11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3320 í B-deild Alþingistíðinda. (2809)

244. mál, alþjóðasamningur um varnir gegn mengun hafsins

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að gagnrýna þetta frv., sem hér liggur fyrir, það er vafalaust sjálfsagt mál. En mér finnst ekki vera hægt annað en að átelja mjög þau vinnubrögð hæstv. ríkisstj. að demba inn í þingið þeim ósköpum af málum, að það er ekki lengur nokkur leið, að þm. geti lesið þau. Hér er um frv. að ræða, sem hefði getað komið fyrir þingið miklu fyrr. Hér er enn fremur till. til þál. sem nú er verið að útbýta, um að gerast aðilar að samningi um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara. Ég veit að vísu ekki, hvað sá samningur er nýr af nálinni, að mér þykir ólíklegt, að ekki hafi verið auðið að koma því máli fram fyrr. Þetta tel ég ástæðu til að harma, því að hér er mikið af öðrum málum, sem talið er óumflýjanlegt að fái afgreiðslu á þinginu. Því eru auðvitað viss takmörk sett, ef þingi á að ljúka fyrir páska, sem mér skilst að sé stefnt að, hvað ríkisstj. getur lengi haldið áfram með þessum hætti. Ég fann það á hæstv. utanrrh., að hann skildi þetta og harmaði í rauninni, að þetta skyldi vera með þessum hætti. En ég held, að hæstv. ríkisstj. verði að hætta þessu í eitt skipti fyrir öll og gera sér grein fyrir því, að ef hún ætlar að ljúka þingi, má þetta ekki ganga með þessum hætti. Jafnvel þó að um ágreiningslaus mál sé að ræða, er ákaflega óviðkunnanlegt, að þm. skuli ekki einu sinni hafa tíma til þess að gera sér grein fyrir því, hvað í þeim felst.