11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3321 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

235. mál, tollheimta og tolleftirlit

Frsm. (Halldór Kristjánsson):

Herra forseti. Það varð fullt samkomulag um það í fjh.— og viðskn. að mæla með samþykkt þessa frv. Það er skammt liðið síðan það var lagt fram og fyrir því talað hér í d. og ekki ástæða til að endurtaka rækilega það, sem þá kom fram. Eins og frv. ber með sér, eru í því þær breytingar einar, að skip eru gerð ábyrg fyrir því, að hægt sé að gera grein fyrir þeim tollvörum, sem sanna má, að hafi farið um borð í þau erlendis, þó það komi ekki fram, þegar hingað er komið, eins og dæmi eru sögð vera til.

Í öðru lagi eru tölur varðandi útkljáð mál án dómstóla í sambandi við sektir og upptöku vara hækkað nokkuð í samræmi við þá verðlagsþróun, sem í landinu er og allir þekkja.