11.04.1973
Efri deild: 89. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3340 í B-deild Alþingistíðinda. (2839)

122. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar 1973

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að neinu ráði, en vildi nota tækifærið, þar sem hæstv. fjmrh. er hér staddur, og varpa fram einni spurningu um atriði, sem mér virðist ekki koma nógu ljóst fram í þessu frv. Í upphaflega frv. eru ætlaðar til Rafmagnsveitna ríkisins til framkvæmda á þeirra vegum 236 millj. kr. Í aths. við þá gr. er þessu skipt þannig, að það eru 79.1 millj. kr. til Mjólkárvirkjunar. Ég vakti strax athygli á því, þegar frv. kom fram, að hér mundi vera um 15 millj. kr. lægri upphæð að ræða en áætlanir um næsta áfanga Mjólkárvirkjunar eru. Mér skilst, að þetta hafi verið tekið til greina og í 7. gr. frv., eins og það er nú, sé innifalin hækkun á þessum lið í 100 millj. Það hefur verið samþ. í Nd. og er ætlað vegna kostnaðarauka við framkvæmdir á vegum Rafmagnsveitna ríkisins samkv. þessari áætlun. Spurning mín er eingöngu þessi, hvort það sé ekki rétt skilið hjá mér, að sá viðbótarkostnaður, sem þarna er áætlaður, felist í þessum 100 millj. kr.