09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3248 í B-deild Alþingistíðinda. (2726)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég vakti máls á því við 1. umr., þegar þetta mál kom hér fram, að mér fyndist mjög óeðlilegt, að það væri ekki ætlunin að hafa neina heilsugæzlustöð frá Húsavík til Þórshafnar. Á milli þessara staða eru 224 km, og þetta er eitt það hérað, sem snjóþyngst er á landi hér og vegir víða mjög slæmir, þar sem heita má, að það séu troðningar einir á stórum köflum. Má geta þess í þessu sambandi, að í sveitunum í kringum Kópasker eru sennilega um eða rúmlega 700 manns. Í þessu frv. mun lækni, a.m.k. á nokkrum stöðum, ætlað að sinna rúmlega 700 manns og á nokkrum stöðum ætluð læknamiðstöð fyrir slíkan fólksfjölda. Við höfum því leyft okkur, ég ásamt hv. þm. Jónasi Jónssyni, að bera fram hér við 3. umr. eftirfarandi brtt.:

„Við 17. gr., 17.5

1. 7. tölul. orðist svo:

Húsavíkurumdæmi. Húsavík H 2, starfssvæði Ljósavatnshreppur, Bárðdælahreppur, Skútustaðahreppur, Reykdælahreppur, Aðaldælahreppur, Reykjahreppur, Húsavíkurkaupstaður og Tjörneshreppur.

2. Á eftir 7. tölul. komi nýr liður, svo hljóðandi:

2. Kópaskersumdæmi. Kópasker H 2, starfssvæði Kelduneshreppur, Öxarfjarðarhreppur, Fjallahreppur og Presthólahreppur.

Ég vona, að þó að hv. heilbr.— og trn. hafi ekki séð sér fært að taka upp þessa till., sjái hv. þm. sér fært að samþykkja hana.