09.04.1973
Efri deild: 85. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3213 í B-deild Alþingistíðinda. (2672)

191. mál, Iðnrekstrarsjóður

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur skoðað þetta frv., sent það út allvíða til umsagnar og borizt mörg svör. Svörin eru yfirleitt öll á þann veg, að talið er, að það verkefni, sem hér er um að ræða, sé þarft og æskilegt að veita fjármagn til þess. Athugasemdir eru fremur á þann veg, að e.t.v. hefði mátt fela einhverjum af þeim sjóðum, sem nú eru starfandi á sviði iðnaðarins, að fjalla um þetta verkefni, frekar en lagzt sé gegn frv., og raunar er það hvergi gert.

Ég sé ekki ástæðu til að rekja hér þessar umsagnir. Þær eru æði margar, sumar nokkuð langar og fjalla margar mjög almennt um hin ýmsu lánamál iðnaðarins. En eins og ég sagði, hefur n. athugað þetta allt og komizt að þeirri niðurstöðu að leggja til, að frv. verði samþ. með nokkrum brtt., sem fram koma á þskj. 561. Þessar brtt.. eiga rætur sínar að rekja til aths., sem n. bárust m.a. frá Félagi íslenzkra iðarekenda. En ákvæði til bráðabirgða, sem n. leggur jafnframt til að bætt verði í frv., fjallar um það, að lög þessi og önnur lög um lánasjóði iðnaðarins verði tekin til endurskoðunar hið fyrsta með það fyrir augum að sameina sjóðina og verkefni þeirra. Á það rætur að rekja til þeirra aths., sem ég nefndi áðan, um að sjóðir iðnaðarins eru orðnir æði margir. Þótti n. þetta eðlileg aths. og var á þeirri skoðun, að það væri rétt að leggja áherzlu á, með slíku ákvæði til bráðabirgða, að þessi mál öll yrðu tekin til endurskoðunar. Ég vil geta þess, að ég hef rætt um þetta við hæstv. iðnrh., sem tjáði sig fyllilega sammála þessu, og skilst mér, að slík athugun sé nú í undirbúningi, en vonandi verður henni hraðað með þessari viðbót, ef hún fæst samþ.

Ég vil svo geta þess, að á þskj. 500 er brtt. frá hæstv. iðnrh. Hún kom fram það seint, að n. hefur ekki haft tækifæri til að fjalla um hana.