10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3313 í B-deild Alþingistíðinda. (2788)

184. mál, rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ræðustóllinn hér á Alþ. hefur sjaldan verið jafnhart leikinn og af síðasta ræðumanni. Hann hefur verið laminn hér utan og þó af litlu tilefni. En svona er það, dauðir hlutir verða stundum að gjalda þeirra manna, sem umgangast þá.

Ég skal ekki vera langorður um þetta mál, en þegar það er fullyrt, að ég hafi gerzt verjandi annars aðilans, þá er það alrangt. Það eru bein ósannindi. Og þau rek ég heim til föðurhúsanna. Ég hef hér í áheyrn alþm. í tilefni af því þskj., sem hér liggur fyrir, flutt skýrslu og gert þm. þannig kunnugt um ýmis atriði, sem óljós voru og enginn vissi um, sem lesið hafði þskj. eitt, en það var túlkun á málstað annars aðilans. Ég er hvorki verjandi né sækjandi í þessu máli, en ég tel mér skylt að reyna að upplýsa málið frá báðum hliðum. Ég hef því enga einhliða afstöðu tekið til þessa máls, og þegar skýrslan er talinn skýrsla félmrh., þá eru það önnur ósannindin í viðbót, því að það var skýrt fram tekið, að þetta væri skýrsla framkvæmdanefndar byggingaráætlunar, en ekki skýrsla mín um málið, enda hef ég enga beina þekkingu á þessu máli. Þessir atburðir gerast á árunum 1968—1969, og ég hafði engin afskipti af þeim málum á þeim tíma sem félmrh.

Ég vék að því, að þetta væri einkamál hvers íbúðarkaupanda, og ég fæ ekki séð annað en svo sé. Ég sé ekki, að hægt sé að taka heilan hóp manna, sem hafa gerzt aðilar að samningum um kaup á íbúðum, í eitt númer. Ef hv. 3. landsk. þm. kaupir hús og undirritar samning, fær fyrir þeirri íbúð afsal og hann verður síðan þess var, að gallar eru á eigninni, og hann telur sig eiga réttar að reka samkv. samningi og afsali, dettur honum þá í hug að leita til Alþ. til þess að rétta sinn hlut? Eða hver er annars munur á honum og hverjum einstökum íbúðareiganda í Breiðholti? Mér þætti það hreint og beint broslegt, ef hv. 3. landsk. þm., í stað þess að leita réttar síns fyrir dómstólum landsins, segði, að það væri ómögulegt að ná rétti sínum í þessu þjóðfélagi, og svo hlypi hann til Alþ. með það. Og þótt það væru 30 Bjarnar Guðnasynir, þá breytti það ekkert myndinni. Þeir ættu enga leið til Alþ. með það. Þeir hefðu gert samning, sem þeir eiga sjálfir að standa ábyrgir fyrir annars vegar og viðskiptaaðilinn hins vegar, og verði ágreiningur þar á milli, þá eru dómstólarnir til þess að skera úr um hann. Ef við búum ekki í réttarríki, þá er a.m.k. meira athugavert en í þessu tilfelli einu, og þá er ástæða fyrir hv. þm. að taka það í gegn, ef menn búa ekki við réttaröryggi í þessu landi.

Torsóttur vegur fyrir dómstólunum til þess að ná rétti sínum? Það er þá því aðeins, að málin liggi ekki ljóst fyrir. Það er ekki Alþ. að skera úr ágreiningi manna á milli í þjóðfélaginu út af persónulegum gerningum, sem menn gera í viðskiptum við aðra. Hér liggur málið þannig fyrir, að það eru aðilar, sem deila út af samningsgerð og fullnægingu samningsgerðar, og þessir aðilar eiga að leita til dómstólanna og láta þá framkvæma slíkt mat og ganga úr skugga um, hver hafi rétt fyrir sér. Framkvæmdavaldið og dómsvaldið að þessu leyti er ekki í höndum Alþ. Hér liggja fyrir margfaldar yfirlýsingar frá framkvæmdanefnd byggingaráætlunar um það, að hún hafi verið að leiðrétta og sé reiðubúin að lagfæra að fullu og standa við samning og viðbótarsamning, og meðan slík tilboð eru fyrir hendi skjalfest, á auðvitað að fara þá leið að láta þá standa við það. Ég get ekki fundið, að það sé ástæða til að leita til nokkurra annarra aðila, ekki einu sinni dómstóla, þegar slík tilboð liggja fyrir skjallega.

Það má vel vera, að það sé mikil freisting fyrir hv. 3. landsk. þm. að koma höggi á mig út af þessu máli, en ég er óviðkomandi málinu. (BGuðn: Alveg saklaus?) Alveg saklaus, já, í þessu máli. Og það verða hans vindhögg og klámhögg í senn.