09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3189 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

234. mál, almannatryggingar

Flm. (Geirþrúður H. Bernhöft):

Herra forseti. Á þskj. 547 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 67 frá 20. apríl 1971, um almannatryggingar. Í frv. þessu er gert ráð fyrir þrem breytingum á núgildandi l. um almannatryggingar. 1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nauðsynlegar rannsóknir og aðgerðir eftir tilvísun samlagslæknis hjá sérfræðingum að ¾ hlutum. Þó skulu elli- og örorkulífeyrisþegar fá þessa hjálp greidda að fullu. Sjúkrasamlagsstjórn getur takmarkað heimild samlagslækna til tilvísana samkv. þessum lið “.

Frv. þetta gerir ráð fyrir breytingum á b-lið 43. gr. varðandi greiðslu læknisrannsókna og aðgerða utan sjúkrahúsa fyrir elli- og örorkulífeyrisþega. Samkv. núgildandi l. fær sjúklingur, sem lagður er inn á sjúkrahús til læknisrannsóknar, sjúkrahúsdvölina greidda að fullu, þar með taldar allar rannsóknir, röntgenmyndatökur, lyf og aðrar aðgerðir. Fjöldi sjúklinga, sem þarfnast nákvæmrar læknisrannsóknar, kemst þó ekki inn á sjúkrahús. Fer þá læknisrannsókn fram utan sjúkrahúsa, og sjúklingur fer á milli þeirra staða, sem geta veitt þessa nauðsynlegu þjónustu. Fari rannsókn og aðgerðir fram utan sjúkrahúsa, fær sjúklingur ekki greitt að fullu, heldur ber honum að greiða 1/4 hluta kostnaðar. Fjölda elli- og örorkulífeyrisþega er ókleift að greiða þennan kostnað. Auk þess neyðast þeir oft til vegna veikinda að nota leigubíla, og bætist þá greiðslan fyrir þá ofan á fyrrnefndan sjúkrakostnað. Hér gætir mikils misræmis í aðstoð þjóðfélagsins við sjúka. Sá heppni, sem kemst inn á sjúkrahús og fær þar fullkomnustu þjónustu, fær hana alla endurgjaldslaust. Sá óheppni, sem kemst ekki inn á sjúkrahús og fær þess vegna mun ófullkomnari þjónustu, á hins vegar að greiða sjálfur 1/4 hluta sjúkrakostnaðar, oft auk annarra útgjalda, t.d. fyrir leigubifreið.

Öllum er ljóst, að langir biðlistar eru á öllum sjúkrahúsum. Því miður verður það æði oft hlutskipti aldraðra og öryrkja að þurfa að bíða lengi, allt of lengi, eftir sjúkrahúsplássi, og heimilslæknir úrskurðar loks rannsókn eða aðgerð utan sjúkrahúss. Þá vex oft vandinn hjá viðkomandi sjúklingi.

Sjötugur fyrrv. sjómaður talaði við mig um daginn. Hann er sterkbyggður og stæltur, en á aftur bágt með gang, hafði fengið einhverja illsku í bakið, sagði hann, þurfti að fara í myndatöku og fleiri rannsóknir, en buddan sagði nei. Aðstoð borgarsjóðs hafnaði hann, ætlaði að sjá til. og svo er um fleiri.

Það skal tekið fram, að læknisrannsókn eða aðgerð utan sjúkrahúsa er mun kostnaðarminni fyrir ríki og sveitarfélög en sjúkrahúsdvöl. Ekki þarf að færa önnur rök fyrir því en benda á daggjöld sjúkrahúsa. T.d. er gjald Landsspítalans og Borgarspítalans í Fossvogi nú 5.100 kr. á dag. Ekki er ótrúlegt, að samræming á greiðslu rannsókna og aðgerða á sjúkrahúsi og utan þess mundi draga töluvert út umsóknum um sjúkrahúsdvöl. En eins og öllum er kunnugt, er ekki vanþörf á að bæta úr ríkjandi vandræðaástandi. Auk þess væri það geysilegur sparnaður, eins og áður er nefnt.

Meðalaldur Íslendinga fer ört hækkandi. Má því búast við sífelldri aukningu umsókna um sjúkrahúsvistun, ef ekkert er að gert. Ekki njóta allir ellilífeyrisþegar eftirlauna. Sumir elli- og örorkulífeyrisþegar lifa á lífeyri sínum eingöngu. Það getur orðið þröngt í búi, ef við bætist óvæntur aukakostnaður.

Hámark elli- og örorkulífeyris hefur verið tvöföldun grunnlífeyris eða samtals 14.400 kr. á mánuði. Hætt er við, að lítið sé afgangs, þegar greiddir hafa verið fastir útgjaldaliðir, svo sem húsaleiga, hiti, rafmagn, dagblöð, útvarp og e.t.v. sími. Það sem afgangs er, á þá að nægja fyrir mat, fatnaði og öllu öðru. Hér er því lagt til, að nauðsynlegar læknisrannsóknir og aðgerðir utan sjúkrahúsa greiðist að fullu fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

2. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Lyf, sem samlagsmanni er lífsnauðsynlegt að nota að staðaldri, og nauðsynleg lyf fyrir elli og örorkulífeyrisþega að fullu, en önnur lyf að 3/4 eða 1/2, enda séu lyfin í lyfjaskrá, sem Tryggingastofnunin lætur gera og staðfest skal af heilbrigðisstjórninni. Heimilt er í skrá þessari að taka við greiðslu ákveðinna lyfja við tiltekið hámark“.

Hér er gert ráð fyrir breytingu á c-lið 43. gr. um greiðslu lyfja. Samkv. núgildandi l. er þátttaka sjúkrasamlags í lyfjaafgreiðslum mismunandi. Fer það eftir sjúkdómum og tegundum lyfja. Sum lyf greiðir sjúkrasamlagið að fullu, önnur að 3/4 eða 1/2 Af augljósum ástæðum er lyfjanotkun elli- og örorkulífeyrisþega oft mjög mikil miðað við lyfjanotkun almennt. Jafnframt er greiðslugeta þessara lífeyrisþega oftast mun minni en flestra annarra. Í byrjun febr., s.l. hitti ég ekkju hátt á áttræðisaldri. Hún var að koma frá lækni og hélt á lyfseðli í hendinni. Ekki ætlaði hún þó að sækja sín nauðsynlegu lyf fyrr en eftir þann 10. mánaðarins, þegar hún hefði fengið ellilífeyrinn sinn greiddan. „Ég vil vera sjálfstæð“, sagði hún og brosti, þegar henni var boðin aðstoð.

Mörg dæmi eru þess, að elli- og örorkulífeyrisþegar neiti sér um eða kaupi ekki um tíma nauðsynleg lyf vegna fjárskorts og hafni einnig aðstoð sveitarfélagsins, þótt í boði sé. Ekki þarf að fjölyrða um, hversu alvarlegar afleiðingar slíkt getur haft. Þess vegna er lagt til, að nauðsynleg lyf greiðist að fullu fyrir elli- og örorkulífeyrisþega.

3. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í stað orðanna í lok 5. mgr. 50. gr. l.: „er Tryggingastofnuninni heimilt að greiða honum sjálfum allt að 25% lágmarksbóta“ komi: „skal Tryggingastofnunin greiða honum sjálfum 25% tekjutryggingar“.

Frv. þetta gerir ráð fyrir breytingu varðandi greiðslu Tryggingastofnunarinnar til persónulegra þarfa elli-, örorku- og ekkjulífeyrisþega. Samkv. núgildandi l. er Tryggingastofnuninni heimilt að greiða elli-, örorku- og ekkjulífeyrisþega, sem dvelst á stofnun eða sjúkrahúsi lengur en einn mánuð og er algerlega tekjulaus, allt að 25% lágmarksbóta. Greiðist það honum sjálfum, og er þetta fé ætlað til persónulegra þarfa. Undanfarið hefur þessi upphæð verið 1.500 kr. á mánuði og greiðist ársfjórðungslega. Sama gildir í framkvæmd fyrir þá, sem hafa lág eftirlaun.

Fyrir rúmum hálfum mánuði ræddi við mig hálfáttræður maður. Hann varð ekkjumaður fyrir þrem árum. Svo bjó hann áfram heima í nokkra mánuði einn í leiguíbúðinni. Börnin voru búsett erlendis. Loks gafst hann upp á einverunni og fór á elliheimili. Hann hafði í eftirlaun tæpar 9 þús. kr. og í ellilífeyri 2.700 kr. á mánuði. Þar sem hann naut eftirlauna, bar honum samkv. l. að greiða vistgjald sitt sjálfur. Átti hann þá eftir um 1.500 kr. á mánuði til persónulegra þarfa. „Mér þykir leitt að þurfa að biðja um hjálp“, sagði hann. „En stúlkurnar í þvottahúsinu neita að þvo nærfötin mín lengur. Þau eru orðin svo slitin“. Hann átti bágt með að skilja réttlæti laga um almannatryggingar, og það eiga vist fleiri. Hefði hann engin eftirlaun haft, verið tekju- og eignalaus, mundi hann samkv. l. um almannatryggingar hafa fengið vistgjaldið greitt að fullu með tvöföldun ellilífeyris og auk þess fengið 1.500 kr. á mánuði til persónulegra þarfa. Hann naut því á engan hátt eftirlauna sinna. Ef elli-, örorku- eða ekkjulífeyrisþegi þarf að greiða fatnað, hreinlætisvörur, snyrtivörur, klippingu eða hársnyrtingu og e.t.v. tóbak með þessu fé, þótt ekki sé minnzt á smágjafir til barnabarna eða einungis fargjald með strætisvögnum, sem elli- og örorkulífeyrisþegar þurfa þó aðeins að greiða að hálfu, er augljóst, að enginn getur komizt af til lengdar með þessi fjárráð. Þess vegna er lagt til, að Tryggingastofnunin skuli greiða lífeyrisþega sjálfum 25% tekjutryggingar í stað 25% lágmarksbóta.

Nái þessi breyting fram að ganga, mundi hlutaðeigandi fá greiddar ca. 3.000 kr. á mánuði ti1 persónulegra þarfa. Tel ég það mikla bót, þótt engin sé á ofrausnin.

Ég hef drepið á nokkur dæmi frv. þessu til skýringar. Ég gæti nefnt óteljandi dæmi, þar sem ég hef unnið við þennan málaflokk um margra ára skeið og er því málinu vel kunnug. Það er erfitt að horfa á eftir öldruðum einstaklingi ganga út úr skrifstofunni með lyfseðil í höndum fyrir nauðsynlegum lyfjum, sem hann hefur ekki ráð á að kaupa, en vill þó ekki þiggja hjálp til þess. Það hvarflar að mér: „Ætli ég sjái hann aftur? Það er guð og lukkan, sem ráða því, hvort hann lifir þetta af.“

Það er erfitt að verða gamall, hafa mjög knöpp fjárráð, en vilja þó ríghalda í sjálfstæði sitt, eins og Bjartur í Sumarhúsum. Það er erfitt að horfa á aldraða manneskju kveðja og fara að loknu samtali, bersýnilega sjúka, en hefur ekki ráð á að leita læknishjálpar. Það hlýtur að vera tvímælalaus skylda þjóðfélagsins að bæta hag þessara þegna sinna. En það er ekki hægt nema með breytingu á núgildandi lögum.

Þeir einstaklingar, sem fæddir eru um eða fyrir s.l. aldamót, eiga allt aðra lífsreynslu að baki en þeir, sem yngri eru, og hafa þess vegna aðra lífsskoðun. Unga fólkinu í dag þykir það ævintýri líkast, ef minnzt er á uppboð á þurfalingum eða hreppsómögum hér áður fyrr, til þess að hreppurinn þyrfti sem minnst að greiða með ómögum sínum. En það er ekkert ævintýri fyrir þann, sem hefur lifað það sjálfur.

Einn aldraður vinur minn sagði mér fyrir skömmu, að hann hefði 7 sinnum verið boðinn upp fyrir fermingu. Þá skildi ég betur, af hverju hann var svona illa farinn líkamlega. Hann hefur þótt þurftafrekur strákur, svo að þeir, sem tóku hann til sín, losuðu sig við hann eftir árið, og aftur var hann boðinn upp. Til æviloka ber hann þess líkamleg merki, að hann fékk aldrei fylli sína, þegar hann var að alast upp.

Þeir, sem hafa slitið út starfskröftum sínum við erfiðustu skilyrði í þágu okkar allra hinna, sem yngri erum, hljóta að eiga það inni hjá okkur, að þeim sé tryggð mannsæmandi lífskjör síðustu ár ævinnar. Allir þeir, sem vegna sjúkdóma, aðstöðu eða elli geta ekki aflað sér tekna, ættu ekki að þurfa að líða skort í okkar velferðarþjóðfélagi, þótt þeir séu eitthvað andlega skyldir Bjarti í Sumarhúsum. Auðvitað er mér ljóst, að brýn þörf er á fleiri breytingum núgildandi laga í þágu fyrrnefndra aðila, þótt ekki sé þeirra getið hér. Það er augljóst réttlætismál að bæta hag þeirra sem frv. þetta fjallar um. Ég skora á hv. þm. að sameinast um framgang þess.

Herra forseti. Ég leyfi mér svo að óska þess, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr: og trn.