09.04.1973
Neðri deild: 82. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3221 í B-deild Alþingistíðinda. (2703)

3. mál, bygging og rekstur dagvistunarheimila

Frsm. (Svava Jakobsdóttir) :

Herra forseti. Menntmn. hefur athugað frv. og skoðað umsagnir, sem hv. Ed. höfðu borizt, en frv. hefur þegar hlotið afgreiðslu þaðan. Menntmn. hefur orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ., eins og það liggur fyrir nú. N. var líka einhuga í því að hvetja hv. þm. til að gera sitt til þess, að frv. þetta mætti verða að lögum nú fyrir þinglok.

Hér er um mjög merkilegan áfanga að ræða í dagvistunarmálum barna. Með samþykkt þessa frv. stendur Ísland nokkurn veginn jafnfætis hinum Norðurlandaþjóðunum, en það er síðast þeirra til að lögbjóða hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri þessara dagvistunarheimila. Ég skal ekki tefja störf þessarar hv. d. með langri ræðu, en reyna að gera grein fyrir inntaki frv., eins og það liggur nú fyrir.

Samkv. frv. er gert ráð fyrir, að þrenns konar dagvistunarheimili njóti styrks úr ríkissjóði: Í fyrsta lagi dagheimili, sem ætluð eru börnum frá 3 mánaða til skólaskyldualdurs, þar sem þau geta dvalizt a.m.k. 5 stundir á dag, í öðru lagi skóladagheimili fyrir börn frá skólaskyldualdri og í þriðja lagi leikskólar fyrir börn frá tveggja ára aldri til skólaskyldualdurs, þar sem þau geta dvalizt a.m.k. 3 stundir á dag. Styrks til byggingar og rekstrar þeirra dagvistunarheimila, sem ég hef nú greint frá, skulu njóta ekki aðeins sveitarfélög, heldur einnig áhugafélög, svo sem húsfélög fjölbýlishúsa, starfsmannafélög og aðrir aðilar, sem reka vilja dagvistunarheimili í samræmi við markmið þau, sem frv. gerir ráð fyrir. Öðrum aðilum, en sveitarfélögum, er þó skylt að leggja fram meðmæli viðkomandi sveitarfélags. Var talið eðlilegt að hafa þann hátt á með tilliti til skipulags og heildarþarfa og talið eðlilegt að tryggja sveitarfélaginu yfirsýn þessara mála.

Í II. kafla frv. er kveðið á um, hvert framlag ríkisins til stofnkostnaðar þessara heimila skuli vera. Það skal leggja fram helming stofakostnaðar til allra þessara bygginga, og voru hér höfð til hliðsjónar lög um stofakostnað skóla.

Í III. kafla frv. er kveðið á um rekstrarstyrk. Til dagheimila og skóladagheimila greiðir ríkið allt að 30% í rekstrarstyrk, en til leikskóla allt að 20%, og er í 9. gr. þessa sama kafla kveðið á um, að ríkisframlag til stofn— og rekstrarkostnaðar sé bundin því skilyrði, að viðkomandi sveitarfélag greiði eigi minna af rekstrarkostnaði dagvistunarheimila en nemur rekstrarframlagi ríkisins. Þessu ákvæði er ætlað að tryggja, að aðstaðendum sé ekki gert að greiða allan rekstrarkostnað umfram það, sem ríkið leggur til. En hér hlýtur að velta á miklu, að dagvistunargjöld verði ekki það há, að aðeins hátekjufólk geti leyft sér að notfæra sér þessa þjónustu. Í sambandi við þetta ákvæði þótti þó rétt að gera ráð fyrir undanþágu vegna þeirra aðila annarra en sveitarfélaga, sem reka dagvistunarheimili og frv. tryggir ekki styrk viðkomandi sveitarfélags til rekstrarins, en gert ráð fyrir, að ráðh. veiti slíkum aðilum undanþágu frá umræddu skilyrði.

Í IV. kafla er kveðið á um, hverju hlíta skuli, er sótt er um styrk til byggingar eða rekstrar dagvistunarheimilis. Er þar gert ráð fyrir, að ríkissjóður skuli að jafnaði greiða sinn hluta af áætluðum byggingarkostnaði dagvistunarheimila á næstu 4 árum, eftir að fyrsta fjárveiting til framkvæmdarinnar hefur verið samþykkt. Í þessum kafla er það og nýmæli, að rn. skuli hafa í þjónustu sinni starfsmann, sem lokið hefur námi í Fósturskóla Íslands eða í sambærilegum skóla og hlotið framhaldsmenntun. Er gert ráð fyrir, að þessi starfsmaður athugi allar umsóknir, áður en leyfi er veitt. Skal hann einnig vera stjórnendum dagvistunarheimila til ráðuneytis um starfsemi heimilanna og annast eftirlit með þeim.

Í V. kafla er kveðið á um innri gerð dagvistunarheimila, að svo miklu leyti sem fært þótti eða eðlilegt að lögbinda slík atriði. Þar er einnig kveðið á um menntun þeirra, er veita dagvistunarheimilum forstöðu, og þeirra, er annast fóstur barnanna, um eftirlit með heilsufari barna og ákvæði, er lúta að samstarfi forstöðumanns og starfsfólks annars vegar og aðstandenda barnanna og dagvistunarheimilisins hins vegar. Skulu allir þeir, sem annast börnin, hafa hlotið fósturmenntun. Vegna skorts á slíku fólki nú er þó gert ráð fyrir, að veita megi undanþágu. Ákvæðin, sem ég taldi upp síðast, lúta að því að reyna að tryggja sem bezt velferð barnsins og tengsl milli heimilis þess og dagvistunarheimilisins.

Að lokum er ákvæði til bráðabirgða, þar sem kveðið er á um, að ríkisframlag til stofnkostnaðar nái ekki til þeirra dagvistunarheimila, sem þegar eru fullbyggð, en þeir aðilar, sem hafa dagvistunarstofnanir í byggingu, þegar lög þessi taka gildi, geta sótt til menntmrn. um ríkisframlag til bygginganna.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, en vænti þess, að samstaða náist um málið í þessari hv. d. Svo sem fram kemur í nál. á þskj. 572, mælir menntmn. með því, að frv. verði samþykkt. Einn nm., Gunnar Gíslason, áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt., og einn nm., Ellert B. Schram, var fjarverandi, er málið var afgreitt.