09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3208 í B-deild Alþingistíðinda. (2661)

218. mál, breyting á mörkum Gullbringusýslu og Kjósarsýslu

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er samið af dómsmrn. og félmrn. í sameiningu að segja má. Það er samið samkv. þál., sem samþ. var á síðasta Alþ. og flutt var, að ég held, af öllum þm. Reykn. Það hefur verið gerð sú breyting á sýslumörkunum og lögsagnarumdæmunum, sem farið var fram á og fólst í þessari þál., að öðru leyti en því, ef ætlunin hefur verið, að Keflavíkurflugvöllur væri tekinn þar inn í, að með þessu frv. er ekki gerð nein breyting á þeirri skipan, sem þar hefur gilt og gildir, þannig að það verður áfram algerlega óbreytt skipan um Keflavíkurflugvöll og það umdæmi. En þarna verður sem sagt Gullbringu- og Kjósarsýslu skipt á milli embættismanna, þannig að Gullbringusýsla kemur til með að falla undir bæjarfógetann í Keflavík, sem jafnframt verður sýslumaður í Gullbringusýslu, en Kjósarsýsla, með þeim breytingum, sem gerðar eru varðandi tilfærslu hreppa, fellur undir bæjarfógetann í Hafnarfirði, sem verður sýslumaður í þeirri sýslu.

Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Nd., og þar voru gerðar þær breytingar, að samþ. voru ákvæði til bráðabirgða, sem sett eru til öryggis og til þess að taka af vafa. Það liggur í hlutarins eðli, að umboð þeirra sýslunefndarmanna, sem síðast voru kjörnir, haldast að sjálfsögðu óbreytt, þó að þeir færist á milli sýslunefnda. Það eru tveir hreppar, sem færast milli sýslna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta frv. Ég held, að það sé nokkuð ljóst og er flutt samkv. óskum íbúa á þessum svæðum. Það hefur farið fyrir sýslunefndirnar og einhverjar hreppsnefndir, og yfirleitt voru svörin jákvæð, sem bárust, með e.t.v. einni undantekningu. Lýsingu á því er að finna í athugasemdum, og þau gögn getur hv. n., sem fær frv. til meðferðar, fengið til athugunar, eins og hver önnur gögn, sem liggja fyrir í rn. varðandi þetta mál. Þessu frv. var í Nd. vísað til allshn. og ég vil gera það að till. minni, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn.