09.04.1973
Efri deild: 87. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3279 í B-deild Alþingistíðinda. (2746)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Fjmrh. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Það hefur verið venja um nokkurra ára skeið að leggja fyrir hv. Alþ. frv. til heimildar fyrir ríkisstj. til lántöku vegna framkvæmdaáætlunar. Áður fyrr var sá háttur á hafður, að framkvæmdir á vegum ríkisins voru einn hluti af fjárl. sjálfum. Þessi breyting hefur verið gerð á síðari árum. Breytingin í sjálfu sér orkar nokkuð tvímælis, a.m.k. er það svo, að vel fer á því, að afgreiðsla á framkvæmdaliðum ríkisins og fjárl. fari saman yfirleitt. Því miður hefur það ekki tekizt, hvorki að þessu sinni né áður fyrr, og þýðir ekki um það að ræða, eins og komið er.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., var lagt fram í hv. Nd. í des. s.l. Það tókst ekki að afgreiða málið fyrir þinghléið, sem gert var um áramótin, og hafa svo mörg atvik legið til þess, að framkvæmdaáætlunin hefur ekki verið til afgreiðslu fyrr í hv. Nd. en raun ber vitni um.

Við þessa umr. sé ég ekki ástæðu til að fara að ræða einstaka liði frv., þar sem fyrir liggur skýrsla frá Framkvæmdastofnun ríkisins, sem gerð hefur verið sem fylgirit með þessu frv. Breytingar þær, sem gerðar voru í hv. Nd., voru fólgnar í því að hækka lánsheimild vegna sveitarafvæðingar um 70 millj. kr., og aðrir liðir voru einnig hækkaðir, sérstaklega Laxárvirkjun, en þar var hækkunin um 33 millj. kr. Enn fremur var sú breyting gerð í hv. Nd. að hækka heimild um 150 millj. kr. til þess að gefa út spariskírteini, sem upphaflega var gert ráð fyrir í frv. að yrði 350 millj. kr. Enn fremur eru veittar heimildir til frekari lántöku, ef þörf gerist vegna þeirra verka, sem vinna á samkv. þessari framkvæmdaáætlun. Hér er fyrst og fremst um að ræða verk, sem þegar er verið að vinna að.

Stærstu liðirnir í útgjöldum framkvæmdaáætlunarinnar eru Rafmagnsveitur ríkisins, 240 millj. kr., og Skeiðarárssandsvegur 230 millj., en hann er sem kunnugt er fjármagnaður með happdrættisskuldabréfum, og eru fjáröflun og útgjöld tengd saman. Aðrir liðir í þessari framkvæmdaáætlun eru flestir áður kunnir hér á hv. Alþ., því að þeir eru, eins og ég áður tók fram, framhald á þeim verkum, sem verið er að vinna. Ég skal þess vegna ekki við þessa umr. fara að þreyta hv. alþm. með því að útskýra þetta mál öllu frekar. Heimildir ríkisstj. til fjáröflunar eru spariskírteinalánin, sem ég gat um hér áðan og svo lántökuheimildir, bæði innlendar og erlendar.

Ég legg svo til, herra forseti, að, að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. fjh.– og viðskn.