11.04.1973
Efri deild: 90. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3354 í B-deild Alþingistíðinda. (2878)

169. mál, heilbrigðisþjónusta

Axel Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja fundartíma, ég er í þeirri n., sem fær þetta mál til meðferðar. — Hæstv. ráðh. gat þess, að þetta mál hefði verið kynnt og rætt í landshlutasamtökunum alveg sérstaklega, og það er rétt. Ég vil lýsa því hér yfir, fyrst og fremst vegna þess, að það er tekið fram í bráðabirgðaákvæðum, að II. kaflinn í frv. taki ekki gildi fyrr en Alþ. ákveður, að þar af leiðandi munu sveitarstjórnarsamtökin á Reykjanesi geta samþ. það, en þau munu leggjast eindregið gegn því, að sú skipan sem þar er gert ráð fyrir, verði lögfest. Ég vil aðeins láta þess getið, en ég fagna frv. Þar er margt til bóta, en eflaust margt, sem getur orkað tvímælis, eins og oft er. Sérstaklega tel ég, að það sé ekki nægilega skilgreind staða yfirlæknis, yfirhjúkrunarkvenna og forstöðumanna fyrir heilsugæzlustöðvum. Þetta mun verða athugað af minni hálfu í n., og skal ég ekki tefja umr. um málið frekar á þessu stigi.