10.04.1973
Sameinað þing: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (2753)

304. mál, skipun opinberra nefnda í tíð núverandi ríkisstjórnar

Fyrirspyrjandi (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Það er aðeins örstutt til þess að þakka hæstv. fjmrh. fyrir svör hans. Ég geri mér fulla grein fyrir og gerði, um leið og ég lagði fsp. fram, að það væri máske ómögulegt á þessum tíma að svara þeim til fullnustu. En eins og hann hefur tekið fram og ég vil reyndar undirstrika, mun verða gengið eftir þessum svörum, þótt síðar verði á árinu, og þá mun væntanlega koma í ljós, að það, sem kom fram í blaðafréttum ekki alls fyrir löngu, að það þótti mikið hrósatriði fyrir hæstv. fjmrh. að leggja niður ákveðinn fjölda n., mun máske ekki vera svo ýkjamikið hrós, þegar allt kemur til alls og kostnaðurinn verður tekinn til greina við þær mörgu n., sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur skipað í sinni stjórnartíð.