10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3301 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Frsm. minni hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið, hefur fjvn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. leggur til að vísa þessari till. frá með rökst. dagskrá, en minni hl., sem ég mæli hér fyrir, leggur til, að till. verði samþ, óbreytt.

Við 1. umr. þessa máls var till. rædd nokkuð ítarlega á efnislegan hátt, og ég fer ekki að lengja umr. um þann þáttinn án sérstaks tilefnis, enda lýsti ég þá skoðun minni svo ítarlega sem ég kunni. En þar sem meiri hl. í fjvn. flytur nú dagskrártill. um að vísa málinu frá, finnst mér nauðsynlegt að athuga sérstaklega rökstuðning hv. meiri hl. fyrir þessari afstöðu.

Þá verður maður fyrst að athuga það, hvort óeðlilegt sé eða á einhvern hátt óvenjulegt, að mál, sem fellt er á einu þingi, sé tekið upp á því næsta til endurskoðunar og nýrrar afgreiðslu. Þetta atriði út af fyrir sig var töluvert rætt við 1. umr. málsins, og það er varla fleiri orðum eyðandi að þeirri hugsun út af fyrir sig, því að það er fátt algengara á Alþ. heldur en það, að mál séu flutt aftur og aftur, þó að þau séu felld á einu þingi. Það er vissulega ekkert í þingsköpum, sem mælir gegn þessu. Þó eru þar ákvæði, sem takmarka, hversu þétt mál megi taka upp á Alþ. að nýju, en þau eru einmitt á allt aðra lund heldur en banna að þau séu tekin upp á næsta þingi. Þetta er þess vegna út af fyrir sig einnig sá gangur mála, sem þingsköp gera ráð fyrir.

Einnig er haldið fram, að það sé óeðlilegt og henti alls ekki að brjóta upp á atriði sem þessu á því ári, sem vegáætlun er ekki í endurskoðun. Nú er það boðið í vegal. að endurskoða vegáætlunina á tveggja ára fresti. Það er hins vegar hvergi bannað í vegal. að huga að einstökum þáttum varðandi vegáætlun á öðrum tíma. Er líka skemmst að minnast þess, að einmitt á þessu þingi voru helztu tekjustofnar vegasjóðsins hækkaðir mjög verulega, þó að heildarendurskoðun vegáætlunar færi ekki fram nú. Okkur virðist því, sem stöndum að áliti minni hl., alveg útilokað að fallast á það sjónarmið, að veggjaldsmál megi ekki hreyfa núna og ekki fyrr en við afgreiðslu næstu vegáætlunar.

Hér við er svo þessu að bæta, að við afgreiðslu vegáætlunar á síðasta Alþ. felldi Alþ. till. ríkisstj. um að reikna með veggjaldi af hraðbrautum í tekjuhlið vegáætlunarinnar, eins og menn muna og rætt hefur verið um. Samgrh., sem samkv. 92. gr. vegal. hefur heimild til að innheimta veggjald, taldi sig bundinn af þingviljanum eins og hann birtist við afgreiðslu vegáætlunar síðast og hætti innheimtu veggjalds á Reykjanesbraut við síðustu áramót, þ.e.a.s. frá þeim tíma, sem Alþ. ákvað að hætta að reikna með veggjaldi sem tekjulið í vegáætlun. Þannig stendur þetta mál í dag. Alþ. hefur hafnað innheimtu veggjalds og ráðh. breytt í samræmi við það.

Í þeirri till. til þál., sem hér liggur fyrir, er lagt til að taka upp aðra stefnu. Með flutningi hennar er leitazt við að stuðla að því, að Alþ. endurmeti afstöðu sína í þessu máli, þá er það tók við afgreiðslu vegáætlunar á síðasta þingi. Nú felur þessi till. ekki í sér nein tímamörk, en verði hún hins vegar samþ., fær ráðh. aftur fríar hendur í þessu máli samkv. vegal., sem hann telur sig ekki hafa eftir afgreiðslu vegáætlunar frá síðasta þingi, og mér finnst það eðlileg afstaða af hálfu ráðh. Hvenær hann svo beitir heimildinni, er á hans valdi eðli málsins samkv. og samkv. lögum. Fari hins vegar svo, að till. verði felld eða henni verði vísað frá með dagskrá, þá þýðir það, að ráðh. mun vart telja sér fært að hefja innheimtu veggjalds fyrr en þá eftir afgreiðslu vegáætlunar 1974. Það er þá, sem hún verður næst til meðferðar, og ef að líkum lætur og að venju fer um afgreiðslu þess máls, þá verður hún varla afgreidd fyrr en á útmánuðum þess árs. Nú tekur það alllangan tíma að undirbúa töku veggjalda. Og til þess að innheimta veggjalds gæti hafizt með endurskoðunarárinu, þ.e.a.s. 1974, sem ég tel út af fyrir sig eðlilegast, ef á að miða við endurskoðunarárin, þá tel ég eðlilegast, að það byrji með áramótum. Ég sé hins vegar enga nauðsyn á því út af fyrir sig. En ef við eigum að binda okkur við það, þá er einmitt nauðsynlegt að afgreiða þetta mál efnislega núna, til þess að það geti orðið þannig, að innheimta verði miðuð við áramót.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að það væri í rauninni ekki tímabært að taka efnislega afstöðu til þess nú og á þessu þingi, hvort þessi tekjuöflunarleið yrði notuð. En ég vil þvert á móti segja, að mér finnst það í raun og veru alltaf tímabært fyrir Alþ. að tjá sig um það, ég get ekki annað séð. Hitt má svo deila um, hvenær eðlilegt sé að hefjast handa, ef Alþ. er á því að nota þessa tekjuöflunarleið, og þrátt fyrir efnisafgreiðslu till. hér, væri það á valdi hæstv. ráðh. samkv. lögum.

Af þessu leiðir, að ég vænti nú, að þeir hv. þm., sem eru sama sinnis og flm. þessarar till. og þeir, sem standa að þessu minni hl. áliti, og telja innheimtu veggjalds eðlilega tekjuöflunarleið fyrir févana vegasjóð, sameinist um að fella frávísunartill. meiri hl. fjvn. og taka efnislega afstöðu til till. hér og nú.

Minni hl. fjvn. leggur sem sagt til, að till. eins og hún er á þskj. 97, verði samþ. óbreytt.