06.04.1973
Neðri deild: 79. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3131 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

218. mál, breyting á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu

Frsm. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. N. hefur athugað frv. og birtir nál. sitt ásamt brtt. á þskj. 507. Meginefni frv. varðar breytingu á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu og skipan lögsagnarumdæma. Lagt er til, að Garðahreppur og Bessastaðahreppur verði sameinaðir Kjósarsýslu og heyri þannig áfram til umdæmis bæjarfógetans í Hafnarfirði sem sýslumanns Kjósarsýslu, en bæjarfógetinn í Keflavík verði jafnframt sýslumaður Gullbringusýslu með þeim breyttu mörkum, sem ákveðin eru í 1. gr. frv.

Frv. þetta er flutt á grundvelli þál. frá 24. febr. 1972 um breytta skipan dóms- og lögreglumála á Suðurnesjum, þannig, að á svæðinu sunnan Hafnarfjarðarkaupstaðar heyri þau mál til einu embætti í Keflavík. Vegna staðhátta þótti slík skipan mála hentugri og til mikils hagræðis fyrir þá, sem búa í hreppum sunnan og vestan Hafnarfjarðar.

N. þótti rétt til þess að taka af öll tvímæli, að það yrði tekið fram í frv., að afnotaréttur sveitarfélaga þeirra, sem um ræðir í l. þessum, til beitilanda og afrétta, haldist óbreyttur þrátt fyrir ákvæði laga þessara, og hnígur brtt. n. að því. Ákvæði til bráðabirgða fela í sér nauðsynleg fyrirmæli um framkvæmdaratriði vegna þessara breytinga á sýslumörkum og þurfa ekki skýringa við.

N. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem ég hef gert grein fyrir. Fjarstaddur afgreiðslu málsins var Gísli Guðmundsson.