09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

79. mál, hafnalög

Frsm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. er kunnugt um, var fullt samkomulag um afgreiðslu þessa máls við meðferð þess við 2. umr. málsins, bæði í Nd. og þessari hv. þd. En við nánari athugun einstakra nm. hefur komið í ljós að gera þarf tvær smávægilegar leiðréttingar á frv., til þess að það fái alveg staðizt. Það hefur að vísu sumt verið leiðrétt, sem þurft hefur að leiðrétta, vegna tímasetninga og af öðrum ástæðum, við meðferð málsins í hv. Nd. Auðsætt er t.d., að ákvæði 30. gr. um gildistöku í janúar 1973 stenzt ekki, þótt von væri til þess, að frv. gæti gilt frá þeim tíma, er það var lagt fram snemma á yfirstandandi hv. Alþ. Enn fremur hefur fundizt ein nokkuð meinleg prentvilla í 26. gr. frv. Þar á að standa „hafnarstjórna“ í stað „hafnarstjóra“. Það er því nauðsynlegt til leiðréttingar að flytja 2 litlar brtt. við frv. Það er í fyrsta lagi: Við 26. gr., tölulið 2. Í stað „hafnarstjóra“ komi: hafnarstjórna. — Og í öðru lagi að í 30. gr. frv. komi 1974 í stað ársins 1973.

Ekki vannst tími til þess að kalla hv. samgn. saman til þess að ganga frá brtt. um þetta efni, og hef ég því leyft mér að flytja brtt. til leiðréttingar á þessum atriðum. Brtt. er skrifleg og einnig of seint fram komin, þannig að ég vil biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, svo hún megi koma fyrir.