07.04.1973
Neðri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

236. mál, launaskattur

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til viðbótar því, sem hér kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., í sambandi við þá menn, sem ráðnir eru til starfa á bátum án lögskráningar og ekki eru hlutaráðnir, og svo hinna, sem eru á bátum undir 12 tonnum, sem ekki er skylda lögum samkv. að skrá á. Það eru í þeim tilfellum líka um að ræða, a.m.k. hjá okkur á Vestfjörðum, dæmi þess, að fastráðnir landmenn eru ekki lögskráðir, en eru eigi að síður hlutaráðnir. Þá finnst mér, að spurningin ætti líka að vera: Tekur þetta líka til þeirra manna einnig, eða gætu skattyfirvöld heimtað greiðslur samkv. frv. af þessum mönnum líka?

Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram, og beini þeim tilmælum til þeirrar n., sem þetta mál fær, að þetta þriðja atriði yrði líka athugað með tilliti til þess, hvernig á það væri litið.