01.11.1972
Neðri deild: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

47. mál, Iðnlánasjóður

Flm. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það eru aðallega tvær aths. Það kom fram í ræðu hæstv. iðnrh. nú, að hann hefði rætt um það við fyrirsvarsmenn Alusuisse, svissneska álfyrirtækisins, að hugsanlegt væri, að það byggði álbræðslu á Íslandi í félagi við Íslendinga, þannig að Íslendingar ættu meiri hlutann. Þetta er ekkert nýtt. Það var gert ráð fyrir þessu í samningnum við Alusuisse, þegar þeir voru gerðir á sínum tíma, að það væru athugaðir möguleikar á að byggja álbræðslu á Norðurlandi, og það var sett n. á laggirnar í því sambandi og það var alltaf frá öndverðu hugsað um, að þeir væru aðilar og ekki nema minni hluta aðilar að þeirri álbræðslu.

Hann átaldi það, að í samningunum væri gert ráð fyrir úrskurði alþjóðlags gerðardóms, sem er hlutlaus gerðardómur, eins og hann er skipaður, — ef ágreiningur kæmi upp um aðalsamninginn milli Svisslendinga og okkar, og sagði, að núv. ríkisstj. vildi láta þá hlíta dómum hérlendra dómstóla, eins og öll önnur fyrirtæki verða að sætta sig við. Hæstv. ráðh. er þarna vankunnandi um verulegt atriði, að olíufélögin hér verða að sæta því, ef ágreiningur verður í sambandi við viðskiptin við Sovétríkin, að sá ágreiningur verði lagður undir sovézkan dómstól, gerðardóm, sem við eigum ekki fulltrúa i. Það var fyrst samið um þetta í tíð fyrrv. vinstri stjórnar á árunum 1956–1958, held ég, og hefur síðan verið endurtekið í tíð viðreisnarstjórnarinnar og er enn endurtekið í samningum, sem sú ríkisstj., sem hæstv. ráðh. á sæti í, hefur gert.

Ég skal ekki hafa þetta fleira, þar sem forseti vill stytta umr.