09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3205 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

238. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég skal ekki blanda mér í þessar umr. að neinu verulegu leyti, en þar sem hæstv. landbrh. er bundinn við umr. í Nd., vil ég aðeins taka það fram út af því, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, að 15% niðurskurður kemur ekki til greina í þessu sambandi, þannig að það liggur alveg ljóst fyrir.

Það er auðvitað rétt, sem hv. þm. sagði, að segja má, að lítill tími sé til stefnu. Það er alltaf slæmt, þegar þarf að leggja mál fram mjög seint á þingtíma, en ég hygg, að það sé ekkert nýtt nú, það hafi oft gerzt áður. Ég held líka, að menn ættu ekki að láta sér þennan lagabálk svo mjög í augum vaxa, vegna þess að ég vona, þegar menn fara að skoða og bera hann saman, að þeir sjái, að hann er að mjög miklu leyti a.m.k. endurtekning þeirra ákvæða sem nú eru í lögum.

Ég hygg, að það sé alveg rétt upp tekið, sem hv. 2. þm. Norðurl. e. benti á, að í raun og veru er þarna um þrjú tiltölulega einföld nýmæli að tefla. Það er í fyrsta lagi þetta að veita samtökum bænda sjálfra aðild að bankaráði, þegar fjallað er um þau málefni, sem stofnlánadeildina varða. Ég hygg, að það sé skynsamleg regla að því leyti, að með því móti verði eytt tortryggni, sem annars kann alltaf að vera fyrir hendi. Það getur að öðru leyti verið heppilegt fyrir stofnlánadeildina sjálfa, að fulltrúar bænda geti þannig óvefengjanlega fylgzt með í þessum efnum. Það er líka gert samkvæmt óskum, sem hafa verið uppi fyrr, að ég hygg, frá samtökum bænda.

Í öðru lagi er það, og það er auðvitað höfuðmálið, eins og hv. 2. þm. Norðurl. e. gerði grein fyrir, að reyna að bæta fjárhagslega stöðu stofnlánadeildarinnar. Það er stigið skref í þá átt með þessu frv. En það má alveg réttilega segja, að þetta sé ekki stórt skref, og það er öllum ljóst, sem um þessi mál hafa fjallað, að þarna er ekki um að ræða fullnægjandi lausn á vandanum. Þessi mál hafa verið til umr., athugunar og endurbóta æ ofan í æ. Það má búast við því, að það verði svo framvegis, að taka verði á þessum málum eftir því, sem þarfirnar segja til um. En þótt skrefið sé ekki stórt, er það vafalaust skref í rétta átt og bætir nokkuð úr þeim fjárskorti, sem er fyrir hendi hjá stofnlánadeildinni. Það er geysileg eftirspurn eftir lánum, og það er geysilegur áhugi á framkvæmdum í landbúnaði. Það er ekkert óeðlilegt við það. Það var af eðlilegum og skiljanlegum ástæðum nokkur kyrrstaða um skeið eða a.m.k. dró mjög úr framkvæmdum vegna þess, hvernig ástatt var í a.m.k. ýmsum landbúnaðarhéruðum. Nú hefur árferðið verið gott, afkoma bænda góð og eðlilegt, að framkvæmdaáhugi þeirra vakni mjög. Ég efast ekki um, að þessar áætlanir, sem hafa verið gerðar af stofnlánadeildinni, hafa í meginatriðum við rök að styðjast. Ef þessu heldur fram, verður að finna ráð til þess að leysa mál stofnlánadeildarinnar með öðrum hætti og gera henni kleift að gegna sínu hlutverki. En e.t.v. má gera sér í hugarlund, að um þessar mundir sé um að ræða vissan, ef ég má segja svo, framkvæmdatopp í þessum efnum, þannig að vel gæti verið, að á þeirri þörf, sem fyrir hendi er og hefur skapazt, mundi eitthvað létta og e.t.v. eitthvað draga úr þessu. Um þetta skal ég ekki fullyrða og hef ekki aðstöðu til að meta það, en ég er algerlega sammála hv. 2. þm. Norðurl. e. um, að það er engin framtíðarstefna að halda þannig á málum um stofnsjóði, að framlög til þeirra séu étin upp jafnóðum. Það er rétt, sem hann sagði um okkar ásetning og góðu áform að lækka vexti og því um líkt á ýmsum stofnlánum. Það má segja, að „öllum getur yfirsézt, einnig þeim á Fjalli“. Það má vel vera, að okkur hafi yfirsézt í þessu efni. En á hitt vil ég líka benda, að hvorki við né aðrir hafa getað séð fyrir að ástand, sem hér hefur verið og er, þ.e.a.s. það þensluástand, sem er í þjóðfélaginu. Þegar slíkt ástand er, verð ég að segja, að það getur verið alveg réttlætanlegt að taka öðruvísi á peningamálum en menn hefðu annars viljað gera, ef öðruvísi hefði staðið á. Ég er þeirra skoðunar, að það verði að taka þessi mál einmitt til endurskoðunar.

Og þá er það þriðja atriðið í þessu frv., sem er þýðingarmikið. Það er heimild til þess að taka útlánareglur stofnlánadeildarinnar til skoðunar. Ég held, að það geti verið erfitt að standa við og ætla sér að halda til streitu reglum um skyldulán, hvernig sem á stendur og hvaða aðstaða sem er fyrir hendi hjá væntanlegum lántakanda. Ég held, að það sé ekkert óeðlilegt, að það sé bundið mat, sem þar komi til greina, hvað hann sé búinn að fá mikið lán, hvað hann sé búinn að framkvæma, hvað sé eðlilegt að lána í þessu falli bónda á tiltekinni jörð. Mér skilst, að með þessu frv. sé skapaður möguleiki til þess að setja þvílíkar reglur. Ég verð að segja, að það er einmitt trygging fyrir því, að þær reglur verði ekki þannig úr garði gerðar, að þær halli óeðlilega á bændur, að fulltrúar þeirra eiga um þær að fjalla.

Ég held þess vegna, að nýmælin, sem eru í þessu frv., horfi öll til bóta. Það getur vel verið, að það hefði mátt gera þetta frv. þannig úr garði, að það hefði verið miklu fyrirferðarminna, og hefði mátt setja þetta fram í frv. til breytinga, þá hefðu þessi atriði komið þar fram, en ekki verið um jafnlangan lagabálk að ræða og nú er í þessu tilfelli. En ég held sem sagt, að við skoðun í n. komist menn að raun um það, að þarna er í mörgum tilfellum a.m.k. og ég held að verulegu leyti um að ræða aðeins endurtekningu á þeim ákvæðum, sem þegar eru fyrir hendi. Þetta er í sem stytztu máli höfuðatriðin, sem um er að ræða. Þess vegna vona ég, að með góðvilja geti menn sameinazt um að afgreiða þetta mál með tiltölulega skjótum hætti. Því er ekki að neita í sambandi við frv., að það, að framkvæmdaáætlun ríkisins standist, er að nokkru leyti forsenduatriði fyrir því, að þessi fjáröflun, þó að hún sé ekki stór í þessu tilfelli, komi til greina. Þess vegna verður þetta nokkuð að fylgjast að.

Ég vil leyfa mér líka, því að hæstv. landbrh. er ekki við hér, að þakka hv. 2. þm. Norðurl. e. fyrir góðar undirtektir og reyndar einnig hv. 6. þm. Sunnl., sem tók þessu máli á engan hátt illa, þó að hann hefði ekki haft aðstöðu til þess enn að setja sig inn í það.