01.11.1972
Neðri deild: 9. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

47. mál, Iðnlánasjóður

Eyjólfur K. Jónsson:

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki umr.Hæstv. iðnrh. gat þess hér í síðari ræðu sinni, að það hefði ekki verið sín hugmynd að ráðast í byggingu annarrar álbræðslu nú á næstunni. Það var ekki mitt tilboð, sagði hann, það var þeirra hugmynd. Og þegar hann talar um þá þessa, þegar hann talar um þeirra hugmynd, það eru mennirnir, sem stefndu honum utan til viðræðna í Sviss. Þeir buðu honum að koma þangað og gista hjá sér nokkra daga, ferðast þar um og sitja miklar og veglegar veizlur og þeir greiddu fyrir hann fargjaldið alla leið frá Íslandi til Sviss og aftur heim. Þeir gerðu mjög vel við ráðh., enda kom hann glaður og reifur heim og talaði fjálglega um þessa álbræðslu nr. 2, en hann upplýsir nú, að það hafi ekki verið sín hugmynd, þeir hafi komið hugmyndinni inn hjá honum, þessir svissnesku. Og við skulum segja, að hún sé jafngóð, hvaðan sem hún kemur, en ég legg nú áherzlu á það, eins og hann reyndar gerði nú í sinni seinni ræðu, að við snúum okkur frekar að sjóefnaverksmiðjunni og málmblendiverksmiðjunni á næstunni. Hitt er alveg rétt, og ég er sammála hæstv. ráðh. um, að sjálfsagt er að stækka álbræðsluna í Straumsvík, ef við fáum hagstæða orkusamninga.

Ég skildi það nú svo, að hann hefði verið að tala um heimsmarkaðsverðið, þegar hann nefndi 4 milla verð. Ég hef aldrei heyrt það fyrr, hvorki hér á Alþ. né hér innanlands yfirleitt, að um virkjunarframkvæmdir á Íslandi væri talað í millum. Hann segir, að hann hafi átt við Sigölduvirkjun, hún kostaði 4 mill. Er maðurinn farinn að tala á þessu alþjóðlega máli, eftir að hann kom frá Sviss, um íslenzkar virkjanir? Hingað til höfum við notazt við krónurnar og auranna, en þegar um var að ræða samninga við erlenda aðila, þá kom þessi alþjóðlega viðmiðun. Og ég held, að ég hafi ekki misskilið hann, en ef ég hef gert það, þá bíð ég innilega afsökunar á því.

Annars hafði ég dálítið gaman af því að heyra hann gera ósköp lítið úr því, að hann hefði talað um ísvandamál, og hann hefði nú eiginlega ekkert verið á móti EFTA. Það væri bara svona smáótti við, að erlendir menn mundu hingað koma. Það var það eina, sem hann sagði þá. Hann sagði kannske heldur aldrei um virkjun Búrfells, að við ættum að geyma vatnsorkuna handa komandi kynslóðum. (Gripið fram í) Hæstv. ráðh. kannast kannske ekki heldur við það. Það er hægt að rifja öll þessi ummæli upp, ef hæstv. ráðh. vill það.

Varðandi ósannindin um 20 álbræðslurnar, þá endurtók hann þau hér einu sinni enn. Hann hafði það snillilega lag á þessu að koma með þetta í Þjóðviljanum allmörgum vikum eftir að þátturinn var, og menn minntust þess jú, að ég hefði nefnt töluna 20. Það gerði ég, eins og ég gerði grein fyrir hér áðan. Einhver hafði þá orð á því, að hann ætlaði að hefna þess í héraði, sem hallaðist á Alþ., en nú virðist hann sem sagt ætla að hefna þess á Alþ., sem hallast á í héraði.