11.04.1973
Efri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3353 í B-deild Alþingistíðinda. (2877)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Í fjarveru hæstv. heilbrmrh., sem ekki getur sótt þingfund nú vegna sjúkleika, mun ég segja hér nokkur orð við 1. umr. um þetta frv.

Frv. það, sem hér liggur fyrir um heilbrigðisþjónustu, var undirbúið í tíð fyrrv. ríkisstj. af þáv. heilbr.— og trmrh., Eggert G. Þorsteinssyni, en hann skipaði sérstaka n., sem vann að því að semja þetta frv. Eftir að það hafði verið gert, var frv. kynnt víða um land og að sjálfsögðu þm., en síðar var það aftur tekið til frekari endurskoðunar í tíð núv. heilbrmrh., sem skipaði aðra n. til þess að yfirfara frv. að nýju og skoða alveg sérstaklega ýmsar ábendingar, sem fram höfðu komið við athugun málsins. Þetta frv. hefur því í rauninni legið alllengi fyrir hv. alþm., og auk þess hafa fjallað um þetta mál á undanförnum árum flestir þeir, sem þetta mál varðar alveg sérstaklega. Þannig hygg ég, að öll landshlutasamtök sveitarstjórnarmanna hafi fjallað um þetta mál á fundum sínum, og víða hefur málið verið til meðferðar í sveitarstjórnum eða hinum ýmsu læknishéruðum landsins. Að sjálfsögðu hafa svo samtök lækna og annarra slíkra einnig fjallað um málið.

Nú hefur þetta mál fengið afgreiðslu í hv. Nd. Alþ. eftir alrækilega athugun þar, og hafa verið gerðar á frv. talsvert miklar breytingar.

Ég veit, að meginefni þessa frv. er hv. þdm. allvel kunnugt, og sé því ekki ástæðu til að fara að rekja hér efnisatriði frv. Það er mjög liðið á þingtíma, eins og öllum hv. þm. er kunnugt, og ég vil því treysta á, að sú n., sem fær málið hér til athugunar, kanni málið sem allra bezt, eftir því sem tími leyfir, og að tök verði á því að afgreiða þetta mál nú á þessu þingi og gera frv. að lögum.

Hér er tvímælalaust um mjög mikilvæg atriði að ræða varðandi heilbrigðisþjónustuna í landinu. Ákvæði frv. varðandi byggingu heilsugæzlustöðva eru til mikilla bóta frá því, sem verið hefur, að ég hygg að allra dómi, og ýmis skipulagsatriði, sem varða heilhrigðisþjónustuna og þar með læknishéraðaskipunina í landinu, eru tvímælalaust að mínum dómi til verulegra bóta. En hitt kemur auðvitað engum á óvart, að nokkur ágreiningur kunni að vera uppi um breytingu á gömlu skipulagi, einkum varðandi læknishéraðaskipulagið í landinu. Slíkt hefur komið fram á Alþ. æði oft áður og er æði erfitt að semja reglur um það, þannig að öllum líki fullkomlega.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð mín fleiri, en vænti þess, að sú n., sem hér tekur málið nú til athugunar, sjái sér fært að skila áliti sínu fljótlega, svo að málið megi ná fram að ganga. En ég tel, að það hafi þegar fengið svo rækilega athugun og kynningu, bæði hjá þjóðinni og alþm., að það ætti að vera hægt, þó að mjög sé nú liðið á starfstíma þingsins.

Herra forseti. Ég legg til; að málinu verði að þessari umr. lokinni, vísað til hv. heilbr.— og trn. til fyrirgreiðslu.