09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3199 í B-deild Alþingistíðinda. (2656)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Ég bið afsökunar, að ég skyldi ekki vera við. Ég hélt, að hæstv. landbrh. mundi flytja lengra mál, því að þetta er töluvert veigamikið frv., sem hér er um að ræða, og það er í rauninni, eins og hann sagði, þríþætt. Það er í fyrsta lagi nokkur breyting á yfirstjórn stofnlánadeildarinnar, þ.e.a.s. gert ráð fyrir, að bændasamtökin fái þar vissa aðild að stjórn. Það er í öðru lagi um fjármál deildarinnar og í þriðja lagi er ný stefnumörkun, sem heimilað er að taka upp varðandi útlán úr deildinni. Um þetta vildi ég aðeins segja nokkur orð, af því að það vill svo til, að ég var skipaður í þessa n. Ég vil taka það skýrt fram, að ég var ekki skipaður í hana sem fulltrúi míns flokks hér, heldur var sérstaklega óskað eftir því af ráðh. Ég lít svo á, að það hafi ekki sízt verið vegna stöðu minnar sem bankastjóra Búnaðarbankans, að þess var óskað. Tel ég rétt, að þetta komi hér fram, til þess að það liggi ljóst fyrir, að það beri ekki að líta á þátt minn í þessum till. sem afstöðu Sjálfstfl. til málsins. Með því er ég ekki að segja, að Sjálfstfl. sé á móti málinu, það er önnur saga, en ég vil aðeins taka þetta fram, svo að það valdi ekki misskilningi.

Ég mun ekki sérstaklega gera að umtalsefni aðild fulltrúa bændasamtakanna að stjórn deildarinnar, heldur víkja að hinum þáttum málsins tveimur og þá fyrst og fremst fjárhagsþættinum, sem ég álít, að skipti í rauninni meginmáli í þessu sambandi. Án þess að sá þáttur sé í lagi, er það svo um þessa sjóði sem aðra, að þeir gera harla lítið gagn, hvað sem líður öðrum fyrirmælum í lögum um það, hvaða hlutverki þeir eigi að gegna.

1962 var eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, svo komið málum stofalánasjóða landbúnaðarins, þ.e. ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs, að þeir voru gersamlega fjárþrota og í rauninni verra en það, því að um var að ræða miklar skuldir umfram eignir. Það var því reynt að undirbyggja nýtt kerfi með þeim hætti að afla stofnlánadeildinni, hinum nýja aðalstofnlánasjóði landbúnaðarins, eigin fjár með vissum hætti. Það var valin sú leið að leggja ákveðin gjöld á framleiðendur vörunnar og neytendur vörunnar og í þriðja lagi kom til mótframlag ríkissjóðs gegn framlagi bænda. Þetta virtist allt harla gott og líta bærilega út og geta lagt grundvöll að fjárhagsafkomu stofnlánadeildarinnar í framtíðinni. Síðan þetta gerðist hefur þó mikið vatn til sjávar runnið og margt gerzt, sem veldur því, að á þessu hefur orðið breyting í neikvæða átt. Það er þess vegna skoðun mín og hefur verið alla tíð, að þegar breyting var síðast gerð á lögum um stofnlánadeildina, þar sem gert var ráð fyrir, að vissir tekjustofnar hennar eða raunverulega meginhluti tekjustofna hennar féll smám saman úr gildi, hafi það verið mjög óráðlegt, þótt það væri sjónarmið út af fyrir sig, að með því væri verið að létta kvöðum af bændum, þ.e.a.s. 1 % búvörugjaldinu. Það var á sínum tíma mjög gagnrýnt, þó að það hafi ekki mikið verið hin síðari ár, þar sem bændur hafa fullkomlega skilið þýðingu þessa framlags til að byggja upp þennan undirstöðusjóð landbúuaðarins til þess að efla framkvæmdir og framfarir í sveitum landsins. Engu að síður var það samtímis því sem þarfirnar fyrir fjármagn til útlána úr stofnlánadeild fara stöðugt vaxandi vegna aukinna framkvæmda í sveitum og aukins tilkostnaðar við byggingar og ýmissa nýrra kvaða, sem á deildina hafa verið lagðar á síðustu árum með tilkomu nýrra búgreina, og gera má ráð fyrir, að um fleiri slíkar greinar geti orðið að ræða, eða við skulum vona það, þá var það auðvitað með öllu óhugsandi, að hægt væri að draga úr tekjustofnum deildarinnar, þótt mönnum kynni að sýnast, að rétt væri að breyta þeim með einhverjum hætti.

Ég álít að það hafi verið mjög tímabært, að nú væri hafizt handa um að taka þetta mál til meðferðar, enda í rauninni ekki um annað að ræða, vegna þess að horfur voru það ískyggilegar um afkomu deildarinnar, eins og hæstv. landbrh. hefur hér vikið að, miðað við fjárþörfina. Raunverulega er svo komið á þessu ári, eða verður a.m.k. á næsta ári, að eigið fé deildarinnar rennur að óbreyttum lögum, í rauninni allt út í sandinn, þ.e.a.s. það verður ekki til ráðstöfunar til útlána. Þetta byggist einfaldlega á því, að vegna vaxtamunar, vegna gengistaps og greiðslu á gengistryggðum lánum, sem ekki hafa nema að litlu leyti verið endurlánuð aftur með gengisáhættu, minnkar stöðugt ráðstöfunarfé deildarinnar, þó að tekjur hennar fari raunar vaxandi. Þannig er það, að þó að tekjur deildarinnar í ár séu áætlaðar um 110 millj. kr., er ekki gert ráð fyrir, að af þessum 110 millj. verði til ráðstöfunar nema 71 millj. til útlána. Þetta stafar einfaldlega af því, að gengisbreytingar hafa enn komið til, og auk þess verður með vaxandi lántökum, sem eru með þeim hætti, að lánin eru tekin með miklu hærri vöxtum en endurlánað er, vandi deildarinnar sífellt meiri og meiri. Er í grg. með frv. bent á það, sem auðvitað er mjög hörmuleg niðurstaða, að af erlendum lánum, sem í upphafi námu 195 millj. kr. og tekin hafa verið eftir 1950, eru eftirstöðvarnar enn 275 millj. kr., þó er búið að greiða 290 millj. í afborganir af þessum lánum. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir, hversu óheilbrigð þessi þróun er og nauðsyn úrbóta. Og næsta ár er ekki gert ráð fyrir, að til ráðstöfunar verði af eigin fé deildarinnar að óbreyttum lögum, nema um 47 millj. kr. Við sjáum gerla, hversu alvarlegt ástand þetta er, þegar þess er gætt, sem upplýst hefur verið hér, að útlán deildarinnar hafa farið stöðugt vaxandi. Þau námu 141 millj. 1970, 254 millj. 1971 og 369 millj. 1972. Og framkvæmdahugur bænda á árinu 1973 er slíkur, að miðað við þær umsóknir, sem fyrir liggja, er fjárþörfin um 640 millj. kr. Nú er ekki þar með sagt, að ekki megi eitthvað lækka þessa fjárþörf, og menn kunna að segja sem svo: Hví í ósköpunum er þörf á að hækka þetta ár frá ári? Það er í rauninni ekki nema eitt, sem hægt er að lækka, án þess að gerbreyta fyrri starfsháttum stofnlánadeildarinnar, og það eru vinnslustöðvar landbúnaðarins. Og það er auðvitað miklum takmörkunum háð, hvað hægt er að leyfa sér að lækka framlög til vinnslustöðva, sem að sjálfsögðu eru eigi síður brýnar en lánveitingar til framkvæmda einstakra bænda, því að framkvæmdir þeirra hafa litla þýðingu, ef ekki er hægt að hafa vinnslustöðvar, sem eru færar um að leysa sín verkefni af hendi. Ef við skoðum því þessa tölu, eins og hún liggur fyrir, og það fjármagn, sem samkv. framkvæmdaáætlun nú er ætlað til deildarinnar, og eigið ráðstöfunarfé hennar, kemur mjög skuggaleg niðurstaða í ljós og alvarleg, sem ég fæ raunar alls ekki séð, hvernig hægt er að horfast í augu við. Samkv. till. um fjármögnun stofnlánasjóðanna, sem nú liggja fyrir hinu háa Alþ., er gert ráð fyrir því, að stofnlánadeildin hafi til lánveitinga á árinu aðeins 421 millj. kr. upp í þessar 643 millj. Fjárvöntun deildarinnar nemur því 220 millj. kr. Hér er um geigvænlega vöntun að ræða. Þó að hugsanlegt sé að lækka eitthvað umbeðnar lánveitingar til vinnslustöðva, getur það naumast orðið nema 60—70 millj. kr. Er því augljóst, að það vantar, þó að tekið sé tillit til þessa, um 150 millj. kr. hið minnsta, en um 220 millj., ef á að standa við bakið á vinnslustöðvunum eins og þörf væri á.

Það má segja, að undanfarin ár hafi ekki verið fylgt neinum reglum um lánveitingar til vinnslustöðva, þannig að það hefur gengið á ýmsu eftir því, hvernig fjárhag deildarinnar hefur verið háttað. En ég hlýt að vekja athygli á því, að ef deildina á að vanta þær 150 millj., sem hana vantar til almennra útlána umfram þá 70 millj. kr. skerðingu, sem ég gat um áðan, að hefði verið reynt að framkvæma í sambandi við vinnslustöðvarnar, verður að taka upp alveg nýja útlánahætti stofnlánadeildar, sem aldrei hafa áður þekkzt. Það verður að byrja á því í fyrsta sinn á þessu ári beinlínis að neita hændum um lán, enda þótt þeir uppfylli öll skilyrði. Það er ekkert nýtt, að það sé skipt niður á tvö ár, stórum lánveitingum, t.d. þegar um stórbyggingar, eins og hin nýju og dýru fjós er að ræða, þannig að í því felst engin breyting. En það mundi á engan hátt hrökkva til í þessu sambandi, heldur yrði að grípa til þess úrræðis, sem, eins og ég áðan sagði, aldrei hefur verið gert, að velja úr, hvaða bændur skuli fá lán, og láta hina bíða. Þetta álít ég mjög ískyggilega þróun. Sumir munu segja: Þetta er ekki annað en það, sem aðrir stofnlánasjóðir verða að láta sér lynda. Það er nú svo. Fiskveiðasjóði Íslands er aflað fjár, sem hefur verið upplýst hér af hæstv. sjútvrh., að í rauninni sé fullnægjandi til þarfa þess sjóðs, og fjáröflun til hans er langstærsti hlutinn af því fé, sem á að afla á þessu ári til stofnlánasjóðanna. Ég er síður en svo að gagnrýna það. Þar er um mikla nauðsyn að ræða, og fiskveiðasjóður hefur bundið sér miklar byrðar. En það er í rauninni ekki síður erfitt að fara inn á þá braut, sem yrði nú að fara, að skera niður lánveitingar og velja úr hópi bænda, sem sækja um lán og fullnægja öllum skilyrðum. Það er a.m.k. uggur í mínum huga um það, hvernig slíkt á að vera mögulegt.

Með því frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir að auka nokkuð tekjur stofnlánadeildarinnar. En þær auknu tekjur eru innifaldar í þeim tölum um fjáröflun, sem ég gat um áðan, þannig að þær breyta engu. Frv. sjálft á að taka gildi varðandi fjáröflun um mitt þetta ár. Það, sem nemur þar mestu, er árlegt framlag ríkissjóðs, sem hækkar um 21 millj. kr., smávægileg hækkun á álagi á neytendagjald, sem verður 1% í stað 0,75%, og í þriðja lagi árlegt framlag ríkissjóðs, sem kemur einnig á móti þessu gjaldi, en verður ekki ýkjahátt á þessu ári, sem nú er að hefjast, þar sem þetta tekur ekki gildi fyrr en á miðju árinu. Þessar nýju tekjur skipta því ekki miklu máli fyrir árið í ár og leysa ekki þann vanda, sem hér um ræðir, því að þær eru innifaldar í þeim tölum, sem ég gat um. Ég vil taka það fram, að fyrir mitt leyti álít ég, að hér sé um rétta leið að ræða, og hef ekkert við þetta að athuga.

Þriðja atriðið, sem ég gjarnan vildi minnast á hér, er hin nýja stefnumörkun varðandi lánveitingar til landbúnaðarframkvæmda, sem ég geri ráð fyrir, að e.t.v. orki mest tvímælis og valdi mestum umr. og jafnvel deilum í sambandi við þetta mál, en ég hygg, að bændasamtökin fyrir sitt leyti hafi haft áhuga á eða a.m.k. séu ekki andvíg, að tekin verði upp. Það á að taka upp í nokkrum tilfellum óhagstæðari lánakjör en nú eru, bæði í sambandi við vinnslustöðvar landbúnaðarins og einnig þegar um er að ræða, að framkvæmdir bænda séu komnar, eins og hér er orðað, yfir hálft annað vísitölubú. Hvort það er rétt viðmiðun, skal ég ekkert um segja. En hér hafa menn leiðzt inn á þær brautir, sem eru í mjög öfugu hlutfalli við það, sem hæstv. ríkisstj. gerði ráð fyrir, að hún gæti farið inn á, en það var að lækka vexti af lánum stofnlánasjóða. Ég hef aldrei haft trú á því persónulega, að slíkt væri hægt, og ég held, að menn hafi komizt að raun um það nú í sambandi við alla stofnlánasjóðina, að þetta er óraunhæft. Það er ekki til lengdar, eins og t.d. með stofnlánadeildina, mögulegt að afla henni fjár svo að segja 100% með lántökum, þar sem lánin eru tekin í flestum tilfellum með e.t.v. 10% vöxtum og endurlánuð aftur með 6 og 61/2%. Það er enginn möguleiki að byggja upp slíkan lánasjóð, nema með stórkostlegum kvöðum á ríkissjóðinn, sem ég efast um, að menn séu reiðubúnir til að fallast á. Þetta kemur að sjálfsögðu allt til álita hér. En það, sem mér finnst, eins og ég sagði, uggvænlegast, er fjárskortur sá, sem stofnlánadeildin á nú við að búa. Menn munu að vísu segja: Hér er um slíka aukningu að ræða í framkvæmdum í sveitum, að slíkt hefur aldrei þekkzt. Og rétt er það. Menn kunna einnig að segja: Verður þetta raunhæft? Ég held, að það verði raunhæft. Því sama var spáð bæði í fyrra og hitteðfyrra, að áætlun stofnlánadeildarinnar væri ekki raunhæf. Það reyndist svo í báðum tilfellunum, að það munaði aðeins örfáum millj., og nú liggja fyrir, við gerð framkvæmdaáætlunar, endanlegar umsóknir bænda og útreikningar á þeim, sem ekki hafa áður legið fyrir, þannig að það er því minni ástæða til þess að ímynda sér, að þessar áætlanir nú séu ekki raunhæfar.

Ég vildi, herra forseti, aðeins vekja athygli á þessum atriðum og benda á, hversu hér er um mikið alvörumál að ræða og hversu veigamikið það er, að þessi höfuðstofnlánasjóður landbúnaðarins verði undirbyggður á enn traustari hátt en gert hefur verið. Það er sjáanlegt, að framkvæmdaáhugi bænda er svo mikill og fjárþarfirnar til framkvæmda það miklar, að enginn kostur er að halda því áfram með því, að deildin verði svo að segja 100% að fjármagna sig með aðfengnum óhagstæðum lánum. Það er enn fremur rétt að vekja athygli á því, sem ég hygg, að allir hv. þdm. munu vera sammála um, að ég tel útilokað með öllu, að bændur fari að taka gengistryggð lán eða lán með spariskírteinakjörum til almennra framkvæmda sinna. Hins vegar er jafnfráleitt með öllu, að deildin geti tekið á sig bagga af slíkum lánum, eins og þegar hefur sýnt sig með gengistryggðu lánin, — en í fyrra varð að taka 110 millj. með spariskírteinakjörum, ef lánað er með almennum kjörum. Deildin getur ekki tekið á sig slíkar byrðar nema með því móti að fá enn meiri aðstoð en gert er ráð fyrir í þessu frv.

Herra forseti. Ég skal ekki orðlengja frekar um þetta mál. Ég taldi rétt að vekja athygli á þessum staðreyndum. Að öðru leyti hlýtur málið að sjálfsögðu athugun í n., og mönnum gefst þá kostur á að ræða það, þegar það kemur þaðan aftur.