10.04.1973
Sameinað þing: 68. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (2754)

215. mál, hlutafjáreign ríkissjóðs

Fyrirspyrjandi (Jón Árm. Héðinsson):

Herra forseti. Á þskj. 445 hef ég leyft mér að bera fram svo hljóðandi fsp. fyrir hæstv. fjmrh.:

1) Hvað átti ríkissjóður háar upphæðir að nafnverði í hlutabréfum pr. 31. des. 1971 og pr. 31. des. 1972?

2) Í hvaða fyrirtækjum eru þessi hlutabréf og hve mikið í hverju?

3. Hvaða fyrirtæki greiddu ríkissjóði arð á árunum 1971 og 1972, og hver var sú upphæð?

Raunverulega er tilefni þessarar fsp., það, að við höfum orðið varir við það, m.a. í fjvn. og víðar, að það er leitað oft á ríkissjóð með ýmiss konar fyrirgreiðslu í fjárhagserfiðleikum einkafyrirtækja. Ríkið hefur lagt fram til þeirra allverulegar upphæðir nú undanfarið. Mér er ekki kunnugt um, að það liggi fyrir heildarskýrsla í höndum fjvn. um þessar upphæðir, e.t.v. væri hægt að fá hana með því að spyrja eftir henni þar. En tíminn til reglulegra fundarhalda þar var liðinn, svo að ég taldi rétt að hreyfa þessu núna, því að mér finnst eðlilegt, að það liggi fyrir hverju sinni, hverjar fjármagnshræringar í þessu skyni eru og hvort hér sé um hreina björgunarstarfsemi að ræða, eins og hefur átt sér stað í sumum tilfellum, eða hvort þetta sé allt arðbær fjárfesting fyrir ríkissjóð. Ég reikna með, að í flestum tilfellum liggi önnur sjónarmið til greina, þegar ríkið gerist aðili að stórum fyrirtækjum í einkarekstri, sem hafa átt í erfiðleikum. En hvað um það, þá tel ég nauðsynlegt, að þetta skýrist nánar en verið hefur.