10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3289 í B-deild Alþingistíðinda. (2764)

138. mál, Lífeyrissjóður allra landsmanna

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég gat því miður ekki verið við, þegar þetta mál var rætt hér við 1. umr., og þess vegna langar mig til að segja hér fáein orð. Ástæðan er m.a. sú, að mér finnst sú grg., sem fylgir með þessari till., vera töluvert ófullkomin eða kannske væri réttara að segja ekki alveg nákvæm sagnfræði.

Hér er um stórmál að ræða, ég er sammála um það. Ég er þessu máli dálítið kunnugur. Mér er það dálítið hugstætt, af því að það vildi svo einkennilega til, að fyrsta málið, sem ég flutti á Alþ., var um almennan lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla. Það var vorið 1957. Því máli var þá vel tekið, og var skipuð n. undir forsæti ráðuneytisstjórans í félmrn., Hjálmars Vilhjálmssonar. Í henni átti ég sæti. Þessi n. skilaði áliti eftir, að ég ætla, ekkert óeðlilegan tíma. Álit hennar var jákvætt, og ég held, að sú hugmynd, sem hv. síðasti ræðumaður gat um, sé ekki ný af nálinni. Ég held, að ef hann fengi álit þeirrar n., þá mundi hann sjá, að á því er byggt í áliti hennar, að sá almenni lífeyrissjóður yrði viðbótarsjóður við þá lífeyrissjóði, sem þegar hefðu verið stofnaðir. En það var augljóst mál, að ef átti að gera eitthvað raunhæft í þessum málum, þurfti að hefjast handa með nokkurri skyndingu, vegna þess að það var vaknandi áhugi hjá hverri stéttinni á fætur annarri, sem eðlilegt var, að fá sérstaka lífeyrissjóði með samningum. Þess vegna var ljóst, að ef ekki yrði hafizt handa fljótlega, yrði þetta viðfangsefni æ óviðráðanlegra, að sameina alla lífeyrissjóði og setja upp einn lífeyrissjóð fyrir landsmenn alla.

Þessi n., sem ég gat um áðan, skilaði ekki frv. um málið. Nál. hennar var ekki á þá lund. En það var skipuð ný n., að ég ætla árið 1961. Mér er ekki kunnugt um, að nokkurt álit hafi komið frá þeirri n. Henni var falið, að ég ætla, að semja frv. um þetta efni. Í tíð þeirrar n. gerðist það að vísu, að fyrrverandi forstjóra Tryggingastofnunarinnar, Haraldi Guðmundssyni, var falið að semja skýrslu um þessi mál á Norðurlöndum, hvað hann gerði. Raunar þurfti ekki langan tíma til þess að kynna sér þau mál, því að gögn um þau lágu þegar fyrir. Alla þá tíð, sem liðin er síðan, hafa fleiri og fleiri sérstakir lífeyrissjóðir verið stofnaðir. Þeir hafa skapað félögum sínum sérstök réttindi. Félagar í þeim hafa þegar áunnið sér réttindi, og það er auðsætt mál, að þeir verða ekki fúsir til þess að sleppa þeim réttindum.

Það er alveg rétt, sem kom fram hjá hv. þm. Bjarna Guðnasyni, að það er óeðlilegt í sjálfu sér, að menn geti verið félagar í fleiri lífeyrissjóðum en einum, kannske mörgum, en ég er ákaflega hræddur um, að það verði erfitt að fá menn til að semja af sér þau réttindi, sem þeir hafa þannig áunnið sér. Ég er líka ákaflega hræddur um, að það geti verið erfitt fyrir löggjafann að setja lög á þá lund að taka þessi réttindi af mönnum. En eigi að síður er ástæða til að huga að þessu máli enn. En ég vil bara undirstrika það, að málið er nú orðið margfalt erfiðara en það var fyrir 10—15 árum.

Ég get ekki heldur látið hjá líða að benda á, þar sem það er rækilega undirstrikað í grg., sem fylgir till., en annars er hlaupið nokkuð fljótt yfir sögu þessa máls, að Alþfl. hafi alltaf haft sérstakan áhuga á þessu máli, marglýst þeirri stefnu sinni, að allan þennan tíma, sem liðinn er frá því 1957, að samþ. var till. um könnun á því að koma upp lífeyrissjóði fyrir landsmenn alla, fór Alþfl. með stjórn þessara mála, allt þar til núv. stjórn var mynduð. Áhugi Alþfl: manna á þessu máli hefði betur komið í ljós í reynd á þeim árum, þegar þeir höfðu aðstöðu til að koma málinu í höfn. Á þetta vil ég minna. Hitt er gleðilegt og sjálfsagt að þakka, að áhugi þeirra á málinu er enn þá vakandi, að hann hefur ekki alveg dofnað eða sofnað á öllum þeirra stjórnarárum, þegar þeir höfðu tækifærið. Óneitanlega hefði verið skemmtilegra, að þeir hefðu getað látið verkin tala, í stað þess að láta nægja þá ófullkomnu grg. sem fylgir þessari þáltill.