09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

220. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 471 er frv. til l. um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Snemma á árinu 1972 var skipuð n. til að endurskoða gildandi lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins svo og lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna og lög um verkfall opinberra starfsmanna. Í n. þessari áttu sæti margir heiðursmenn. Formaður hennar var Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómari, en auk hans voru í n. Arnmundur Bachmann lögfræðingur, Björgvin Vilmundarson bankastjóri, dr. Gunnar Thoroddsen prófessor, Ingólfur A. Þorkelsson kennari, Vilhjálmur Hjálmarsson alþm. Tilnefndir af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja voru Kristján Thorlacíus deildarstjóri og Albert Kristinsson deildarstjóri og af Bandalagi háskólamanna dr. Ragnar Ingimarsson. Auk þess voru varamenn í n. þeir Ingi Kristinsson skólastjóri, sem var tilnefndur af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Þór Vilhjálmsson prófessor, sem var tilnefndur af Bandalagi háskólamanna. Á starfstíma n. hætti dr. Ragnar Ingimarsson störfum, en við störfum hans tók Hrafn Bragason borgardómari.

Í grg. með frv. gerir n. svo hljóðandi grein fyrir störfum sínum: „N. hóf þegar störf og hefur haldið marga fundi. Kom í ljós, að skoðanir manna voru mjög skiptar um, hvernig skyldi haga heildarlausn þessara mála. Gildandi kjarasamningar renna út 31. des. 1973. Er kom fram á árið 1973, var ljóst, að útilokað var að ljúka þeirri heildarendurskoðun, sem fyrirhuguð var, það snemma, að nýjum reglum yrði beitt um samninga þá, sem taka eiga gildi 1. jan. 1974. Var því horfið að því ráði að taka fyrir einn þátt málsins til bráðabirgða, lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna, í því trausti, að breyt. á þeim l. fengjust samþ. á því þingi, sem nú situr, og unnt yrði að beita hinum nýju reglum við samningagerð þá, sem hefjast skal á þessu ári. Allir nm. voru samþykkir meginstefnu þessa frv., en samkomulag náðist þó ekki alveg um 3. og 4. gr. frv: `

Meginbreytingar í þessu frv. frá gildandi l. eru þær, að lagt er til, að lögin taki einnig til opinberra starfsmanna, sem ráðnir eru með skemmri en þriggja mánaða uppsagnarfresti. Í öðru lagi fá heildarsamtök opinherra starfsmanna, sem hlotið hafa viðurkenningu af fjmrh., samningsaðild við gerð aðalkjarasamnings. Það skal tekið fram, að það, sem raunverulega er átt við með þessu ákvæði, er það að veita Bandalagi háskólamanna rétt sem aðila að þessum aðalkjarasamningum. Það var ljóst að leiðir Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og Bandalags háskólamanna höfðu skilið að fullu og háskólamenn stofnað sérsamband. Þeir hafa verið að leita eftir því að vera viðurkenndir sem aðilar að kjarasamningi, en það hefur ekki verið til þessa. Það var bæði skoðun forsvarsmanna Bandalags starfsmanna ríkis og bæja og þeirra starfsmanna í fjmrn., sem mest hafa unnið að þessum málum, að ekki yrði hjá því komizt að veita þessa aðild, því að eins og þetta væri nú, næði Bandalag starfsmanna ríkis og bæja ekki til þess að semja fyrir þessa aðila. Þess vegna var talið rétt og skynsamlegt að verða við þessu. Þriðja atriðið, sem hér er um að ræða, er það, að þau aðildarfélög, sem hafa þennan heildarsamningsrétt, semji um skipan manna og starfsheita þeirra í launaflokkum og önnur atriði, sem þetta varðar.

Í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru leiðir þær, sem farnar eru í 3. og 4. gr., valdar af fjmrh., en þó raunverulega með samkomulagi við þá aðila, sem í n. sátu, þó að þeir hefðu kosið að fara aðrar leiðir, sættu þeir sig við þetta.

Eftirtektarverðust þeirra breytinga, sem frv. þetta gerir ráð fyrir, er sú að greina má samningsaðild á fleiri hendur en núgildandi lög heimila. Undanfarandi ár hefur kjararáð Bandalags starfsmanna ríkis og bæja haft samkv. lögum allan veg og vanda af samningsgerð, jafnvel fyrir starfsmenn og félög, sem eigi tilheyrðu bandalaginu. Frv. þetta heimilar fjmrh. að veita heildarsamtökum starfsmanna viðurkenningu til samningsgerðar, en jafnframt er gert ráð fyrir, að starfsmenn geti verið utan samtaka, og ákveður þá fjmrh. um laun þeirra án samninga. Þá er gert ráð fyrir, að þeir starfsmenn, sem ráðnir eru með skemmri uppsagnarfresti en þriggja mánaða, fái samningsrétt. Að öðru leyti taka ákvæði frv. ekki til þeirra, sem voru undanskildir ákvæði l. nr. 55 1962.

Frv. gerir ráð fyrir að samningar fari fram í tvennu lagi: Fyrst geri heildarsamtökin aðalkjarasamning, er kveði á um fjölda launaflokka, meginreglur til viðmiðunar um skipan í launaflokka, föst laun, vinnutíma, laun fyrir yfirvinnu, orlof og greiðslu ferðakostnaðar. Þegar aðalkjarasamningur hefur verið gerður, skulu stjórnir einstakra félaga innan heildarsamtaka semja um skipan starfsheita í launaflokka, sérákvæði um vinnutíma, fæðisaðstöðu og fæðiskostnað, svo og önnur þau atriði, sem aðalkjarasamningur tekur eigi til og eigi eru lögbundin. Semjist eigi um aðalsamning eða sérsamning, fær kjaradómur málið til úrlausnar og fellir fullnaðarúrskurð í deilunni.

Eins og fram kemur í grg. n. þeirrar sem frv. þetta samdi, er frv. liður í heildarendurskoðun laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, þar með talinn samningsrétt þeirra. Líta verður því á frv. sem bráðabirgðalausn vegna komandi samninga og rétt er að hafa í huga, að ákvæði þess hljóti að koma til heildarendurskoðunar réttindamála starfsmanna ríkisins. Aðalatriðið er þó, að ákvæði frv. þessa hafa mjög ólík sjónarmið getað sætzt, og er því von mín, að hv. þd. geti fallizt á frv.

Ég vil svo bæta því við í sambandi við þetta frv., sem að vísu er aðeins lítill hluti af því heildarmáli, sem þessi n., sem skipuð var á sínum tíma, vinnur að, að ætlunin er, að hún haldi áfram að vinna að sínu verkefni eftir sem áður, þó að þessi þáttur sé tekinn út úr til þess að gera kjarasamninga á n.k. hausti auðveldari en ella. Það verður svo haldið áfram að leita að þeirri lausn, að ríkisstarfsmenn fái, eins og segir í stjórnarsamningnum, full réttindi til kjarasamninga. Það hefur komið fram í umr., að réttindi og skyldur yrðu þá að vera hliðstæðar því, sem er annars staðar á vinnumarkaðnum. Um þessi atriði hefur ekki náðst samkomulag innan n. enn þá, og kannske næst það ekki, en hún heldur áfram að vinna að þessu verkefni, þó að þetta frv. verði afgreitt, sem ég vona að gert verði.

Hv. Nd. afgreiddi þetta mál fljótt, og ég vona, að það verði eins hér í hv. deild.

Ég legg svo til, herra forseti, að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til hv. félmn. og 2. umr.