09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (2650)

237. mál, lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 554 er frv. til l. um breyt. á l. nr. 29 frá 1963, um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Efni þessa frv. er að taka af öll tvímæli um, að þeir, sem njóta þeirra réttinda að halda launum sínum, eftir að þeir hafa hætt störfum, geti ekki einnig haft lífeyrisréttindi. Svo er mælt fyrir um bæði hæstaréttardómara og saksóknara ríkisins, að þeir njóti fullra launa, þótt þeir séu hættir störfum. Þeir hafa einnig fengið eftirlaun eða átt rétt til þeirra úr lífeyrissjóðum, þó að þeir hafi e.t.v. ekki notað þann rétt nema að mjög takmörkuðu leyti. Hér eru tekin af öll tvímæli um það, að þeir eigi slíkan lífeyrisrétt, meðan þeir njóta launanna.

Eins og ég gat um hér í hv. d. um daginn, er verið var að vinna að endurskoðun á lögum um eftirlaunarétt og breytingum á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna, en þau mál voru ekki svo á veg komin, að hægt væri að leggja þau fyrir þetta þing. Þau atriði, sem í endurskoðuninni eru, eru m.a. þau, að sumir fyrrv. starfsmenn ríkisins taka eftirlaun úr mörgum lífeyrissjóðum og geta á þann hátt fengið hærri laun, eftir að þeir hætta störfum, en meðan þeir eru í fullu starfi. Þetta er í alla staði óeðlilegt. En það er nokkur vinna að koma þessu máli fyrir á sómasamlegan hátt, og þess vegna var ekki talið framkvæmanlegt að gera það nú. Hins vegar þykir sú breyting, sem í frv. þessu felst, augljós og sjálfsögð, og ég vænti þess, að hv. d. fallist á, að svo sé.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh: og viðskn.