10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3295 í B-deild Alþingistíðinda. (2769)

144. mál, atvinnulýðræði

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég stend upp til þess eins að láta í ljós ánægju okkar flm. þessarar till. yfir því, að n. skuli hafa mælt með henni og að henni skuli vísað með jákvæðri umsögn til hæstv. ríkisstj.

Ég skal ekki fjölyrða um efni till. Hún var rædd ítarlega við fyrri hl. umr., og ég vil aðeins vekja athygli á því, að allir, sem til máls tóku um till., úr hvaða flokki sem þeir voru, tóku undir þá skoðun, sem fram kemur í grg. okkar þm. Alþfl. og kom fram í framsöguræðu minni, að hér væri um mjög athyglisvert og mikilvægt mál að ræða. Fyrst hv. frsm. er ekki viðstaddur, ég hygg, að hann hafi óskað fjarvistarleyfis, þá vildi ég aðeins að lokum láta þess getið, að við flm. till., þm. Alþfl., væntum þess mjög eindregið, að till. fái þá meðferð hjá hæstv. ríkisstj., sem n. var einhuga um, að hún skyldi fá, að n. verði skipuð og fyrir næsta Alþ. verði lagt frv., sem tryggi framkvæmd þeirrar hugmyndar, sem till. fjallar um, þ.e. að veita starfsmönnum allra fyrirtækja á Íslandi aukna hlutdeild í stjórn þeirra og athuga alveg sérstaklega þá hugmynd, sem nú er ofarlega á baugi, sérstaklega í Danmörku, að veita starfsmönnum fyrirtækja smám saman eignaraðild að fyrirtækjunum. Á þá hugmynd legg ég ekki minni áherzlu en að veita starfsmönnunum aðild að stjórn fyrirtækjanna.

Þessi fáu orð vildi ég leyfa mér að óska, að kæmu í stað framsögu hv. frsm.