09.04.1973
Neðri deild: 83. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3250 í B-deild Alþingistíðinda. (2728)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Pálmi Jónsson:

Herra forseti. Það orkar naumast tvímælis, að frv. það, sem hér er til umr., er meðal hinna viðameiri og þýðingarmeiri, sem þetta Alþ. hefur fjallað um. Málið sjálft er einnig vandasamt, eins og sést raunar bezt á því, að þrátt fyrir hinn langa undirbúningstíma og að um það hafi verið fjallað af tveimur ríkisskipuðum nefndum, þá hefur þegar orðið samkomulag um það í þn. að gera á því óvenjumargar breytingar, og enn berast brtt. við frv. Þetta sannar það, að frv. er ekki svo vel samið sem æskilegt hefði verið, og þrátt fyrir það, að till. þær, sem hv. heilbr.– og trn. hefur lagt fram og ýmsar verið samþykktar, þá eru þm. ekki nægilega ánægðir með að afgreiða málið eins og það liggur fyrir.

Um þær meginbreytingar, sem í frv. felast, skal ég ekki fara mörgum orðum. Ég vil þó aðeins drepa á það, að ástæða hefði verið til þess, að við endurskoðun frv. frá því á síðasta Alþ. hefðu komið einhverjir fulltrúar sveitarfélaganna í landinu, og hefði þá e.t.v. mátt draga úr þeim hlut, sem rn. sjálft, heilbr.– og trmrn. hefur átt í endurskoðun og samningu þessa frv. Það sést og á, að hlutur ríkisvaldsins, þ.e.a.s. hlutur rn., er gerður góður. Vald og stjórnsýsla er færð í vaxandi mæli í þess hendur og þar með í hendur ríkisvaldsins, og slíkt er raunar engin nýlunda nú á dögum þessarar hæstv. ríkisstj. um aðra málaflokka. Hins vegar er það svo, að stjórnsýsla og vald skerðist að sama skapi eins og jafnan áður hjá sveitarfélögunum í landinu.

Það er mjög þýðingarmikið atriði í þessu máli og veldur ánægju víðs vegar um land, að það skuli kveðið á um, að ríkið skuli leggja fram sem óafurkræft framlag 85% fjár til heilsugæzlustöðva og sjúkrahúsa vítt og breitt um landið. Ég vil þó vekja athygli á því, að önnur leið að því marki að bæta hlut strjálbýlisins og þar með auðvelda það að koma upp fullnægjandi aðstöðu í heilbrigðismálum er vitaskuld sú, að sveitarfélögin leggi fram meiri hlut en þarna er gert ráð fyrir, en þá um leið, að sveitarfélögunum séu tryggðir tekjustofnar til að standast slík útgjöld. Hér eru tvær leiðir að sama marki, sem unnt er að fara, og má deila um, hvor sé heillavænlegri. En ég hef fyrr haldið fram þeirri skoðun hér, að það væri hyggilegt að fela sveitarfélögunum aukinn hlut af viðfangsefnum stjórnkerfisins og tekjustofna í samræmi við það og færa þannig aukin völd í hendur sveitarfélaganna. Það skal ekkert sagt um í þessu tilviki, hvora leiðina sé hyggilegt að velja í sambandi við heilbrigðisþjónustuna, og læt ég útrætt um það.

Ég vil geta þess, að það er ljóst, að í fjölmörgum greinum stefnir þetta frv. til mikilla bóta frá því ástandi, sem nú gildir, og það er almenn skoðun þm., að enda þótt nokkur atriði þess séu með þeim hætti, að þeir hefðu kosið þau á annan veg, þá hygg ég, að það vilji enginn verða til þess að bregða fæti fyrir frv. að þessu sinni.

Ég hef leyft mér að flytja nokkrar brtt., þar af eina í félagi við hv. 3. þm. Norðurl. v. Ég tek það fram um þessar brtt. allar, að þær eru ekki fluttar með því hugarfari eða í þeim tilgangi að brengla svo þetta frv., að þó að þær væru samþykktar, þá sé nokkur ástæða til þess, að það verði til þess að hindra framgang málsins í heild. Það er því að mínu mati ástæðulaus ótti, sem fram kom hjá frsm. hv. heilbr.– og trn. áðan, að ef einstakir þm. færu að flytja brtt. við frv., þá kynni það að verða til þess að hefta framgang þess. Ég lít svo á, að sá ótti sé algerlega ástæðulaus. Ég skal ekki eyða tíma Alþ., eins og nú er komið, í að ræða þetta frv. sem heild meira og stytta mál mitt og takmarka það einvörðungu við þær brtt., sem ég hef hér flutt.

Í fyrsta lagi höfum við flutt brtt., ég og hv. 3. þm. Norðurl. v., Björn Pálsson, á þskj. 607. till. er við 17. gr., og þar segir:

„2. tölul. 17. 5. orðist svo:

Blönduósumdæmi.

a. Á Blönduósi H 2, starfssvæði Áshreppur, Sveinsstaðahreppur, Torfalækjarhreppur, Blönduóshreppur, Svínavatnshreppur, Bólstaðarhlíðarhreppur og Engihlíðarhreppur.

b. Á Skagaströnd H 1, starfssvæði Vindhælishreppur, Höfðahreppur og Skagahreppur.“

Þarna gerum við ráð fyrir því, að upp verði tekin innan Blönduósumdæmis heilsugæzlustöð H 1 á Skagaströnd, og það er raunar sjálfstætt læknishérað eftir núgildandi læknaskipunarlögum. Þar hefur að vísu ekki starfað læknir nú um nokkur ár, en ef svo færi, að þangað kynni að fást læknir, þá væri ástæða til þess, að gert væri ráð fyrir því í lögum, að hann starfaði þar. Þar er að mestu fullnægjandi aðstaða og tiltölulega nýlega upp byggð, og þarf ekki að óttast það, að þar þurfi að leggja í mikla fjárfestingu, til þess að læknir geti starfað þar. Ég vil geta þess, að okkur þm. Norðurl. v. hefur borizt eindregin áskorun um að koma þessu máli til leiðar, og er sú áskorun undirrituð af hvorki meira né minna en 220—230 íbúum núv. Höfðalæknishéraðs, og auk þess samþykktir hreppsnefnda á þessu svæði. Ég hygg, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þessa brtt., og er ljóst, að enda þótt hún verði samþ., — sem ég vona að verði, — þá raskar hún ekki neinu heildaruppbyggingu frv.

Um þessa uppbyggingu að öðru leyti langar mig aðeins að bæta við þeim orðum, að þar sem frestað hefur verið að taka til meðferðar II. kafla frv., þá hefði ég kosið, að það mál hefði verið tekið til gagngerðari endurskoðunar og yfirvegunar á þá lund, að kaflinn væri felldur niður og það skipulag svæðisbundinna yfirlækna eða embættislækna, sem nefndir eru í frv. héraðslæknar, hefði verið numið brott úr þessu frv., og tek ég þar undir skoðun, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Vestf., Matthíasi Bjarnasyni, í fyrradag. Ég vænti þess, að þó að ekki verði horfið að breytingum í samræmi við þá skoðun okkar við framhaldsendurskoðun málsins, þá verði það tekið til athugunar, hvort ekki megi nefna þessa embættislækna öðru nafni en héraðslækna, nafni, sem unnið hefur sér hefð í málinu og gildir um allt aðra lækna en þá, sem hér er fjallað um.

Um þær brtt., sem ég hef leyft mér að flytja á þskj. 610, er í stuttu máli það að segja, að þær ganga í meginatriðum út á tvö atriði: Annars vegar að tryggja fyllri stjórn eignaraðila að heilsugæzlustöðvum og sjúkrahúsum með því að fækka um einn mann, sem starfslið sjúkrahúsa kýs í þessar stjórnir, að hlutaðeigandi sveitarstjórnir kjósi 4 menn og starfsmannaráð einungis einn mann. Það er kunnugt, að starfslið sjúkrahúsa er ekki sérlega stöðugt yfirleitt í starfi. Þar verða oft breytingar á, og ég hygg, að það sé fullnægjandi, að þessi starfsmannaráð tilnefni einn fulltrúa úr sínum hópi í stjórnir heilsugæzlustöðvanna og sjúkrahúsanna, enda er tekið fram, að yfirlæknir og yfirhjúkrunarkona eigi sæti á fundum, sem þessar stjórnir halda, og þeir starfsmenn sjúkrahúsanna eru vissulega ekki síður færir um það en aðrir að vekja athygli á því, sem betur mætti fara í stjórnun þessara stofnana.

Í annan stað stefna till. mínar, þ.e.a.s. till. við 21. gr. og 4. till., við 37. gr., í þá átt að halda því skipulagi, sem gildir í dag um eigendur sjúkrahúsa og hinna væntanlegu heilsugæzlustöðva. Ég lít svo á, að enda þótt framlag ríkisins til þessara stofnana sé hækkað upp í 85%, sé engin þörf á því, að um leið færist þessar stofnanir í eigu ríkisins með sama hlutfalli. Hingað til hefur það gilt á mörgum sviðum í okkar þjóðfélagi, að ríkisvaldið leggur fram fjármuni til þess að fjármagna framkvæmdir og framkvæmdirnar eru eigi að síður í eigu heimamanna sjálfra. Þetta skipulag vil ég, að haldist, og því eru þessar brtt. mínar fram bornar. Þess skal getið, að ýmsar sveitarstjórnir og forráðamenn sveitarfélaga hafa vakið sterklega athygli á þessu atriði málsins, og hef ég í höndum ýmis tilmæli, m.a. frá Fjórðungssambandi Norðlendinga, þar sem lögð er þung áherzla á þetta atriði, bæði um eignarréttinn og eins um stjórnun heilbrigðisstofnana. Þessar till. mínar eru fluttar til þess að freista þess að viðhalda þessu skipulagi, sem gilt hefur, og ég lít svo á, að það sé engin nauðsyn og engin vinningur við það að fella þessar stofnanir undir eigu ríkisvaldsins og þær séu miklu betur komnar í eigu sveitarfélaganna, sem aðild eiga að þessum stofnunum.

Ég skal ekki ræða þetta frekar. Það eru vissulega fjölmörg atriði önnur, sem hefði verið ástæða til þess að freista breytinga á með því að bera fram brtt., en ég tek undir það, að það sé rétt að stilla því nokkuð í hóf, og læt því staðar numið við það, sem hér er að gert.

Ég vil að lokum segja það, að þegar frv. koma fyrir Alþ., jafn viðamikil og vandasöm og það, sem hér er til umr., og ekki næst að afgreiða þau á einu þingi, þá væri hyggileg málsmeðferð að kveðja til mþn. þm., sem halda mjög nánum tengslum við fólkið um gervalla landsbyggðina, og fá slíkri mþn. í hendur það verkefni að endurskoða frv. að slíkum lagabálkum. Þá hefði væntanlega sú endurskoðun orðið á þann veg með það frv., sem hér liggur fyrir, að ekki hefði til þess komið, að frv. væri lagt hér fyrir Alþ. nú að þessu sinni og þyrfti að afgreiðast hér á síðustu dögum þingsins með þeim hætti, að fjölmargar brtt. koma fram, ekki einungis frá þeirri n., sem það hefur til meðferðar, heldur einnig frá hinum einstöku þm.