10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3303 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

85. mál, veggjald af hraðbrautum

Geir Gunnarason:

Herra forseti. Ég vil með fáum orðum gera grein fyrir afstöðu minni til þeirrar þáltill., sem hér liggur fyrir, um að taka upp að nýju álagningu veggjalds á tilteknar hraðbrautir.

Við afgreiðslu vegáætlunar fyrir einu ári var eina ágreiningsatriðið í fjvn. varðandi tekjuöflun til vegasjóðs spurningin um, hvort gera skyldi ráð fyrir tekjum af veggjaldi af umferð um Reykjanesbraut og Suðurlandsveg á næsta vegáætlunartímabili. Við þær umr. gerði ég grein fyrir afstöðu minni til álagningar veggjalds á umferð um hraðbrautir með varanlegu slitlagi. Sú afstaða hefur í engu breytzt. Þrátt fyrir ýmsa framkvæmdaerfiðleika og vankanta, sem slíku veggjaldi fylgja, var það og er afstaða mín, að álagning slíks gjalds sé eðlileg og réttlætanleg. Ég tel það ekki ósanngjarnt, að þeir, sem sérstaklega njóta á undan öllum öðrum þæginda og fjárhagslegs hagnaðar af því að aka á vegum með varanlegu slitlagi, greiði nokkurn hluta af þeim fjárhagslega hagnaði í vegasjóð til þess að mæta hluta af vaxtakostnaði vegna þessara dýru framkvæmda. Ég var þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar, að þeir hafi í raun greitt hæsta veggjaldið sem við vegleysurnar búa. Ég tel hins vegar óhjákvæmilegt, að ákvörðun um, hvort leggja skuli á slíkt veggjald, fari fram við afgreiðslu og endurskoðun vegáætlunar, en óeðlilegt sé, að hringlað sé með slíkar ákvarðanir með þáltill. þess á milli.

Ég get ekki fallizt á það, sem stundum hefur verið haldið fram, að afgreiðsla Alþ. á þessu máli, þegar vegáætlun var til meðferðar fyrir ári síðan, hafi á einhvern hátt farið óeðlilega fram. Lögleg samþykkt var gerð um, að ekki skyldi gera ráð fyrir tekjum af veggjaldi í núgildandi vegáætlun, og ég tel, að bæði ég og aðrir, sem urðum undir í þeirri atkvgr., verðum að sæta þeirri niðurstöðu, þar til aftur verði fjallað um vegáætlun. Eðlilegast teldi ég, að vegal. yrði breytt á þann veg, að við ákvæðið um heimild ráðh. til að leggja á veggjald, yrði því bætt, að ákvörðun um beitingu slíkrar heimildar skuli taka við afgreiðslu vegáætlunar, þannig að það kæmi skýrt fram í lögunum, að með veggjaldið væri ekki hringlað frá ári til árs. Ef ný ákvörðun væri nú tekin um álagningu veggjalds, gætum við eins átt von á því, að andstæðingar veggjalds flyttu gagnstæða till. í haust og slíkar till. gengju svo á víxl eftir því t.d. hvaða varamenn ættu sæti á þingi hverju sinni.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um afstöðu mína. Hún er ljós. Ég tel álagningu veggjalds réttlætanlega og eðlilega þrátt fyrir framkvæmdaerfiðleika, en ég tel fráleitt, að ákvörðun um veggjald sé tekin með þáltill., sem geta verið til afgreiðslu á hverju einasta þingi. Við meðferð vegáætlunar kemur jafnan til kasta þingsins að segja til um, hvort gera skuli ráð fyrir tekjum af veggjaldi, og ég tel, að sú ákvörðun, sem þá er tekin, eigi að standa, þar til vegáætlun kemur aftur til endurskoðunar og afgreiðslu. Þess vegna er ég aðili að frávísunartill. á þskj. 569.