11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3340 í B-deild Alþingistíðinda. (2838)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Forsrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Af því að ég af tilviljun heyrði tiltekin ummæli hv. þingmanns Magnúsar Jónssonar, langar mig að koma á framfæri örlítilli leiðréttingu. Ummælin mátti skilja á þá lund, að ég hefði gefið yfirlýsingu um það á Alþ., að af framkvæmdaáætlun yrðu teknar 8 millj. kr. til Ólafsfjarðarhafnar. Það, sem hann mun hafa átt við, var svar mitt við fsp. frá hv. þm. Lárusi Jónssyni um framkvæmdaáætlun fyrir Norðurland, sú fsp. var borin fram all snemma á þingi. Ég svaraði þessari fsp. með því að lesa upp bréf frá Framkvæmdastofnun ríkisins, sem var undirritað af einum starfsmanni Framkvæmdastofnunarinnar. Það er rétt, að í því svari var skýrt frá því, að unnið væri að áætlun í sambandi við Norðurland eystra, þ.á.m. varðandi hafnirnar, og að gert hefði verið ráð fyrir 8 millj. kr. til Ólafsfjarðarhafnar. En það kom líka skýrt fram í þessu svari frá Framkvæmdastofnuninni, að þetta væri allt á undirbúningsstigi og ekki um neinar endanlegar ákvarðanir að ræða. Við þetta bréf frá Framkvæmdastofnuninni bætti ég ekki einu orði frá eigin brjósti. Þetta svar er þegar prentað í þingtíðindum og liggur fyrir, og ég held, að þar geti ekkert farið á milli mála. Ég veit, að hv. þm. vill hafa það, sem sannara reynist í þessu, og þetta er hið rétta í málinu. Það er því ekki hægt að túlka það svo, að ég hafi gefið neina yfirlýsingu um, að 8 millj. kr. yrðu veittar til Ólafsfjarðarhafnar. Hitt er annað mál, að ég skil vel áform Ólafsfirðinga.

Þetta vildi ég aðeins taka fram, til þess að það komist ekki inn neinn misskilningur í sambandi við þetta mál.