10.04.1973
Sameinað þing: 69. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3315 í B-deild Alþingistíðinda. (2790)

184. mál, rannsókn á íbúðum og sameignum í Breiðholti

Félmrh. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Það var auðheyrt á hv. 3. landsk., að það kom við hann, þegar ég hafði vikið að því, hvort það mundi vera hlutverk Alþ. að skipta sér af því, ef hann keypti hús og á því kæmu svo í ljós gallar, hvort nokkrum dytti þá í hug, að hv: 3. landsk. ætti þá að snúa sér til Alþ. til að fá leiðréttingu sinna mála. Jú, hann segir, að sá sé munurinn á þessu, að ríkið hafi fjármagnað þessi hús. Þess vegna á Alþ, að skipta sér af svona málum. Mjótt er nú í samhengisþræðinum þarna, held ég.

Sannleikurinn er sá, að það liggur auðvitað í augum uppi, að kaupirðu hlut gallaðan, þá færðu þá galla, sem þú sérð á hlutnum, þegar þú gerir samning um hann, ekki bætta. Hafi hins vegar hluturinn verið með leynda galla, þá ber að bæta úr þeim af seljandanum. Kaupendurnir að íbúðunum í Breiðholti gera samning, þeir undirskrifa þetta, áður en þeir gera samninginn, að kaupandinn hafi kynnt sér ástand eignarhlutans og sætt sig við hann að öllu leyti. Til að uppfylla þetta ákvæði er kaupendum gefinn kostur á að yfirfara íbúðirnar, áður en þær eru afhentar, og gera kvartanir um frágang eða annað. Hugsanlegir gallar eru síðan lagfærðir og kaupendum sýnd íbúðin aftur. Hún er ekki afhent fyrr en kvittað hefur verið fyrir, að öllum aths. hafi verið sinnt. Samkv. þessu hafa allar íbúðir verið afhentar í Breiðholtinu. Þetta er í afsalinu fram tekið. Menn, sem eru búnir að undirskrifa þetta, verða auðvitað að eiga það við sjálfan sig, hvort þeir hafa keypt góðan hlut eða vondan. En hitt er alvarlegt mál, ef það er satt, sem hv. 3. landsk. heldur fram, að menn nái ekki rétti sínum í þessu þjóðfélagi. (BGuðn: Torsótt, torsótt.) Torsótt, torsótt, segir hann. En mundi það ekki vera skylda þín samt, þó að það sé torsótt, að fara lagalegar leiðir í þessu? Og ég held, að honum dytti ekki neitt annað í hug, hv. þm., heldur en að fara í mál sjálfur og reka það fyrir dómstólum Íslands, ef hann hefði orðið fyrir því að kaupa íbúð með göllum, sem honum hefðu verið leyndir. Það er engin önnur rétt leið til í þessu máli, hvort sem kaupandi húseignar er í Breiðholti eða hvar sem er á landinu. Hann verður að standa ábyrgur fyrir sínum samningum sjálfur og leita réttar síns fyrir dómstólum landsins.

Það er ein fásinnan enn, að félmrn. sé lagalegur aðili, þegar þetta fólk í Breiðholti hefur gert kaupsamning, fremur en þegar Pétur eða Páll kaupir eða selur hús. Það er ekkert fremur aðili að þessu heldur en öðrum fasteignasölum og —kaupum. Kaupsamningar eru milli tveggja aðila, seljanda og kaupanda.

Að fengnum upplýsingum um málið, upplýsingum fyrir hönd kaupendanna samkv. þskj. annars vegar og upplýsingum að því er snertir framkvæmdanefnd byggingaráætlunar samkv. hennar eigin skýrslu hins vegar, liggur málið nokkuð ljóst fyrir Alþ. og menn gera sér ljóst, að hér er eingöngu um það að ræða, hvernig menn eiga að fá úr því skorið, hvort samningarnir í Breiðholti verði uppfylltir eða ekki. Hér liggja fyrir í skýrslu framkvæmdanefndarinnar skýlausar yfirlýsingar um það, að til þess sé fullur vilji að framkvæma bæði samninginn og viðbótarsamninginn. Og þegar slík boð liggja fyrir, þá á auðvitað að taka þeim, og með engum hætti má það koma fyrir, að sá aðili, sem vill efna samninginn, sé hindraður í því að gera það.