10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3304 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

184. mál, rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson) :

Herra forseti. Það er nokkuð um liðið, síðan frestað var umr. um þetta mál, till. til þál. á þskj. 338 um gagngera rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti I. Till. er á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á félmrh. að láta fara fram gagngera rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti I, þ.e. í fjölbýlishúsunum Ferjubakka 2–16, Grýtubakka 2–16 og 18–32 og Hjaltabakka 2–16 og 18–32. Leiði sú rannsókn í ljós augljósa smíða- eða frágangsgalla á umræddum eignum, verði viðhlítandi lagfæringar gerðar, eigendum að kostnaðarlausu. Jafnframt verði séð svo um, að íbúðaeigendum verði gefinn upp byggingarkostnaður ofangreindra húsa: `

Þó að þáltill. sé öll í þeim anda að ganga út frá því sem gefnu, að hér sé um miklar vanefndir að ræða af hálfu framkvæmdanefndar byggingaráætlunar gagnvart kaupendum að húsunum í Breiðholti I, þótti mér varlegra að afla upplýsinga frá hinni hliðinni og sneri mér því til framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, sem er forsvarsaðili fyrir þessum framkvæmdum og þykir rétt við umr. að koma á framfæri sjónarmiði þeirra, sem að samningsgerð stóðu gagnvart kaupendum húsanna og einnig voru aðilar að viðbótarsamningsgerð um að bæta úr ákveðnum göllum, sem fram höfðu komið á byggingunum, og hafði verið sagt til um gallana, áður en verktakarnir, sem ábyrgir voru fyrir verkinu, voru lausir úr allri ábyrgð. Ég hef fengið í hendur ítarlega grg. frá formanni og framkvæmdastjóra framkvæmdanefndar byggingaráætlunar um þessar framkvæmdir og tel alveg sjálfsagt, að þingheimur eigi þess kost að heyra, hvað þeir hafa að segja um þessi mál. Hins vegar legg ég engan dóm á það, hvort sjónarmið húskaupendanna í Breiðholti eða framkvæmdanefndar byggingaráætlunar eru sannleikanum samkvæm, þar getur ýmislegt farið á milli mála og kannske erfitt fyrir ókunnuga að dæma um það. En grg. framkvæmdanefndar byggingaráætlunar er — með leyfi hæstv. forseta — á þessa leið:

„Vegna fsp. yðar (þ.e.a.s. fsp., sem ég gerði til framkvæmdanefndarinnar) í sambandi við till. til þál. um gagngera rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti I, flm. Bjarni Guðnason og Stefán Valgeirsson, hefur framkvæmdanefnd byggingaráætlunar tekið saman eftirfarandi greinargerð:

Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar vill í upphafi lýsa yfir undrun sinni á því, að flm. till. skyldu ekki kynna sér viðhorf framkvæmdanefndar byggingaráætlunar til þessara mála, áður en till. var lögð fram, en aðeins taka upp málflutning annars aðila málsins. Íbúðir þær, sem hér um ræðir, voru byggðar á árunum 1967—1969, og eru nú hartnær 5 ár síðan fyrstu íbúarnir fluttu inn, en rúm 4 ár eru frá afhendingu síðustu íbúðanna. Hlutverk framkvæmdanefndar byggingaráætlunar er að byggja þær 1.250 íbúðir, sem ákveðið var að byggja samkv. júní samkomulaginu 1965, en Húsnæðismálastofnun ríkisins ráðstafar síðan íbúðunum. Í afsali fyrir íbúðunum segir m. a.:

„Kaupandi hefur kynnt sér ástand eignarhlutans og sætt sig við að öllu leyti.“

Til að uppfylla þetta ákvæði er kaupendum gefinn kostur á að yfirfara íbúðirnar, áður en þær eru afhentar, og gera kvartanir um frágang eða annað. Hugsanlegir gallar eru síðan lagfærðir og kaupendum sýnd íbúðin aftur, og er hún ekki afhent fyrr en kvittað hefur verið fyrir, að öllum aths. hafi verið sinnt. Samkv. þessu kerfi hefur öllum íbúðum framkvæmdanefndar byggingaráætlunar verið úthlutað nema 52 fyrstu íbúðunum.

Þrátt fyrir þessa meðferð mála fóru brátt að berast kvartanir um nokkur atriði, sem voru meira eða minna sameiginleg fyrir öll húsin. Í því skyni að koma þessum hlutum í lag voru haldnir nokkrir fundir með forráðamönnum framkvæmdanefndar byggingaráætlunar og formönnum húsfélaganna. Árangur þeirra viðræðna varð samkomulag það, sem birt er með þáltill., um, að framkvæmdanefnd byggingaráætlunar léti fara fram lokayfirferð á blokkunum, þar sem ábyrgðarári verktaka væri um það bil að ljúka. Í samkomulaginu er síðan kveðið nánar á um einstaka liði lagfæringanna, en þeir eru samtals 19.

Það hefur ætíð verið eindregin skoðun framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, að ofangreint samkomulag væri bindandi af hálfu beggja aðila og samkomulagið myndaði þann ramma, sem starfa bæri eftir. Þegar eftir, gerð samkomulagsins var hafizt handa um lagfæringar samkv. því og lokið við flesta liði samkomulasins fyrir haustið 1970.

Í des. 1970 barst framkvæmdanefnd byggingaráætlunar eftirfarandi bréf frá formönnum fjögurra húsfélaga:

„Reykjavík, 2. des. 1970.

Til framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, hr. formaður, Eyjólfur K. Sigurjónsson.

Með samningi, dags. 2. des. 1969, samþykktuð þér að framkvæma ýmsar viðgerðir á fjölbýlishúsum í I. áfanga. Þar sem eigendur íbúða í fjölbýlishúsum þessum hafa ekki orðið varir við, að viðgerðir þessar væru framkvæmdar nema að litlu leyti, og kastað höndum til þess, sem gert var, beinum vér þeirri fsp. til yðar, hvort þér hyggizt standa við ofangreindan samning. Verði samningsefndum ekki lokið fyrir árslok 1970, áskiljum vér oss rétt til að láta meta galla þá, sem á húsunum eru, og krefja yður eða ríkissjóð um bætur vegna þeirra.

Virðingarfyllst,

Hjaltabakka 2—16,

Ragnar Björnsson, formaður,

Grýtubakka 18—32,

Þorvaldur Þorvaldsson,

Hjaltabakka 18—32,

Friðþjófur Friðþjófsson,

Grýtubakka 2—16,

Örn Egilsson.“

Þessu bréfi svaraði framkvæmdanefnd byggingaráætlunar 30. des. 1970 með eftirfarandi bréfi, þar sem gerð er grein fyrir stöðu hvers liðar samkomulagsins og þess jafnframt beiðzt, að formenn húsfélaganna komi á framfæri aths., ef einhverjar væru, varðandi þau atriði, sem þegar hefðu verið framkvæmd. Engar slíkar aths. bárust. Þá kemur annað bréf :

„Reykjavík, 30. des. 1970.

Bréf yðar, dags. 2. des. s.l., var lagt fyrir fund í nefndinni 15. des. s.l. og gerð svofelld bókun:

Lagt var fram bréf frá íbúum Hjaltabakka 2—16 og 18—32 og Grýtubakka 2—16 og 18—32, þar sem kvartað er undan því, að ekki hafi verið staðið við yfirlýsingar framkvæmdanefndar byggingaráætlunar um viðgerðir á meintum göllum á íbúðunum. Samþykkt var að svara bréfinu og gera grein fyrir þeim atriðum samkomulagsins, sem ólokið er, svo og því, hvenær viðgerðum verði lokið. Jafnframt var ákveðið að gefa formönnum húsfélaganna kost á að koma á framfæri við framkvæmdanefnd byggingaráætlunar aths., ef einhverjar eru, varðandi þau atriði, sem þegar hafa verið framkvæmd.“

Í samræmi við þessa samþykkt verða nú rakin þau atriði, sem ofangreint samkomulag fjallar um og álit framkvæmdanefndar byggingaráætlunar á stöðu hvers liðar.

Eins og hv. þm. sjá af fskj. I, eru í liðunum 1—8 hafðar uppi alls konar aðfinnslur um galla á byggingunum, og það eru þessir ágallar, sem byggingarnefndin telur sig hafa leiðrétt og er gerð grein fyrir í því, sem hér fer á eftir.

Það er fyrst um útveggi og þak, liður 1.1.: „Lokið var á s.l. sumri að skipta um gler, er sprungin voru í stofugluggum. Kvörtun hefur þó borizt um, að ein af þessum rúðum hafi sprungið aftur, en viðgerð hefur ekki farið fram, þar sem erfitt er að glerja á þessum árstíma. Það gallaða gler, sem ekki hefur verið skipt um, er gler, sem framkvæmdanefnd byggingaráætlunar keypti af Sandsölunni s.f., og ber hún 5 ára ábyrgð á gæðum glersins. S.l. vetur var Sandsalan s.f. krafin um gler í stað þess, sem þá var gallað, en án árangurs. Lögfræðingur framkvæmdanefndar byggingaráætlunar taldi að svo komnu máli ekki unnt að skipta um þetta gler án undangengins mats, og skiluðu matsmenn áliti sínu í okt. s.l. Um þessar mundir er verið að ganga frá samningum við Sandsöluna s.f., um efndir samningsins, og verður þá væntanlega hægt að skipta um umræddar rúður í febrúar — marzmánuði n. k: `

Þá er það liður 1.2. „Lokið við viðgerð s.l. haust.“

1.3. liður. „Lokið s.l. vetur og sumar.“

Liður 1.4. „Lokið að öðru leyti en því, að eftir er að mála yfir viðgerðir, sem framkvæmt yrði með lið 1.6.“

1.5. Lokið s.l. sumar.

1.6. Um ábyrgð á göllum á málun utanhúss spunnust nokkrar deilur um orsök gallanna. Á fundi með aðilum í máli þessu s.l. haust náðist þó fullt samkomulag um álit á orsökum málningargallanna, þ.e. að málun hefði verið framkvæmd, áður en yzta sementshúðin, sem er ónýtust, hefði veðrazt af. Það var og álit fagmanna, að heppilegra væri að fresta viðgerð á þessu til næsta vors.

2.1. Lokið s.l. vetur og sumar.

2.2. Lokið s.l. vetur.

2.3. Lokið s.l, vetur. Þar sem eigendur óskuðu eftir somvyl veggfóðri, er því enn ekki lokið, þar sem verk þetta átti að vinna með lið 4.2.

2.4. Lokið, en á örfáum stöðum hafa komið fram kvartanir um endurtekið los á flísum og hefur þeim kvörtunum verið sinnt eftir föngum.

3.1. Lokið s.l. vetur.

3.2. Lokið s.l. vetur.

3.3. Lokið s.l. vetur.

4.1. Gerðar voru nokkrar tilraunir með lagfæringar á braki í parketi, og virtust nokkrar þeirra bera árangur.

4.2. S. l. sumar var pantaður gólfdúkur til viðgerða af sömu gerð og sá, sem fyrir var. Vegna verkfalla erlendis dróst nokkuð afgreiðsla á dúknum, en hann kom þó til landsins um miðjan okt. Þrátt fyrir margítrekuð loforð um að vinna þetta verk, hefur ekki orðið af efndum, en framkvæmdanefnd byggingaráætlunar mun gera sitt bezta til að fá verkið unnið hið fyrsta.

5. Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar hefur látið eftirlitsmann sinn og pípulagningarmeistara athuga þetta mál oftar en einu sinni, án þess að þeir gætu staðfest nokkurn leka.

6. Lokið s.l. haust.

7. Lokið s.l. sumar að öðru leyti en því, að ein stétt, sem þurfti lagfæringar við, mun hafa fallið út af skrá, auk þess sem frágangi við stéttir við Grýtubakka 18—20 er ekki að fullu lokið, enda þótt verktakinn, sem vann þetta verk, hafi oft heitið því, að svo skyldi verða.

8. Tvö húsfélög fengu mold til lagfæringar á lóð s.l. sumar.

Væntum við þess, að ofanritaðar upplýsingar skýri málin og takast megi að leysa þessi vandamál í friðsemd.

Virðingarfyllst,

Eyjólfur K. Sigurjónsson, form.

Ríkarður Steinbergsson, framkvstj.“

Í framhaldi af þessu eru svo bréf send Ragnari Björnssyni, Hjaltabakka 2–16, Þorvaldi Þorvaldssyni, Grýtubakka 18—32, Erni Egilssyni, Grýtubakka 2—16, Friðþjófi Friðþjófssyni, Hjaltabakka 18—32.

Í tilefni af fsp. frá Húsnæðismálastofnun ríkisins um mál þetta var henni send eftirfarandi grg., sem skoða má sem framhald af bréfi framkvæmdanefnar byggingaráætlunar, dags. 30. des. 1970 og hér kemur þessi grg.:

Grg. um lagfæringu galla samkv. samkomulagi við formann húsfélaga, dags. 2. des. 1969.

Með grg. þessari fylgir ljósrit af bréfi, dags. 2. des. 1970, frá formönnum fjögurra húsfélaga í Breiðholti I. Enn fremur fylgir ljósrit af svarbréfi framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, dags. 30. des. 1970, en þar kemur fram álit framkvæmdanefndar á stöðu hvers liðar samkomulagsins frá 2. des. 1969. Við þessu svarbréfi framkvæmdanefndar byggingaráætlunar hafa ekki borizt neinar aths. Hér á eftir verður gerð grein fyrir því, sem síðar hefur gerzt varðandi þetta samkomulag. Öðrum liðum telur framkvæmdanefnd byggingaráætlunar lokið, sbr. ofangreint svarbréf.“

Svo kemur nánari skýrsla þessara aðila, svo hljóðandi :

„Liður 1.1. S.l. haust var skipt um allt móðugler, sem matsmenn töldu gallað í okt. 1970. Við endurglerjun kom í ljós, að móða hafði myndazt á fleiri rúðum, og var þá þegar pantað gler til úrbóta. Við glerjunina var notuð geymsla, sem tilheyrir sameigninni að Grýtubakka 2—16, en þegar átti að hefja endurglerjun í marz s.l., var starfsmönnum meinaður aðgangur að geymslunni, nema framkvæmdanefnd byggingaráætlunar greiddi leigu fyrir húsnæðið, 3 þús. kr. á mánuði, sem framkvæmdanefnd byggingaráætlunar taldi allt of hátt leigugjald. Mér er tjáð, að þetta sé lítið kjallaraherbergi. Lögmanni framkvæmdanefndar byggingaráætlunar og lögmanni húseigenda var falið að semja um hæfilega borgun fyrir húsnæðið, en samningar hafa ekki tekizt enn þá milli þeirra og endurglerjun því legið niðri. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að húsfélag þetta stendur í skuld við framkvæmdanefnd byggingaráætlunar að upphæð 184.867 kr. vegna hita frá kyndistöð á árinu 1969. Einnig er rétt að taka fram, að ábyrgð á gleri nær eingöngu til glersins sjálfs, en framkvæmdanefnd byggingaráætlunar hefur þó kostað alla glerísetningu fram til þessa.

Liður 1.4 og 1.6. S.l. sumar var ætlun framkvæmdanefndar byggingaráætlunar að ljúka þessum liðum, en það tókst ekki, þar sem erfitt reyndist að fá málara til þess að vinna verkið.

Liður 2.3. Lögn. á somvyldúk er ólokið.

Liður 4.2. Í ársbyrjun 1971.

Liður 7. Viðgerð á stétt þeirri, sem féll. út af skrá um gallaðar stéttir, er ólokið, en öðru mun lokið.

Reykjavík, 31. maí 1972.

Ríkarður Steinbergsson.“

Eins og áður er getið, bárust framkvæmdanefnd byggingaráætlunar engar aths. við bréf þetta, og var því haldið áfram að vinna að samkomulaginu, þar til starfsmenn framkvæmdanefndar byggingaráætlunar voru hindraðir við störf sín vegna deilu um kostnað vegna aðstöðu og vegna þess að efni og áhöld voru læst inni. Segja má, að þær aths., sem forráðamenn húsfélaganna voru beðnir um í árslok 1970, komi nú fyrst fram í fskj. II með þáltill. Við samanburð á áliti framkvæmdanefndar byggingaráætlunar og hússtjórnarmanna kemur fram nokkur munur, en þó ekki eins mikill og í fljótu bragði gæti virzt. Það er margyfirlýst stefna framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, að af þeirra hálfu sé fullur vilji til að standa við ofangreint samkomulag, en að áliti framkvæmdanefndar byggingaráætlunar hefur þetta mál ekki haft eðlilegan framgang vegna annarlegrar afstöðu hússtjórnarmanna til samkomulagsins.

Þá er komið að þeim þætti mála, sem forstöðumenn húsfélaganna virðast hafa mestan áhuga á, en það eru kröfugerðir í sambandi við lóðir og brunavarnir. Í samkomulaginu frá 2. des. 1969 er tekið fram, að framkvæmdanefnd byggingaráætlunar muni aðstoða við lóðalögun vorið 1970 með því að leggja fram mold til verksins. Sumarið og haustið 1969 var mjög votviðrasamt, og höfðu grasblettir, sem ýmist voru lagðir þökum eða sáð í, skemmzt illa, og var ætlun húseigenda að gera við þessi svæði að vori. Vorið 1970 gerðu húseigendur kröfu til, að framkvæmdanefnd byggingaráætlunar tæki meiri þátt í lóðalögun en um getur í samkomulaginu frá 2. des. 1969. Varð þá að ráði, að báðir aðilar tilnefndu sinn manninn hvor til að láta í ljós skoðun sína á því, af hverju skemmdir af lóðunum stöfuðu, og var það álit þeirra beggja, að meginskemmdirnar stöfuðu af illri umgengni og átroðningi. Þessum málalokum undu öll húsfélögin nema eitt, sem fékk dómkvadda matsmenn til að meta galla á lóðinni, og var það mat framkvæmt í júní 1972. Mati þessu hefur framkvæmdanefnd byggingaráætlunar hins vegar mótmælt, sbr. meðfylgjandi bréfaskipti milli framkvæmdanefndar byggingaráætlunar og Húsnæðismálastofnunar ríkisins. Í svarbréfi framkvæmdanefndar byggingaráætlunar segir um þetta m. a.:

„Framkvæmdanefnd byggingaráætlunar hefur margt við framangreinda matsgerð að athuga og leyfir sér að mótmæla henni í einstökum atriðum og í heild. Sérstaklega er mótmælt þeirri túlkun á ákvæðum afsals varðandi lóðina, sem fram kemur í matsgerðinni. Að dómi framkvæmdanefndar byggingaráætlunar er ekki tímabært að taka afstöðu til þess, hvort ástæða sé að biðja um yfirmat, fyrr en eftirgreind atriði eru fram komin:

1. Að hvaða marki matsgerðin verður notuð sem grundvöllur bótakröfu húsfélagsins á hendur Húsnæðismálastofnun ríkisins eða ríkissjóði?

2. Matsmenn hafi staðfest matsgerðina fyrir dómi og veitt svör við þeim spurningum, sem ástæða er að beina til þeirra.“

Þarna er greinilega um áframhaldandi deiluatriði að ræða.

Fskj. III með þáltill. er dags 2. júlí 1972, frá Einari Eyfells umsjónarmanni eldvarna, um auknar kröfur eldvarnaeftirlits, frá því að húsin voru byggð. Að áliti framkvæmdanefndar byggingaráætlunar er hér um að ræða kvaðir, sem lagðar kunna að vera á húseigendur hverju sinni, en byggjendum húsanna óviðkomandi, enda koma þær fram, þegar búið hefur verið í húsunum í um það bil 3 ár. Engar sérstakar kvaðir um lokun stigahúsa, gerð eldvarnarveggja með tilheyrandi eldvarnarhurðum voru settar, þegar teikningar af húsunum voru samþykktar í byggingarnefnd. Þar er vani, að fulltrúar eldvarnaeftirlitsins yfirfari teikningarnar og geri aths., ef einhverjar eru, áður en byggingarleyfi er gefið út.

Í þáltill. er farið fram á, að íbúðareigendum verði gefinn upp byggingarkostnaður húsanna. Samkv. efnahagsyfirliti framkvæmdanefndar byggingaráætlunar frá 31. des. 1969 var byggingarkostnaður 1. áfanga 309.420.405,93 kr., að við bættum vöxtum af 5 fjölbýlishúsum að upphæð 7 millj. 870 þús. kr., gerði samtals 317 290 405,93 kr. Seldar voru 260 íbúðir að upphæð kr. 253 millj. 870 þús., og Reykjavíkurborg voru afreiknaðar 52 íbúðir á kr. 49 millj. 200 þús., eða samtals kr. 303 millj. 70 þús. Kostnaður umfram söluverð íbúðanna varð kr. 14.220.405,93, og var hann fluttur á síðari framkvæmdir með tilliti til þeirrar reynslu, sem síðari byggingaráfangar nytu frá þeim fyrsta. Kostnaður framkvæmdanefndar byggingaráætlunar við lagfæringar umfram það, sem verktakar hafa sjálfir lagt í, nam í árslok 1972 kr. 3.602.482,10, en ekki hefur verið ákveðið, á hvern hátt þeim kostnaði verður mætt.

„Að lokum vill framkvæmdanefnd byggingaráætlunar ítreka vilja sinn til að leysa þessi mál á eðlilegan hátt og í samræmi við gerða samninga og afsöl. Hins vegar telur framkvæmdanefnd byggingaráætlunar ekki ástæðu til að ganga lengra en samningar hljóða um og ef um ágreiningsatriði sé að ræða, þá séu þau leyst fyrir almennum dómstólum.

Reykjavík, 2. april 1973.

Eyjólfur K. Sigurjónsson, formaður.

Ríkarður Steinbergsson, framkvstj.“

Þetta er sú grg., sem ég hef fengið frá framkvæmdanefnd byggingaráætlunar og ber henni því miður fremur illa saman við staðhæfingar húseigenda, t.d. það, er segir í upphafi fskj. II, en þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Eins og byrjun þessa samnings ber með sér, þá er um miklu fleiri galla að ræða en þá, sem flokkaðir eru undir gr. 1—8. Þær gr. eru aðeins um galla, sem eru í öllum stigahúsum og öllum blokkunum, en ekki bundnir við einstakar íbúðir.

Hvað viðkemur því atriði að gefa formönnum húsfélaganna kost á því að fylgjast með lagfæringum og hafa samráð við þá um meðferð ágreiningsefna, hefur það aldrei verið gert.“

Ef þessi staðhæfing er sönn, þá er farið með rangt mál í grg. fulltrúa framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, og vil ég þó vona, að svo sé ekki. Ég held, að þær leiðréttingar og lagfæringar til efnda á viðbótarsamningnum, sem fulltrúar framkvæmdanefndar byggingaráætlunar gera grein fyrir, hafi ekki getað farið fram hjá eigendum húsanna. Það er algerlega óhugsandi, en það er ein af staðhæfingunum í þskj., að ekki hafi verið staðið við þessi loforð, sem í viðbótarsamkomulaginu fólust.

Ég vil engan dóm leggja á þessi alvarlegu deilu– og þrætumál, en svo mikið er víst, að þeir, sem keyptu þessi hús, eru alveg í sömu sporum staddir og hverjir aðrir húskaupendur. Þeir fá tækifæri til þess að skoða húsin, kynna sér þau, áður en þeir undirrita samning og fá afsal, og ef um dulda galla hefur verið að ræða, þá eiga þeir auðvitað rétt á bótum fyrir þá. En umfram það hafa þeir með opnum augum gert samninga eins og hver annar löglegur aðili og hvort sem þeir hafa gert góð eða vond kaup, þá er það þeirra mál, en ekki annarra.

Ég sé ekki betur en full viðleitni hafi verið til þess að bæta úr þeim göllum, sem eigendur húsanna gerðu grein fyrir innan árs, og nokkuð umfram það, ef rétt er frá greint í skýrslunni, og enn lýsa þeir því yfir, að þeir séu reiðubúnir til að standa við samkomulagið að fullu og öllu. Nokkrar tafir hafa orðið á framkvæmd, sem þeir gera grein fyrir, og er leitt til þess að vita, að ágreiningur skuli hafa verið svo magnaður, að tæki til viðgerðarinnar og efni til viðgerðarinnar skyldu hafa verið innilokuð í þessu húsnæði í Breiðholtinu, þannig að ekki var hægt um langan tíma að framkvæma viðgerðirnar þess vegna. Hér er vissulega um leiðindaatvik að ræða, sem gerir þetta mál allt saman heldur óskemmtilegt og óhreinna en æskilegt væri. Hins vegar er vitanlega ekki óskilið mál með öllum þessum íbúðareigendum og erfitt að taka það fyrir í einu lagi. Það gerir hver maður þarna samning fyrir sig um kaup á ákveðinni íbúð, og hann verður auðvitað að krefja gagnaðilann efnda samkv. þeim samningi, — hver um sig verður að gera þetta, — og ef mismunandi ágallar eru þarna, þá er varla hægt að benda á aðra leið heldur en þá, að hver um sig, ef ekki fást sanngjarnar og réttmætar úrbætur, leiti réttar síns fyrir dómstólum. Það verður hver íhúðarkaupandi að gera, ef mál rís út af slíkum gerningi.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Það má vel vera, að þarna hafi ýmiss konar gallar komið í ljós. Þeir voru upp taldir í fskj. nr. I og viðbótarsamkomulag gert um úrbætur, sem að miklu leyti er fullyrt, að sé búið að framkvæma og fullur vilji sé á að framkvæma til fulls og standa að öllu leyti við, bæði við kaupsamninginn samkv. orðalagi hans og afsali og viðbótarsamninginn um úrbætur. Ég vænti, að þessi orð standist, og ef svo er, þá er þetta miklu fremur einkamál þeirra, sem þarna eiga viðskipti saman, heldur en að þetta sé eðlilegt þingmál.