11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3326 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Frsm. meiri hl. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Fjh.— og viðskn. hefur fjallað um frv. til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunar fyrir árið 1973. Eins og hv. þm. er kunnugt, var frv. þetta lagt fyrir Alþ. þegar í haust, og hafði á s.l. ári verið undirbúið af Framkvæmdastofnun ríkisins, og mun óhætt að fullyrða, að framkvæmdaáætlunin hafi verið óvenjulega snemma tilbúin að þessu sinni, enda var það einnig ætlunin, eins og raunar kemur fram í álitsgerð 1. minni hl. fjh.— og viðskn., nál. hv. þm. Jóns Árm. Héðinssonar, að þetta mál yrði látið fylgja skjótt á eftir fjárlögunum. Að því var stefnt og við það miðað. Hins vegar var talið rétt að fresta afgreiðslu þess fram yfir áramót. Þetta fór á annan veg, eins og mönnum er kunnugt, og ég býst við, að flestum sé ljóst, hver ástæðan var til þess, að svo fór. Ástæðan var að sjálfsögðu sú, að rétt um það bil sem þing kom saman eftir áramót, urðu þeir atburðir við suðurströnd landsins, sem óhjákvæmilega hlutu að hafa talsvert víðtæk áhrif á fjármál ríkisins með ýmsum hætti. Það kom upp óvissuástand. Það varð að skoða það mikla fjáröflunarvandamál, sem fylgdi í kjölfar gossins, sérstaklega, og reyna að átta sig á því, hvort ástæða væri til þess að breyta verulega þeim áætlunum, sem áður höfðu verið gerðar. Ég held ég geti leyft mér að fullyrða, að það sé fyrst og fremst af þeirri ástæðu, sem hefur dregizt, að frv. þetta hlyti afgreiðslu hér á Alþ. Menn hafa út af fyrir sig ekki talið liggja lífið á að koma því í gegn og hafa þá talið eðlilegra að sjá, hver framvindan yrði almennt, og tækifæri gæfist til að skoða málið frá öllum hliðum, áður en málið yrði afgr. héðan frá Alþingi.

Niðurstaðan hefur nú orðið sú, eins og mönnum er kunnugt, að ekki væri ástæða til að breyta þeim áætlunum, sem gerðar hefðu verið, að neinu verulegu leyti. En þar fyrir var að sjálfsögðu fyllsta ástæða til þess að skoða það mál vandlega, enda þótt niðurstaðan yrði sú, að ekki væru bornar fram neinar verulegar brtt. við frv. Eins og ég segi, er frv. í öllum aðalatriðum óbreytt. Það hafa verið gerðar á því nokkarar lagfæringar og minni háttar breytingar í Nd., allar til hækkunar, sem ég sé ekki ástæðu til að rekja hér, en heildarmyndin er ekki í neinum verulegum atriðum breytt. Fjh.— og viðskn. hefur fjallað um frv. og meiri hl. hennar leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt.