07.04.1973
Neðri deild: 80. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

236. mál, launaskattur

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Það getur vel verið að það sé misminni hjá mér um lögskráningarskylduna, að það séu 6 rúmlestir, en ekki 12, en mér gafst ekki tími til að fletta upp á því í lögum. Þar er auðvitað hægt að finna það, en mig minnir þetta samt.

Í sambandi við það, sem hæstv. sjútvrh. sagði, að það þyrfti að lögskrá, annað væri lögbrot, þá veit hann það sem gamall útgerðarmaður og maður, sem er mjög vel kunnugur í útgerðarbæjum, að þegar maður forfallast á síðustu stundu og bátur er að fara á sjóinn, er kannske ekki alltaf hægt að ná í skráningaryfirvöld á viðkomandi stöðum. Þá tíðkast það vafalaust í 99 tilfellum af 100, að maðurinn fer óskráður á sjóinn, það veit ég, að hæstv. ráðh. veit. Á þá útgerðin að gjalda þess í slíkum tilfellum og borga af slíkum forfallamönnum launaskatt, en ekki af öðrum. Það er það sem er um að ræða. Í hinu tilfellinu skiptir þetta aðeins eina tegund veiða mjög verulegu máli, línuútgerðina. Það hefur farið mjög í vöxt, að einstaka bátar geta ráðið fastan mannskap, aðrir bátar ekki. Er það talið eðlilegt og sanngjarnt í sambandi við fiskverð, að fella niður launaskatt af launum áhafnar báts, sem er með 11 manna áhöfn á línuveiðum, bæði á sjó og landi, alla fastráðna, en ekki áhafnar annars báts, sem er með bækistöð í næsta skúr fyrir sína línuútgerð og er með jafnmarga menn á sjó og hinn, en e.t.v. með aðeins einn fastráðinn mann í landi, hitt eru allt hinir svokölluðu ákvæðisbeitningarmenn? Á þá útgerð þess báts samkv. þessu að greiða launaskatt af öllum nema þessum eina, sem er fastráðinn?

Það var þessi athugasemd, sem ég gerði í sambandi við frv. og mæltist til, að væri tekin til athugunar. Og hæstv. fjmrh. tók undir, að þetta væri athugað. Hitt má kannske segja, að sé í rétt, að sjálft samkomulagið er gert við samtök útvegsins, sem ná ekki til minnstu bátanna. Ég var að gera þessa aths. til þess, að þeir væru ekki útilokaðir vegna þess, að þeir væru ekki innan Landssambands ísl. útvegsmanna. Þetta er auðvitað tiltölulega lítill hluti af þessum heildarlaunum. Það er aðeins þetta, sem ég er að fara fram á að verði athugað í fullri vinsemd.