þótt ég geri ekki í þessu frv. till. um það efni, þar sem mér þykir enn rétt að láta reyna á, hvort hæstv. félmrh. stendur við margítrekuð loforð um að gera þetta.

Auk hins nýja kafla um íbúðarlán til eflingar byggðajafnvægi, sem ég hef nú gert grein fyrir, felur þetta frv. í sér breytingar varðandi tvö önnur atriði. Er þar um að ræða hækkun á framlagi ríkissjóðs til byggingarsjóðs verkamanna og hækkun á fjárhæð hinna almennu íbúðarlána byggingarsjóðs ríkisins.

Í meira en 40 ár hefur ríkissjóður greitt árlega framlag til byggingarsjóðs verkamanna, sem verið hefur jafnhátt og samanlögð framlög sveitarfélaga til byggingarsjóðsins hafa verið á hverju ári. Eftir að gagnger breyting var gerð á verkamannabústaðakerfinu árið 1970, komu í ljós erfiðleikar í fámennum sveitarféfögum á framkvæmd þessara mála. Kom það til af því, að byggingarframkvæmdum eru sett takmörk, sem miðast við framlag hlutaðeigandi sveitarfélags til byggingarsjóðs verkamanna. Samkv. þessum ákvæðum mátti hámarksframlag sveitarfélaga ekki vera hærra en sem svaraði 400 kr. á hvern íbúa í viðkomandi sveitarfélagi. Þetta hámarksframlag reyndist vera of lágt í fámennum sveitarfélögum, til þess að við yrði komið nægilega miklum og hagkvæmum byggingarframkvæmdum. Til að bæta úr þessu var samþ. á síðasta Alþ., að hámark framlagsins skyldi vera 1.200 kr. í stað 400 kr.

Þrátt fyrir þessa bragarbót, sem þýddi, að möguleikar til framkvæmda þrefölduðust, hefur komið í ljós, að ekki var nóg að gert. Þar að auki hefur komið til, að sveitarfélögin hafa átt erfitt með að standa undir greiðslubyrði sinni vegna byggingar verkamannabústaða. Afleiðingin hefur orðið sú, að verkamannabústaðir hafa ekki verið byggðir í eins ríkum mæli og þurft hefði. Til að bæta úr þessu er ekki ráð að leggja þyngri byrðar á sveitarfélögin en gert hefur verið, miðað við óbreytta tekjustofna þeirra og verkefni. Þess vegna er lagt til í þessu frv., að byggingarsjóður verkamanna verði fjármagnaður af ríkissjóði að 3/4 hlutum og af sveitarsjóðum að 1/4. Þessi breyting felur í sér þreföldun á upphæð framlaga ríkissjóðs miðað við óbreytta fjárhæð frá sveitarfélögunum. Þannig er á fjárlögum þessa árs framlag ríkissjóðs til byggingarsjóðs verkamanna ákveðið 63 millj. kr. gegn jafnháu framlagi frá sveitarfélögunum. Hér er því um að ræða 126 millj. kr. hækkun á framlagi ríkissjóðs, miðað við óbreytta fjárhæð frá sveitarfélögunum. Þetta þýðir, að ráðstöfunarfé til byggingar verkamannabústaða gæti tvöfaldazt, án þess að aukið sé framlag sveitarfélaganna.

Gera má ráð fyrir, að þessi breyting á hlutfalli framlaga til sjóðsins stórauki byggingu verkamannabústaða, þar sem frumkvæði þessara framkvæmda er samkv. lögum í valdi sveitarstjórna. Með slíkum ráðstöfunum verður bezt unnið að húsnæðismálum láglaunafólks, þar sem lánskjör byggingarsjóðs verkamanna eru þau langtum beztu, sem völ er á.

Þá felur frv. loks í sér breytingu á hámarki íbúðarlána byggingarsjóðs ríkisins úr 600 þús. kr. í 900 þús. kr. til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar. Þegar lögfest var 600 þús. kr. hámarksupphæðin í maí 1970, var vísitala byggingarkostnaðar 439 stig, en var orðin um síðustu áramót 689 stig eða hafði hækkað um 56,9%. Miðað við þessa hækkun byggingarkostnaðarins er það algert lágmark að hækka lánin í 900 þús. kr., ef þau eiga að halda raungildi sínu. Það er því ekki nægileg sú hækkun upp í 800 þús. kr., sem húsnæðismálastjórn hefur nú ákveðið með samþykkt hæstv. félmrh. En þessu frv. er ætlað að bæta úr þessu ófremdarástandi.

Mér þykir rétt að geta þess, að fyrr á þessu þingi — fyrir áramót — lagði ég fram till. til þál., þar sem skorað var á hæstv. félmrh. að hlutast til um, að íbúðarlán byggingarsjóðs ríkisins yrðu hækkuð úr 600 þús. kr. í 900 þús. kr. Þessi till, virtist koma hreyfingu á málið, því að skömmu síðar ákvað húsnæðismálastjórn hækkun upp í 800 þús. kr., eins og ég hef þegar getið um. En hér var hvergi nærri nóg að gert. Nú hef ég lagt til í frv.—formi, að þessi ráðstöfun verði gerð. Þáltill. mín liggur hins vegar enn þá fyrir allshn. SÞ. Það hefur verið leitað álits húsnæðismálastjórnar um till. Þrír húsnæðismálastjórnarmenn hafa skilað séráliti, og einn þeirra manna er Hannes Pálsson frá Undirfelli, sá eini, sem hefur verið alla tíð, frá því að húsnæðis málastjórn var stofnuð, í stjórninni og er því að öllum öðrum ólöstuðum sá maður, sem mest er inni í þessum málum. Ég vil nú leyfa mér að lesa úr þessu bréfi, sem er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Húsnæðismálastjórn hefur borizt bréf, dags. 23.3. 1973, frá félmn. Alþ., þar sem leitað er álits húsnæðismálastjórnar varðandi þáltill. á þskj. 135. Þáltill. þessi er flutt af Þorvaldi Garðarí Kristjánssyni og er áskorun til hæstv. félmrh. um það að hækka lánsfé þeirra, er fá lán á vegum byggingarsjóðs ríkisins, með hliðsjón af byggingarvísitölu úr 600 þús. kr. á íbúð í 900 þús. kr. á íbúð. Við undirritaðir húsnæðismálanefndarmenn leggjum til, að hið háa Alþ. samþ. umrædda þáltill. á þskj. 135 og færum fyrir því eftirfarandi rök:

Með lögum nr. 30 frá 12. maí 1970 var hámarkslán frá Húsnæðismálastofnuninni ákveðið 800 þús. kr. og skyldi félmrh. geta hækkað það að tveimur árum liðnum með hliðsjón af hækkun byggingarvísítölu. Þegar hámarkslánið 1970 var ákveðið af hinu háa Alþ., var byggingarvísitalan frá 1.3. 1970 í gildi. Miðað við þá vísitölu kostaði rúmmetrinn í vísitöluhúsinu 4.080 kr. Byggingarkostnaður á 370 rúmm. íbúð, sem má teljast meðalíbúð, var því 1.509 kr. og byggingarsjóðslán út á slíka íbúð var þá 39,7% af kostnaðarverði meðalíbúðar. Miðað við byggingarvísitölu er tók gildi 1.3 1973, er byggingarkostnaður á hvern rúmmetra 6.580 kr. eða á hverja 370 rúmmetra íbúð 2.434.600 kr. Ef hámarkslán væri 900 þús. kr. á íbúð, þá er lánið þó ekki meira en ca. 37% af kostnaði. Lántakandi, sem byggir nú, fengi því 2,7% lægra lán miðað við byggingarkostnað heldur en lögin frá 1970 gerðu ráð fyrir. Það er því um afturför að ræða, þótt hámarkslán væri ákveðið 900 þús. kr. 1973. Rétt er og að geta þess, að samkv. lauslegri áætlun Hagstofu Íslands hækkar byggingarvísitalan, sem nú er í gildi, úr 708 stigum í 762 stig, vegna kauphækkana 1. marz 1973 og hækkunar á söluskatti. Þegar slík hækkun er tekin með, verður kostnaður á hvern rúmmetra vísitöluhússins 7.100 kr. eða byggingarkostnaður á 370 rúmm. íbúð ca. 2.627.000 kr. Þessu til viðbótar kemur svo hækkun byggingarefnis á tímabilinu frá 1. marz til 1. júlí 1973, svo að byggingarvísitalan fer 1. júlí 1973 langt yfir 762 stig. Það má því slá því föstu, að þótt hámarkslán yrði hækkað í 900 þús. kr. þá yrði lánaprósentan miðað við byggingarkostnað 1973 alltaf talsvert lægri en 34% af kostnaði á meðalíbúðina. Þrátt fyrir 900 þús. kr. hámarkslán yrði því um meiri en 6% afturför að ræða frá 1970 og meiri afturför teljum við óhæfu, þar sem takmarkið þarf vitanlega að vera það að hækka lánin og lengja lánstímann. Þróunin má ekki verða öfug, því að slík öfugþróun eykur húsnæðiskostnaðinn.“

Svo mörg voru þau orð. Ég þarf í raun og veru engu að bæta við þessi sterku rök. Það liggur við, að ég fyrirverði mig fyrir að hafa ekki gert till. um meiri hækkun íbúðarlánanna en í 900 þús. kr. á íbúð.

Ég hef nú, herra forseti, lokið við að gera grein fyrir frv. því, sem ég flyt á þskj. 501. Mér þykir aðeins rétt að víkja að því, að nú liggja fyrir hv. Alþ. tvö frv. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins. Annað er frv. frá hv. 1. þm. Vestf. og þm. Tómasi Árnasyni á þskj. 388. Hitt frv. er stjfrv. á þskj. 480. Í stjfrv. felast tvær breytingar. Önnur er sú að hækka íbúðarlán húsnæðismálastjórnar úr 600 þús. kr. í 800 þús. kr. á hverja íbúð eða nánar tiltekið að staðfesta þá ákvörðun, sem húsnæðismálastjórn hefur þegar tekið, eins og ég hef áður getið um. Ég þarf ekki að fara orðum um það, hve fánýt og óeðlileg slík till. er. Hin till. er um, að heimilt sé að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, sem nemi allt að 80% af byggingarkostnaði, enda hafi hlutaðeigandi sveitarfélag ekki byggt íbúðir samkv. 1. gr. laga nr. 97 frá 1965. Hér er um að ræða að veita lán til byggingar leiguíbúða með þeim lánskjörum, sem veitt voru til bygginga á vegum framkvæmdanefndar byggingaráætlunar ríkisins í Breiðholti 1 Reykjavík. Er gert ráð fyrir, að þessi lán séu veitt til 1.000 íbúða á næstu 5 árum.

Ég vil leyfa mér að vekja athygli á því, hve ófullnægjandi þessi till. hæstv. ríkisstj. er og varhugaverð, leyfi ég mér að segja, fyrir sveitarfélögin sjálf. Hún er ónóg, vegna þess að með tilvísun til þess, sem ég hef áður sagt, þá er alls endis ónóg að miða fyrirgreiðslu við landsbyggðina einungis við leiguíbúðir. Og hún er ábyrgðarlaus gagnvart sveitarfélögunum, því að auðvitað vildu sveitarfélögin komast hjá að leggja í byggingarframkvæmdir, ef þess væri kostur, að aðrir aðilar gætu það. En öðrum aðilum er fyrirmunað að gera það með þessum kjörum, vegna þess að þetta ákvæði gerir einungis ráð fyrir, að sveitarfélögin eigi hlut að máli.

Þetta er þeim mun meiri óhæfa, þar sem á síðasta Alþ. var samþykkt þál. um að skora á ríkisstj. að leggja fyrir Alþ. frv. til l. um útvegun fjármagns og útlán þess til sveitarfélaga og annarra þeirra aðila, sem byggja vilja leiguíbúðir. Þessi þáltill. var samþykkt á síðasta þingi, og ríkisstj. var fyrirlagt að flytja frv. um að efla byggingu leiguíbúða, en miða það ekki einungis við sveitarfélög, heldur hverja þá aðra aðila, sem væru fúsir til að byggja. Ég bendi á þetta aðeins til þess að leggja áherzlu á, hve fáránlegur þessi málatilbúnaður hæstv. ríkisstj. er.

Ég gat um það, að annað frv. lægi hér fyrir á þskj. 388. Það fjallar um að veita lán með sömu kjörum og gilt hafa um byggingar framkvæmdanefndar byggingaráætlunar ríkisins í Breiðholti. Það fjallar að þessu leyti um það sama og stj.frv. En þetta frv., sem hv. 1. þm. Vestf. er 1. flm. að, er betra frv. að mínu viti heldur en stj.frv., vegna þess að það takmarkar ekki þessa aðstoð einungis við leiguíbúðir, heldur er það opið að veita þessi kjör við byggingar annarra íbúða. Hins vegar hefur þessi till. hv. 1. þm. Vestf. mikinn ókost. Það er gert annars vegar ráð fyrir, að þetta verði bráðabirgðaákvæði í lögunum, en ekki til frambúðar. Hins vegar er gert ráð fyrir, að þessi fyrirgreiðsla komi ekki til framkvæmda fyrr en árið 1975.

Ég hef leyft mér að vekja athygli á þessum tveimur öðrum frv. um breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins til þess að leggja áherzlu á það, hve þýðingarmikið er, að frv. mitt á þskj. 501 nái fram að ganga á þessu þingi, ef mönnum er alvara að gera eitthvað raunhæft og markvisst í húsnæðismálunum til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Það kann að vera, að það sé lítil von til þess, að það fáist afgreiðsla á þessu frv., áður en þingi lýkur. En ég geri ráð fyrir, að eitthvað verði samþykkt til breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, áður en þingi lýkur. Ég vildi því, ef ekki tekst að fá frv. mitt samþ., sem auðvitað væri eðlilegt og væri hægt að gera, ef vilji væri til þess hjá meiri hluta hv. Alþ., mega vonast til þess, að við afgreiðslu þessara mála á þessu þingi verði tekið það tillit til þessara till. minna, að eitthvað af þeim nái þá fram að ganga sem breyt. við stj.frv.