01.11.1972
Neðri deild: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

47. mál, Iðnlánasjóður

Heilbr:

og trmrh. (Magnús Kjartansson): Herra forseti. Ég varð því miður fyrir óhjákvæmilegum töfum í upphafi þingfundar og gat þess vegna ekki heyrt upphafið að ræðu hv. þm. Jóhanns Hafsteins og veit ekki, hvað hann kann að hafa sagt í fyrri hluta ræðu sinnar. Sá hluti ræðunnar, sem ég heyrði, mótaðist hins vegar ákaflega mikið af fyrirbæri, sem ég og væntanlega margir aðrir hafa veitt athygli að undanförnu. Það er eins og þessi hv. þm. eigi ákaflega erfitt með að þola það, að ég sé með almennar hugleiðingar um iðnað eða ég greini frá því, hvað verið sé að vinna á sviði iðnaðar, án þess að telja, að ég sé að ræna einhverju frá honum, og án þess að halda sjálfur fram eða láta blað sitt balda því fram, að ég sé ekkert að gera annað en það, sem bann ætlaði sér að gera, ef hann hefði verið áfram í þessum sama stól. Um þetta þarf svo sem ekki að hafa mörg orð.

En þessi langa ræða, sem hv. þm. flutti hér áðan, verkaði á mig eins og eins konar eftirmælaræða eftir alllanga setu í ríkisstj., og þó að það sé að vísu óvenjulegt, að menn semji slíkar eftirmælaræður um sjálfa sig, má segja, að sjálfs sé höndin hollust á því sviði, og ég ætla mér ekki að fara að skerða neitt þessa hugljúfu sjálfslýsingu hv. þm. Mér dettur ekki í hug að halda því fram, að hann hafi ekki átt frumkvæði að mörgum gagnlegum málum í þágu iðnaðarins. Ég hef engan áhuga á því að ræna frá honum þeim heiðri, sem honum ber í því sambandi. Ég viðurkenni fúslega, að hann hófst handa um margvísleg verkefni, sem síðan hefur lent á mér að láta vinna að áfram, og mér kemur ekki til hugar að neita því, að þar hafi hann hafizt handa í upphafi. Engu að síður held ég, að það sé staðreynd, að það hefur orðið mjög veruleg stefnubreyting á afstöðu ríkisstj. til iðnaðarins, þ.e.a.s. núv. stjórnar, miðað við það, sem var í tíð fyrrv. stjórnar. því miður var það svo, þrátt fyrir góðan vilja, að framtak fyrrv. ríkisstj. og þessa hv. alþm. í þágu iðnaðar mótaðist ákaflega mikið af því að reyna að bjarga iðnaðinum fram úr hvers konar erfiðleikum, sem hann átti i. Ég man eftir því, að þessi hv. þm. sagði einu sinni hér á þingi, þegar verið var að ræða um vandamál í iðnaði, að hans tími hefði oft farið í það að vera eins og útspýtt hundskinn fyrir tiltekin fyrirtæki til þess að verða þeim úti um fjármagn og fyrirgreiðslu. Og ég efast ekki um, að þetta er alveg rétt. En þetta stafaði auðvitað af því, að iðnaðinum voru ekki búin þau starfsskilyrði, sem hann þurfti á að halda í landinu, og ekki jafngóð starfsskilyrði og öðrum atvinnugreinum. T.d. kom þetta ákaflega ljóst fram í sambandi við rekstrarlán til iðnaðarins, sem hv. þm. vék að hér áðan. Hann greindi frá því, hvernig hann hefði unnið að því að bjarga vandamálum iðnaðarins aftur og aftur með skammtímaaðgerðum með aðstoð Seðlabankans, og vissulega var þetta góðra gjalda vert á sínum tíma. En það, sem skipti máli, var að tryggja iðnaðinum, að hann hefði sama rétt og það, sem kallað er aðrar meginatvinnugreinar þjóðarinnar, sjávarútvegur og landbúnaður. Um þetta flutti þessi hv. þm. engar till. allan þann tíma, sem hann var ráðh. Það var ekki fyrr en í tíð núv. ríkisstj., að iðnaðurinn fékk þennan lögverndaða rétt. Það var gert á síðasta þingi. Og nú er unnið að því að tryggja framkvæmd þessa réttar. Það mun vafalaust taka sinn tíma. En engu að síður tel ég, að þetta sé einhver mikilvægasti lagaréttur, sem iðnaðurinn hefur fengið.

Það stendur hér í upphafi að grg. fyrir frv. um breyt. á l. um iðnlánasjóð: „Íslenzkur iðnaður hefur á síðari árum haslað sér völl meðal höfuðatvinnuvega þjóðarinnar.“ Í þessu kemur fram sjónarmið, sem mig langar til þess að vekja athygli á. Það tíðkast ákaflega mikið í umr. um atvinnuvegi hér á Íslandi, að reynt sé að hólfa atvinnugreinarnar í sundur: landbúnaður sér, sjávarútvegur sér, iðnaður sér. Og svo skiptast menn í flokka. Einn segist vera með landbúnaði og segir e.t.v. nágranna sinn vera á móti landbúnaði. Og sama er að segja um sjávarútveg og um iðnað. En þetta er fyrir löngu orðinn alger barnaskapur. Það er staðreynd, að iðnaður er og hefur lengi verið höfuðatvinnugrein þjóðarinnar, einmitt vegna þess, að öll framþróun í sjávarútvegi er í því fólgin að auka úrvinnslu sjávarafurða og flytja hráefnið unnið til útlanda. Starf hraðfrystihúsanna okkar er háþróaður úrvinnsluiðnaður og ekkert annað, og auðvitað eigum við að viðurkenna þessa staðreynd, en ekki tala um þennan iðnað sem einhverja andstæðu annars iðnaðar í landinu. Nákvæmlega hið sama er í landbúnaði. Það er einmitt þróun iðnaðar á svíði landbúnaðar, sem hefur verið landbúnaðinum einna mest lyftistöng að undanförnu. Þess vegna þurfum við að brjóta okkur úr þessum viðjum úrelts og gamals hugsunarháttar og viðurkenna þá einföldu staðreynd, að iðnaðurinn er nú þegar langsamlega öflugasta atvinnugrein landsmanna og sú atvinnugrein, þar sem vaxtarbroddurinn er og þar sem allar hugmyndir okkar um framþróun íslenzkra atvinnuvega eru. Þær hugmyndir hljóta að vera bundnar við iðnaðinn, iðnaðarvörur unnar úr okkar eigin hráefnum, sem við öflum, bæði á sviði sjávarútvegs og landbúnaðar, hráefnum, sem finnast í landi okkar, með þeirri orku, sem finnst í fallvötnum okkar og hverum og því hugviti, sem Íslendingar geta lagt til.

Við skulum gera okkur grein fyrir því, að eitt meginatriðið í léttum iðnaði er, að farið verði að flytja út verkmenningu. Það eru til fjölmargar þjóðir í heiminum, sem hvorki hafa hráefni né orku, en eru samt miklar iðnaðarútflutningsþjóðir. Þær eru að flytja út verkmenningu, og að þessu marki verðum við einnig að stefna.

Sú sundurgreining, sem þessi hv. þm. gerði sig sekan um í upphafi grg., kom einnig fram í ræðu hans, þegar hann var að tala um nauðsyn þess að efla iðnað, vegna þess að sjávarútvegurinn væri svo valtur, og reyna að búa til einhverjar andstæður þarna á milli. Slíkar kenningar eru ekki atvinnulífi okkar til framdráttar. Þær eru til þess fallnar, að menn misskilji þau viðfangsefni, sem hér er við að eiga. Við þurfum ekki að efla iðnað á kostnað sjávarútvegs eða á kostnað landbúnaðar, heldur eflum við iðnað í þágu þessara atvinnugreina, sem fyrir eru, auk þess sem við bætum nýjum við.

Hv. þm. vék að því, að iðnaðurinn hefði þróazt allvel í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Einnig þetta er rétt. En ég vil minna á, hvernig þróun iðnaðarins var háttað á þessu tímabili. Á þeim árum, þegar verulega reyndi á þáv. ríkisstj., árunum 1964–1967, — var hreinlega samdráttur í íslenzkum iðnaði. Framleiðslumagnið dróst saman í mjög mikilvægum þáttum iðnaðarins, og fólki hreinlega fækkaði í iðnfyrirtækjum. Breytingin varð svo með gengislækkuninni 1967, eins og þessi hv. þm. vék að. En eins og hann sagði réttilega, þá var sú gengislækkun reiknuð út með hag sjávarútvegsins fyrir augum. Það var ekki gert í þágu iðnaðarins. Hins vegar var staða hans slík, að honum nýttist þetta ákaflega vel. eins og hv. þm. vék réttilega að. En þetta var ekki framtak fyrrv. ríkisstj. í þágu iðnaðarins. Þetta var gengislækkun, sem stafaði af þeirri óðaverðbólguþróun, sem þá var og gerði það óhjákvæmilegt að rétta hlut útflutningsiðnaðarins, og það var sjávarútvegurinn, sem þarna var verið að bjarga, eins og það er orðað.

Það hefur einnig orðið gerbreyting á afstöðunni til orkufreks iðnaðar á Íslandi. Það kvað við talsvert annan tón í orðum hv. þm. hér áðan heldur en við heyrðum hér á Íslandi fyrir 3–4 og 5 árum. Þá voru samningarnir, sem gerðir voru við svissneska álhringinn, talin sönn fyrirmynd um iðnþróun á Íslandi. Á þennan hátt ættum við að halda áfram. Við ættum að byggja raforkuver og eiga þau, en við áttum að útvega okkur erlenda aðila sem kaupendur að raforkunni til þess að tryggja það, að við gætum ráðizt í stórar virkjanir. Um þetta gæti ég tínt til endalausar tilvitnanir. Hér situr nú m.a. á þinginu hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, sem fagnaði því sérstaklega í sjónvarpsviðtali, sem við áttum saman, að það væri ánægjulegt til þess að hugsa, að hér mundu senn rísa 20 erlendar álbræðslur. Þetta var viðhorfið, þetta var hugarfarið. Við áttum að framleiða orkuna, við áttum að eiga orkuna, en erlendir aðilar áttu að fá orkuna í fyrirtæki, sem þeir ættu. Með þessu var að því stefnt að koma Íslandi á stig hálf-nýlendu. Við áttum að sætta okkur við hlutskipti, sem er alveg hliðstætt því að flytja út hráefni, en vera ekki menn til að vinna úr því sjálfir. Raunar átti þetta sama að gerast á sviði létts iðnaðar.

Í sambandi við inngönguna í EFTA voru einnig haldnar margar ræður, bæði hér á þingi og utan þings. Ein af röksemdunum fyrir því, hvað það væri hagstætt fyrir Íslendinga að ganga í EFTA, var sú, að það mundi laða erlenda aðila til þess að stofna fyrirtæki á Íslandi í léttum iðnaði. M. a, var á það bent, að bandarísk fyrirtæki í léttum iðnaði kynnu að telja hagkvæmt fyrir sig að setja upp fyrirtæki hér á landi, því að þá væru þau komin inn fyrir EFTA-múrana og gætu flutt sínar EFTA-vörur til annarra EFTA-landa frá Íslandi. Þetta var ákaflega sterk röksemdafærsla hjá viðreisnarstjórninni og þeim mönnum, sem að henni stóðu.

Frá þessari stefnu hefur verið gersamlega horfið af núv. ríkisstj. Henni hefur verið hafnað algerlega, og það eru staðlausir stafir, þegar hv. þm. Jóhann Hafstein segir, að ég hafi boðið erlendum fyrirtækjum raforku fyrir eitthvað tiltekið verð. Ég hef ekki boðið einu einasta erlendu fyrirtæki raforku fyrir nokkurt verð. Ég hef hins vegar verið að kanna, hvort erlend fyrirtæki væru tilbúin til samvinnu við okkur á þeim forsendum, að Íslendingar ættu meiri hluta í slíkum fyrirtækjum, sem lytu íslenzkum lögum í einu og öllu. Og það hefur komið í ljós í þessu sambandi, að það er mjög víðtækur áhugi á samvinnu af þessu tagi. Það kemur í ljós, að okkur Íslendingum bjóðast ákaflega margir valkostir á þessu sviði, ef við kærum okkur um að fara inn á þessa braut. En þarna er ekki um það að ræða að selja erlendum aðilum raforku. Þarna er um það að ræða, að Íslendingar sjálfir hefji iðnþróun, sem verður að meiri hluta til í eigu þeirra. Þetta er þveröfug stefna á við þá, sem framfylgt var í tíð viðreisnarstjórnarinnar. Þetta er alger stefnubreyting. Hins vegar fagna ég því, að þessi hv. þm. og aðrir flokksbræður hans segjast nú vera stuðningsmenn þessarar stefnu og vilja taka þátt í að framkvæma hana. Ég vil sannarlega, að Íslendingar vinni sem bezt saman um framþróun á þessu sviði. En af hálfu núv. ríkisstj. verður þetta ekki gert nema á þeim forsendum, að þarna verði um að ræða fyrirtæki, sem starfa samkv. íslenzkum lögum, eru að meiri hluta til íslenzk og lúta íslenzkum fyrirmælum í einu og öllu.

Það var ákaflega margt í þessari endurminningarræðu hv. þm., sem hægt hefði verið að víkja að, en við höfum svo oft deilt um þessi mál hér á þingi, ég og hv. þm., að ég held, að við endurtökum okkur anzi mikið, ef við förum að kafa niður í þá hluti. Við eru t.d. búnir að ræða ákaflega oft hér á þingi um raforkuverðið og þann samning, sem gerður var við álbræðsluna. Hann minntist á það hér áðan. Ég held, að ég fari ekki að endurtaka það, sem ég hef áður sagt. Ég held, að reynslan hafi staðfest það í einu og öllu, að það var rétt, sem þar var haldið fram, því að nú veit öll þjóðin, að á sama tíma og erlent fyrirtæki situr að raforku, sem kostar 22 aura kwst., framleiðir næsta raforkufyrirtæki, sem ráðizt verður í, orku, sem kostar 35 aura á kwst., þannig að við Íslendingar og okkar fyrirtæki verðum að sætta okkur við að greiða fyrir raforkuna miklu hærra verð en þessi erlendi aðili, sem samið var við. Og ég reiknaði þetta dæmi einhvern tíma út hvernig það hefði komið út á samningstímabilinu, ef samið hefði verið um, að álbræðslan borgaði þá þegar það verð, sem nú er talið alveg eðlilegt í heiminum, 4 mill. Nú tala allir um það sem hreint lágmarksverð. Ef samið hefði verið um slíkt verð, þá hefði það fært okkur Íslendingum, ef ég man rétt, um 5 milljarða kr. Það er ámóta mikið og Sigölduvirkjun kemur til með að kosta. Það er dýrt að gera lélega samninga.

Í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á l. um iðnlánasjóð, þá er ég sammála hv. þm. um, að það verður að tryggja iðnlánasjóði talsvert aukið fjármagn frá því, sem nú er, og á vegum iðnrn. hefur verið að því unnið að bera fram till. um það efni, og ég geri mér vonir um, að slíkar till. verði lagðar fyrir þetta þing. Ég hygg, að það sé skynsamlegt að hafa annan hátt á en þann að tiltaka ákveðna upphæð í lögum. Það vill oft verða svo, að slíkar upphæðir standa fulllengi og verða þá minni og minni að raunverulegu verðmæti, og auk þess er oft erfitt að fá nauðsynlegar hækkanir á upphæðum, sem reynt er að leggja til á fjárl., t.d. þegar erfiðleikar eru á að ná endum saman í sambandi við fjárlög, eins og oft vill verða. Ég tel því, að það þurfi að leysa þetta mál út frá öðrum forsendum. En sem sagt, ég er sammála hv. þm. um, að það þarf óhjákvæmilega að efla iðnlánasjóðinn og ekki sízt í sambandi við þau iðnþróunaráform, sem nú eru framundan.

Hv. þm. vék að því, að ég hefði greint frá því nýlega, að verið væri að vinna á vegum iðnrn. að iðnþróunaráætlun fram til ársins 1980 með aðstoð sérfræðinga frá Sameinuðu þjóðunum. Og hann kvartaði undan því, að ég hefði verið að tala um þetta, án þess að í þessu fælist stefnumörkun af hálfu núv. ríkisstj. Það er alveg rétt. Málið er ekki komið á það stig, að hægt sé að tala um stefnumörkun í þessu sambandi. En það eru dálítið harðir kostir, ef við ráðh. megum ekki ræða um okkar málaflokka og gera grein fyrir hugmyndum okkar um þróun þeirra og þau verkefni, sem verið er að vinna að, án þess að það þurfi að vera einhver stimpluð stefnumörkun. Ég er hræddur um, að við yrðum þá æðioft að láta það vera að taka þátt í umr. hér á Alþ.

En í sambandi við þetta frv. til l. um breyt. á l. um iðnlánasjóð, rak ég augun í atriði, sem vakti undrun mína, Á bls. 2 er fskj., sem nefnt er fskj. I. Iðnlánasjóður, greiðsluyfirlit 1970–1973, og þar er birt áætlun fyrir árið 1973. Nú er mér kunnugt um það, að stjórn iðnlánasjóðs hefur ekki gert neina slíka áætlun og engin slík áætlun hefur verið lögð fyrir iðnrn., þannig að mér er ekki ljóst, hvaðan hv. þm. hefur þessar tölur. Það má vel vera, að hann hafi reiknað þetta út sjálfur, og það er ekkert við það að athuga. Það er ágætt, að menn sitji hver í sínu horni og reikni út. En ég kann ekki almennilega við það, að þetta sé birt hér sem fskj. í eins og þetta sé eitthvert opinbert plagg, því að slíkt plagg um þetta efni er hreinlega ekki til. En þetta frv., sem hér liggur fyrir, verður að sjálfsögðu kannað af hv. þm. eins og þær till., sem ég geri mér vonir um að leggja fram síðar á þessu þingi.