07.04.1973
Neðri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3170 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Stefán Gunnlaugsson:

Herra forseti. Svo sem fram hefur komið í þessum umr., hefur heilbr: og trn. orðið sammála um meginatriði þessa frv., sem hér er til umr., og leggur til, að það verði samþykkt á þessu þingi. Jafnframt flytur n. brtt. við frv., sem gerð hefur verið grein fyrir af hálfu hv. formanns n., og nm. áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja frekari brtt.

Það fer ekki á milli mála, að hér er á ferðinni yfirgripsmikið mál. Með frv. er lagt til, að aðalefnisatriði þriggja sjálfstæðra laga séu sameinuð í einn lagabálk. Það er út af fyrir sig æskilegt. Hitt er þó mikilvægast við þessa fyrirhuguðu lagasetningu, að stefnt er að því að endurskipuleggja heilbrigðisþjónustuna í landinu með það fyrir augum að gera hana færari um að sinna þeim verkefnum, sem til er ætlazt á því sviði.

Meðgöngutími þessa frv. er orðinn býsna langur. Það út af fyrir sig þarf ekki að vera mönnum undrunarefni, því að hér er vissulega um vandasamt mál að ræða og það er þess eðlis, að margháttaðir hagsmunir rekast þar á og erfitt að gera svo að öllum líki fullkomlega í þeim efnum. Þrátt fyrir mikla vinnu og vandvirkni, sem höfundar frv. hafa vafalaust lagt fram við undirbúning þess, barst þeirri þn., sem hafði frv. til meðferðar, mikill fjöldi brtt. Ýmis veigamikil nýmæli eru í þessu frv., sem erfitt er að sjá fyrir með vissu, hvernig muni reynast. Sumum finnst, að ýmis þeirra orki tvímælis, og svo er um fleiri atriði í þessu frv. En mér virðist, að nm. í heilbr: og trn. séu sammála um nauðsyn þess, að ekki dragist miklu lengur, að Alþ. geri róttækar ráðstafanir til þess að reyna að bæta úr ríkjandi ástandi í heilbrigðismálum víða úti um land, einkum hinum alvarlega læknaskorti, því yrði að freista þess að afgreiða þetta frv. nú á þessu þingi að meginefni til sem lög frá Alþ., í trausti þess, að framkvæmd á ákvæðum laganna hið allra fyrsta verði til þess að laga það, sem helzt er ábótavant í heilbrigðisþjónustu landsmanna.

Í því sambandi vil ég gjarnan minna á, að margir eru þeirrar skoðunar, að heilsugæzlustöðvar úti um land, þar sem læknar vinna saman við læknaþjónustu, muni laða lækna til starfa, þar sem nú er læknaskortur. Vonandi hafa þeir, sem þessarar skoðunar eru, rétt fyrir sér. En aðrir eru ekki bjartsýnir á, að þessar stöðvar leysi vandann. fleira þurfi að koma til. Þessi vandi verði áfram til staðar, að einhverju leyti a.m.k., þótt heilsugæzlustöðvar rísi úti um land. Um þetta atriði verður að sjálfsögðu ekki fullyrt með neinni vissu að svo stöddu. Meiri reynsla verður að fást um rekstur fleiri stöðva hérlendis en verið hafa til þessa. En það er ákaflega fróðlegt að mínum dómi að heyra, hvað mætur maður eins og núv. landlæknir segir um þessa hluti. Hann hefur ritað merka grein um þetta vandamál, þ.e.a.s. læknaskortinn. Hún birtist í Læknablaðinu 6. hefti, des. 1972, og er fyrirsögn hennar: Um læknaliðun og læknaskort á Íslandi. Í upphafi þessarar gr. segir svo orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Undanfarin ár hefur mikið verið rætt um vandamál, sem risið hafa hér á landi vegna skorts á heimilis- og héraðslæknum, almennum læknum. Þetta er alvarlegt vandamál, því að almennir læknar eru ein nauðsynlegasta stétt þjóðfélagsins. Læknar og stjórnvöld hafa birt ýmsar till. um úrlausnir á vandamálinu, en þær eru m.a.: 1) að byggja heilsugæzlustöðvar, 2) að hefja kennslu í heimilislækningum við Háskóla Íslands, og 3) að stofna sérstakar læknisstöður við ríkisspítalana, sem bundnar séu skilyrði um ákveðna þjónustu í héraðinu.“

Svo mörg eru þau orð. Á öðrum stað í þessari merku grein segir landlæknir, með leyfi hæstv. forseta, um fyrstu leiðina, sem hann minnist á í upphafi greinarinnar:

„Flestir geta víst verið sammála um, að skortur á læknum, sem stunda almennar lækningar, og dreifing sérfræðinga sé mjög ójöfn, þar eð flestir þeirra eru í Reykjavík. Í Kaupmannahöfn eru um 40% af praktíserandi læknum sérfræðingar 1972, en í Reykjavík var hlutfallstala sérfræðinga, sem eru praktíserandi læknar um 75% árið 1970. Erfitt er að fá nákvæmar upplýsingar frá höfuðborgum annarra nágrannalanda, en hlutfallstala sérfræðinga mun vera töluvert lægri þar en í Reykjavík. Höfuðvandamálið hér og í nágrannalöndunum er skortur á læknum til að gegna almennum læknisstörfum, sérstaklega í dreifbýlinu, en einnig í þéttbýli. mörgum ráðum hefur verið beitt til þess að leysa þann vanda. Bygging heilsugæzlustöðva hefur ekki leyst þennan vanda nema að nokkru leyti. Einn megintilgangur frv. um heilbrigðisþjónustu, sem nú liggur fyrir Alþ. er bygging heilsugæzlustöðva víða um landið til þess að bæta læknisþjónustuna í dreifbýlinu. Ég fæ ekki séð, að bygging heilsugæzlustöðvar á Ísafirði bæti læknisþjónustu á Flateyri eða Þingeyri eða sams konar bygging á Egilsstöðum gagni mikið íbúum Seyðisfjarðar, eftir að hausta tekur, og legg ég því til, að stöðvar á Flateyri, Þingeyri og Seyðisfirði verði vel búnar tækjum og þar verði einnig sérhæft fólk til aðstoðar fyrir lækninn. Fleiri lík dæmi mætti nefna, sem gefa til kynna, að heilsugæslustöðvar leysi ekki allan vanda hér frekar en í öðrum löndum, og reyndar þeim mun síður sem Ísland er flestum löndum strjálbyggðara og erfiðara. En ekki má búast við því, að almennir læknar flykkist út á land, meðan skortur er á almennum læknum í Reykjavík. Að sjálfsögðu ber ekki að túlka orð mín svo, að ég sé mótfallinn að byggja heilsugæzlustöðvar“.

Enn fremur segir landlæknir á öðrum stað þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er mikið vandamál, að víða í heiminum fækkar læknum, sem stunda almennar lækningar, þrátt fyrir tilraunir margra nágrannaþjóða til að bæta menntunar- og starfsaðstöðu almennra lækna, m.a. með því : 1) að hefja kennslu í heimilislækningum, 2) að viðurkenna almennar lækningar sem sérgrein, og 3) að byggja heilsugæzlustöðvar, hefur almennum læknum ekki fjölgað að ráði“.

Á öðrum stað segir landlæknir í greininni, með leyfi hæstv. forseta:

„Það ber að fagna till., sem fram hafa komið um að stofna sérstakar læknastöður við ríkisspítalana, sem bundnar eru skilyrði um tímabundna þjónustu í héraði. Þessar stöður ættu að vera fleiri en 6, líkt og ráðgert er, og verða skilgreindar sem sérfræðings-, aðstoðarlæknis- eða héraðslæknisstöður. Ráðningartíminn á að vera bundinn við 3—5 ár.“

Svo mörg eru þau orð. Þetta, sem ég hef hér haft eftir landlækni í hans athyglisverðu grein í Læknablaðinu, undirstrikar að mínum dómi þann vanda, sem við er að etja, þar sem læknaskorturinn er. Þess skal getið, að landlæknir ræðir nokkuð um leiðir í þessari grein, sem hugsanlega gætu orðið vænlegar til árangurs í þessu efni. Ég get bætt því við, að þótt læknaskorturinn sé hvað alvarlegastur í dreifbýlinu, er þetta einnig að verða vandamál í þéttbýli, t.d. hér á suðvesturhorni landsins utan Reykjavíkur. Ég vona, að frv., sem hér er verið að ræða, ef að lögum verður, geti orðið til þess að hjálpa til að leysa þetta vandamál að nokkru a.m.k. En ég óttast, að ýmislegt fleira þurfi að koma til, ef takast á að leysa þennan vanda, læknaskortinn, svo að viðunandi geti talizt, og margt fleira en gert hefur verið í þessum málum fram til þessa.

Í umr. um þetta mál, sem hér er verið að ræða, hefur lítið sem ekkert verið rætt um kostnaðarhlið málsins, vissulega hlýtur það að skipta máli. Það er alkunna, að allur kostnaður við heilsugæzlu hefur vaxið mjög á skömmum tíma meðal allra menningarþjóða. Um það hefur verið rætt, á hvern hátt megi draga úr þessum kostnaði. Ýmsir telja, að í óefni sé komið á þessum sviðum. Það er talið, að við Íslendingar verjum nú nær 7% af þjóðartekjum til heilsugæzlu, en yfir 30%, ef framlög til félagsmála eru meðtalin. Það fer auðvitað ekki á milli mála, að nái þetta frv. fram að ganga og komi til framkvæmda, verður um að ræða útgjöld, sem nema hundruðum millj. kr. fyrir ríkissjóð umfram það, sem ríkið hefur orðið að leggja til þessara mála hingað til.

Það kemur mönnum auðvitað ekki á óvart á þessum stað, að núv. hæstv. ríkisstj. virðist lítið hugsa um, hvað hlutirnir kosta, eins og fjármálastjórninni er háttað í stjórnartíð hennar. A.m.k. hefur þess ekki orðið mikið vart hér í sölum hins háa Alþ. Að vísu er það ekkert sérstakt um frv., sem hér er til umr. Yfirleitt hefur það verið þannig, að ekki hefur farið mikið fyrir því í ræðum hæstv. ráðh., þegar þeir hafa verið að gera grein fyrir málum hér í sölum Alþ., sem kosta ríkissjóð stórar fjárfúlgur og koma við pyngju almennings í hækkuðum sköttum, að það væri neitt vandamál að fjármagna hlutina. Kannske er ekkert nema gott eitt um það að segja að áliti sumra. En eitt er víst í því sambandi, að skattborgararnir eru ekki ánægðir með þá gegndarlausu skattpíningu, sem núv. hæstv. ríkisstj. stendur fyrir. En hvað sem því liður, er þetta mál, sem hér um ræðir, slíkt nauðsynjamál, að það verður að ná fram að ganga í meginatriðum. Hins vegar finnst mönnum, að ekki hefði verið úr vegi, að hæstv. ráðh. gerði grein fyrir kostnaðarhlið þessa mikilvæga máls.

Við 1. umr. frv. minntist ég á örfá atriði, sem mér fannst við athugun á frv., að mættu betur fara. Ég drap á það, að athuga þyrfti, hvort ekki væri eðlilegt, að starfsemi heilbrigðiseftirlitsins yrði til húsa í heilsugæzlustöðvum og staða þess í heilbrigðisþjónustukerfinu skýrar ákvörðuð. Í brtt. heilbr: og trn. er gert ráð fyrir, að ráðh. geti ákveðið, að heilbrigðiseftirlitið hafi aðstöðu í heilsugæzlustöð, og enn fremur er brtt., þar sem tekið er fram um ráðgjafarþjónustu lækna við heilsugæzlustöðvar.

Þá minntist ég einnig á við 1. umr. frv., að viss hlunnindi til handa starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar miðist einungis við þá, sem hæstu launin hefðu innan kerfisins. Þessu hefur einnig verið breytt að nokkru í formi brtt. frá n. við 42. gr. 1 og 2. Samkv. brtt. n. er gert ráð fyrir, að ferðalög allra, sem fastráðnir eru samkv. þessu frv., ef að lögum verður, í þágu starfs þeirra skuli vera þeim að kostnaðarlausu, en ekki einungis nokkurra útvaldra, eins og frv. gerði ráð fyrir. Þá var einnig lagt til, að ákvæðinu í frv. um bílastyrki sé breytt þannig, að sömu reglur gildi um starfsmenn heilbrigðisþjónustunnar og aðra starfsmenn ríkisins.

Þá gerði ég það einnig að umtalsefni við 1. umr. málsins og fann að því, að námsstyrkir samkv. frv. væru einungis bundnir við þá, sem hæst settir væru innan hins fyrirhugaða heilbrigðisþjónustukerfis. Þessu er einnig ætlunin að breyta, ef brtt. n. um það efni nær fram að ganga, sem gerir ráð fyrir, að öllum starfsmönnum heilbrigðisþjónustunnar fyrirhuguðu séu boðnir námsstyrkir til að afla sér sérmenntunar til að koma á þeirri heilbrigðisþjónustu, sem ráðgerð er.

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. eða hafa fleiri orð um þetta mál né fara út í einstök atriði þess frekar en ég hef gert, en vil að lokum endurtaka það, sem ég sagði við 1. umr. frv., að þingflokkur Alþfl. vill fyrir sitt leyti stuðla að því, að meginefni þessa frv. nái fram að ganga á þessu þingi.