10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil fyrir hönd flm. færa n. þakkir fyrir það, að hún hefur efnislega tekið vel í þetta mál og leggur á það jafnríka áherzlu og flm., hversu þýðingarmikið það er.

Hugmyndin um lífeyrissjóð allra landsmanna er ekki ný. Það hafa margir mælt fyrir henni á mörgum vettvangi, en tilgangur Alþfl: þm. með því að flytja þessa till. var ekki aðeins að halda hugmyndinni vakandi og ýta á eftir henni, heldur líka koma á framfæri hugmynd um lausn á meginvanda málsins, sem ég hygg, að ekki hafi komið fram opinberlega fyrr. Hún kemur fram í till. og er á þá lund, að ekki verði lagðir niður, a.m.k. ekki fyrst um sinn, þeir lífeyrissjóðir, sem til eru, heldur verði þeir látnir mynda þennan lífeyrissjóð allra landsmanna. Þetta er hugmynd um lausn á því, sem hefur reynzt vera óyfirstíganlega erfitt í sambandi við sameiningu lífeyrissjóðanna í einn lifeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Á þennan hátt trúum við, að væri hægt að ná þessari sameiningu og hefja það starf, sem þarf til þess að samræma lífeyrissjóðina og skapa jafnrétti samtímis því að þeim landsmönnum, sem ekki eru í neinum lífeyrissjóðum, yrði tryggð aðild að slíkum sjóðum.

Ég vil því vænta með tilliti til þess, hve n. tekur jákvætt í efni till., að hæstv. ríkisstj. gefi þessu máli gaum og unnið verði rösklega að framgangi þess á næstunni.