07.04.1973
Neðri deild: 81. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3179 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Nm. í heilbr: og trn. hafa nú skýrt þetta frv. allýtarlega. Í fyrsta lagi formaður og frsm. n., en síðan bættust við 3 nm. til þess að skýra frv. til viðbótar, svo að meiri hluti nm, hefur haldið hér alllangar ræður í dag um brtt. þær, sem n. flytur sameiginlega, og sömuleiðis um hugsanlegar brtt. Við það hefur svo bætzt hv. 4. þm. Vesturl., sem var að ljúka máli sínu áðan. Ég vil í sambandi við þá hugmynd, sem hann kom með, byrja á því að lýsa skoðun minni á því, að ég er algerlega á móti því að skipa þessa 5 héraðslækna og þessi 5 læknishéruð. Ég get því mjög vel tekið undir orð Bjarna Guðnasonar, 3. landsk. þm., sem ræddi þetta og lýsti sínum ákveðnu skoðunum á þessu, og sömuleiðis Sverrir Hermannsson. 4. þm. Austf.. og raunar hinir að nokkru leyti, sem ræddu málið. Ég tel, að ekki sé verið að stíga neitt spor til þess að bæta heilbrigðisþjónustuna frá því, sem nú er, með skipun þessara héraðslækna. Mín skoðun er afdráttarlaust sú, að landlæknir eigi að hafa með þessi mál að gera, eins og hann hefur haft. og læknar. sem eru á heilsugæzlustöðvum úti um landið og gegna hinum ýmsu störfum í héruðum, eiga að heyra undir landlækni. Það á að vera hans eftirlit. eins og verið hefur, en ekki að stofna fimm ný „kontorembætti“, sem eiga að vera með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Í raun og veru skil ég alls ekki, hvernig nokkrum manni hefur komið til hugar þessi skipting á læknishéruðum, eins og segir í 7. gr. Það kjördæmi, sem ég er fulltrúi fyrir hér á Alþingi, á, eins og Sverrir Hermannsson sagði hér áðan, að hafa 3 héraðslækna af 5. Einn þeirra á að vera í Hafnarfirði og ná yfir mest alla Barðastrandarsýslu. Annar á að vera á Ísafirði og ná að Geirólfsgnúpi eða Djúpi, það er nú engin byggð á milli Djúps að norðanverðu og Geirólfsgnúps. En sá þriðji á að vera á Akureyri, og hann er hugsaður fyrir Strandamenn. Ég held. að margir þurfi að leggja lykkju á leið sína til viðræðna við hann.

M.ö.o: ég vil alveg láta það koma í ljós strax við 2. umr., að ég er andvígur því, að það sé verið að fresta framkvæmd II. kafla laganna á þann hátt, að hann taki ekki gildi fyrr en Alþ. ákveður. Ég tel, að það eigi að gerbreyta þessum kafla og fella þetta niður, og vil hér með eindregið óska þess, að n. taki 19. till. sína aftur til 3. umr. og taki þetta mál fyrir að nýju, og tek undir þau orð nm., sem gerðu þetta að umræðuefni. Ég tel enga ástæðu til að fresta framkvæmd þess kafla l., sem sennilega yfirgnæfandi meiri hluti Alþ. er á móti. Eins og Bjarni Guðnason gat réttilega um, á kannske einhvern tíma seinna að læða honum inn bakdyramegin. Ég tel hættulegt að hafa þennan kafla í frv. og set mig algerlega upp á móti því.

Í 2. gr. frv. segir, að ráðuneytisstjóri stýri rn. undir yfirstjórn ráðh. Hann skal vera sérmenntaður embættislæknir eða hafa menntun í félagslækningum og heilbrigðisfræðum, sem telst jafngild. Það er ekki af því, að hér sé um ákvæði að ræða í þessu frv.. sem varðar þennan eina ráðuneytisstjóra, að ég hef þá skoðun. sem ég mun koma inn á, heldur hitt, að í lögum um stjórnarráð Íslands eru engin ákvæði um það. hvaða menntun ráðuneytisstjórar þurfi að hafa. Þau ákvæði eru ekki til í lögum um stjórnarráð. og þar af leiðandi ekki til ákvæði um ráðuneytisstjóra í öðrum rn. Ég tel því ástæðulaust að binda í lögum, að ráðuneytisstjóri skuli vera sérmenntaður embættislæknir eða hafa menntun í félagslækningum og heilbrigðisfræðum, sem telst jafngild. Það er nú laust ráðuneytisstjóraembættið í landbrn. Það væri þá sennilega rétt. að þeir flyttu frv. um, að í það embætti mætti alls ekki ráða nema búfræðikandídat, og jafnvel ráðuneytisstjóri í sjútvrn. ætti að vera skipstjóri. Ég tel, að af algerum „prinsip“-ástæðum eigi þetta ekki að vera í frv. Það segir alls ekki. að læknir megi ekki vera ráðuneytisstjóri í heilbr: og trmrn. Hvers eiga svo veslings tryggingafræðingarnir að gjalda, ef læknir á að stýra heilbr. og trmrn.? Ég tel, að Alþ. eigi alls ekki að fallast á þetta ákvæði og eigi að fella þetta niður, og ég vænti þess, að n., þar sem hún hefur ekki lokið störfum sínum, taki þetta fyrir og reyni að kanna skoðanir sem flestra þm. á þessu atriði.

Ég rek líka augun í það, og það er ekki í fyrsta sinn, að það kemur fram í frv. eins og þessu, að í 6. gr. er ákvæði um að skipta heilbr: og trmrn. í starfsdeildir í samræmi við ákvörðun ráðh. hverju sinni. Jafnframt skal fylgja með ákveðin heildarskipting, og er hún talin upp í 5 liðum, og 5. liðurinn er áætlanir, rannsókn, skýrslugerð. Það er ákaflega sterk tilhneiging víða að taka upp áætlunargerðir í hverju rn. og fjölmörgum stofnunum.. En þjóðfélagið hefur sett á stofn áætlanadeild, sem á að annast einhliða áætlanagerð, og er því hér um margverknað að ræða, sem ég hygg að eigi hér alls ekki heima. Ef Alþ. telur, að það eigi að vera starfandi ein áætlanadeild, þá er það hún, sem á að fara með áætlanagerð. Einstakir aðilar hafa auðvitað alltaf tækifæri til að bera fram sínar till. og aths., en það á ekki að ráða fólk til áætlanagerðar á öllum mögulegum stöðum í stjórnkerfinu að mínum dómi. Ég tel því, að þetta eigi að fella niður úr frv.

Ég tek mjög undir þau orð hv. þm. Bjarna Guðnasonar, að það vantar áætlun um heildarkostnað með þessu stóra og efnismikla frv. Hvað kostar þessi löggjöf? Hvað kemur hún til með að hækka rekstrarliði heilbrigðismálanna mikið árlega, og hvað er talið að þær framkvæmdir, sem hún gerir ráð fyrir, kosti mikla upphæð, miðað við verðlag eins og það er nú? Ef slík kostnaðaráætlun liggur fyrir, er betra fyrir Alþ. að gera sér grein fyrir, hvað hratt og á hvern hátt skuli farið í framkvæmdir, þó sérstaklega þær framkvæmdir, sem leiðir af stofnkostnaði, sem frv. gerir ráð fyrir. Með því að láta slíkar áætlanir liggja fyrir, getur Alþ. frekar gert sér grein fyrir því, þegar frv. eru flutt, sem eiga að fara hér í gegn, hvað framkvæmd þeirra hefur mikil áhrif á þjóðarbúskapinn og hvað hún hefur mikil áhrif á fjárl. hverju sinni. Við heyrum það a.m.k. hjá almenningi, þegar við þm. leggjum fram frv. um nýja eða aukna skatta, að við höfum ekki verið að reyna að spara, heldur séum við búnir að samþykkja þetta og hitt í blindni og svo sé verið að leggja á nýja skatta. Það erum við, sem berum ábyrgð á skattabyrðinni á hverjum tíma. Þess vegna held ég, að það sé algerlega óhjákvæmilegt, alveg sama hvaða ríkisstj. fer með völd og hvaða flokkar standa að henni, að það sé ófrávíkjanleg regla að gera sér grein fyrir því, hvað setning nýrrar löggjafar kostar þjóðfélagið í hverju tilfelli, því að það, hver skattabyrðin verður ákveðin, miðast við það, sem þingið samþykkir í útgjöldum. Þetta frv. er því hvað þetta snertir meingallað, og það eitt út af fyrir sig er full ástæða til að hugleiða betur.

Ég tek mjög undir orð hv. þm. 4. þm. Austf., Sverris Hermannssonar, að ég vil ekki bregða fæti fyrir samþykkt þessa frv. Það er margt í því, sem er mjög mikils virði, þó að lögð sé meiri áherzla á að ræða það, sem eitthvað er út á að setja. En ég tel, að 4. þm. Austf. hafi bent alveg réttilega á, að það sé hyggilegra að afgreiða þetta frv. ekki fyrr en eftir páska. Þá er það ríkisstj., að segja til um, hvort hún telur ekki skynsamlegt að halda þingi áfram eftir páska, í eina viku eða 10 daga, til þess að ljúka afgreiðslu bæði þeirra mála, sem ríkisstj. leggur áherzlu á að afgreiða, og mála, sem einstakir þm., án tillits til flokka, leggja áherzlu á, að séu afgreidd. Ég held, að það eigi ekki að breyta neinu í sambandi við störf ríkisstj. eða gang þjóðmála, þó að það sé viðurkennt og talið eðlilegt, að löggjafarsamkoma þjóðarinnar kynni sér sem allra vandlegast þau mál, sem henni eru ætluð og hún á að afgreiða. Ég fyrir mitt leyti er andstæðingur þess, að það sé litið á Alþ. sem einhverja afgreiðslustofnun, sem eigi aðeins að taka vöruna úr hillu og pakka henni inn og rétta hana yfir búðarborðið, eins og í hverri annari verzlun. Það er skylda þings og þm., að leggja niður fyrir sér þau mál, sem fyrir þingi liggja. Ég hygg, að enginn þm. fari fram á mjög langan frest til þess að afgreiða þessi mikilvægu mál, og þess vegna tek ég mjög undir þá skoðun og ósk, sem hv. 4. þm. Austf. lýsti hér áðan.

Mín skoðun er sú, að landlæknisembættið eigi að halda fullkomlega þeirri stöðu, sem það hefur haft. Þetta er annað elzta embættið í okkar landi, og ég hef litið svo á og vil vænta þess, að menn megi líta þannig á, að landlæknir eigi að vera tengiliður á milli læknishéraðanna, læknastéttarinnar og ráðh. og ríkisstj. hverju sinni. Hann fer með fagmál þessara mála, og ráðuneytisstjóri er auðvitað fyrst og fremst yfirmaður í stjórnkerfinu, en hinn embættismaðurinn, landlæknirinn, verður alltaf tengiliðurinn á milli stjórnkerfisins, læknishéraðanna og læknastéttarinnar. Ég trúi því, að það sé langbezt að hafa þessi störf undir einni stjórn, en ekki að koma hér með milliembættismenn, eins og þessa 5 héraðslækna, sem ég gat hér um áðan og segir um í 7. gr. frv.

Á þessu stigi málsins ætla ég ekki að flytja brtt. við þetta frv. Það eru ýmis atriði. sem ég hef aths. fram að færa við, sem ég hef talið eðlilegra að koma til n. eða til einhvers nm., og ég hef gert það í sumum tilfellum. En þar sem nm. hafa einnig lýst því yfir, að n. muni halda áfram að starfa að endurskoðun þessa frv., og tvímælalaust hefur verið gefið í skyn, að von sé á fleiri till. frá n., þykir skynsamlegt að bíða 3. umr. með brtt. Þá verður auðvitað að treysta því og fara þess á leit við hæstv. forseta, að 3. umr. fari ekki fram með þeim ógnarhraða, að þm. geti ekki til hlítar kynnt sér þær brtt., sem n. kann að koma með til viðbótar.

Það, sem mest hefur riðið á að gera í sambandi við breytinguna á heilbrigðisþjónustunni og mest hefur kallað að, er að bæta úr algeru neyðarástandi, sem hefur ríkt á undanförnum árum og ríkir enn í ákveðnum héruðum á landinu. Ég held, að ég halli ekki á neitt byggðarlag, þó að ég segi, að þrjú svæði séu langvest sett að þessu leyti, en það eru Vestfirðir víðast hvar, Austfirðir og Norðausturlandið. Ef á að bæta úr því neyðarástandi, sem þar er, verður auðvitað að raða verkefnum eftir því, hvar þau eru brýnust, því að ella fara á stað þau héruð, sem efnalega standa bezt, og heimta til sín það fjármagn, sem Alþ. lætur hverju sinni á fjárl. til þessara mála. Þá er ég hræddur um, að strjálbýlustu héruðin verði eftir sem áður á eftir með heilbrigðisþjónustuna. Þess vegna vil ég mjög fagna þeim ummælum hv. 3. landsk. þm., þegar hann lýsti því yfir, að stuðningur sinn við þetta frv. væri háður því, að þau héruð, sem verst væru sett, hefðu forgang um framkvæmdir. Mér þykir vænt um, að þessi orð koma frá þm. Reykv., og tek mjög undir þau. (Gripið fram í.) Það sýnir bara víðsýni. Hann er héðan úr Reykjavik, en landsk. þm. Hjartað slær þá víðar en hér í Reykjavík, og er gott um það að segja. — Ég vænti þess, að aðrir nm. taki fullt tillit til þessara skoðana og stilli hér upp í frv. till. um það, að þau svæði, sem búa við neyðarástand, gangi fyrir um framkvæmdir. Ég hygg, að það sé Alþ. og þjóðinni allri til mestrar sæmdar að vinna þannig að þessum málum.

Að síðustu vil ég segja, að þó að ég hafi gert þessar athugasemdir, tek ég fram, að það er margt, sem ég hef ekki gert hér að umræðuefni, sem er mjög til bóta í þessu frv. Það væri of langt mál að fara að telja það upp. Ég tel, að í heild hafi verið unnið mikið starf í sambandi við endurskoðun þessara mála. Bæði fyrrv. og núv. heilbr: og trmrh. hafa sýnt mikinn áhuga á því að gera hér stórfellda breytingu, sem ber að fagna og þakka. En maður verður einnig að treysta því, að hæstv. heilbr: og trmrh. sé opinn fyrir athugasemdum, sem fram eru færðar, og telji það ekki vera neina andstöðu eða árás á sig eða þá, sem hafa samið þetta frv. þó að athugasemdir séu gerðar. Ég treysti því, að hann meti og vegi þær aths. og reyni að gera sitt til þess, að þetta frv. fái þá afgreiðslu hér á Alþ., að sem flestir og helzt allir þm. geti vel við unað.