02.11.1972
Sameinað þing: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 517 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

33. mál, efling Landhelgisgæslunnar

Utanrrh. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil nú þakka hv. 1. þm. Sunnl. fyrir góðar óskir í minn garð og þeirra, sem væntanlega verða sendir til þess að semja við Breta í næstu lotu um undanþágur þeim til handa innan fiskveiðilögsögunnar. Það mun áreiðanlega ekki af þeim veita.

En í sambandi við það, sem hann sagði um samninga við Vestur-Þjóðverja, vil ég enn á ný upplýsa, að það hefur aldrei staðið á okkur að semja við Vestur-Þjóðverja, en við höfum ekki orðið varir við meiri samningsvilja hjá þeim en Bretum. Ég held, að það sé rétt, að menn geri sér ljósa grein fyrir því. Það var 16. okt. s.l., sem sendiherra Vestur-Þjóðverja kom til mín með tilboð um, að við hæfum á ný samningaviðræður til þess að leita að lausn á þessu máli. Það tilboð var af þeirra hálfu bundið margvíslegum skilyrðum, sem við töldum satt að segja ekki aðgengileg, en óskuðum þó eftir nánari skilgreiningu á því, hvað við væri átt. Þær skýringar hafa enn eigi borizt, og við bíðum þeirra, þannig að ég tel, að Þjóðverjar eigi áfram næsta leik til að koma á samningaviðræðum milli Íslendinga og Vestur-Þjóðverja. Það er að vísu rétt, að við tókum ekki til greina eða vildum ganga að þríhliða viðræðum af ástæðum, sem gerð hefur verið grein fyrir og ég fer ekki nánar út í, en það eina, sem stendur í vegi fyrir tvihlíða viðræðum, er, að Þjóðverjar geri okkur nánari grein fyrir því, hvað þeir hafa í huga.