11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3355 í B-deild Alþingistíðinda. (2880)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég skal alls ekki efna til meiri háttar umr. utan dagskrár á einum af síðustu annadögum þingsins. En í blöðum í morgun var fregn, sem gefur mér tilefni til að óska eftir upplýsingum frá hæstv. menntmrh., sem ég veit að mun geta svarað þessu í örstuttu máli.

Fregnin, sem ég á við, er sú. að allir fjölmiðlar skýrðu frá því í morgun, að menntamálaráð hefði á blaðamannafundi í gær greint frá því, að gert hefði verið ráð fyrir því, að í fyrra yrði notuð 1 millj. kr. til þess að styrkja listflutning úti um land, en ekki hafi tekizt að nota nema u.þ.b. 1/3 hluta þessa fjár í þessu skyni, 2/3 hlutar fjárins hafi ekki verið notaðir til listkynningar úti um land, heldur farið í eitthvað annað, eins og það er orðað í blöðum.

Í þessu sambandi vil ég aðeins minna á, að ein síðasta lagabreytingin, sem ég hafði afskipti af sem menntmrh. á sínum tíma, var breyt. á l. um félagsheimilasjóð, þar sem stofnaður var menningarsjóður félagsheimila og honum ætlað um 10% af tekjum félagsheimilasjóðs. Það var gert ráð fyrir því, að hann hæfi störf á árinu 1972 eða í fyrra, og má þá gera ráð fyrir því, að tekjur hans hafi numið u.þ.b. 2 millj. kr. Þegar menntamálaráð gerði fjárhagsáætlun sína fyrir árið 1972, hef ég ástæðu til að halda, að ráðinu hafi ekki verið kunnugt um tilvist þessa menningarsjóðs félagsheimila og þess vegna ákveðið að lofa 1 millj. kr. í fyrra til listflutnings úti um land, sem að sjálfögðu var góðra gjalda vert. Við þetta hefði þó væntanlega mátt bæta 2 millj. kr. úr menningarsjóði félagsheimila, þannig að 3 millj. kr. hefðu átt að vera til ráðstöfunar í fyrra, til þess að kynna íslenzka list úti um landsbyggðina.

Í svari hæstv. fjmrh. við fsp. um menningarsjóð félagsheimila nú fyrir nokkrum mánuðum kom fram, að hann mun ekki hafa notað nema rúma 1/2 millj. af sínu starfsfé til listkynningar úti um landið, þannig að af þriggja millj. kr. heildarfjárveitingu, hafa aðeins verið notaðar um 800 þús. kr. til listflutnings. Er það mjög miður, að fé, sem varið er í jafn nauðsynlegu skyni og hér er um að ræða, skuli ekki vera fullnotað. Jafnframt kemur það fram í blaðafregnum í morgun, að menntmrh. hefur ráðið sérstakan mann, ágætan tónlistarmann, Gunnar Reyni Sveinsson, til þess að annast framkvæmdir á vegum menntamálaráðs í framtíðinni, því að nú ætlar það að nota 700 þús. kr. á næsta ári í þessu sama skyni. En þetta hlýtur að vera gert án þess að það sé fullljóst, að menningarsjóður félagsheimila hefur í sinni þjónustu annan valinkunnan og ágætan listamann, Kristin Hallsson söngvara, sem er á hálfum launum frá menntmrn. einmitt til þess að skipuleggja listkynningu úti um land. Hér virðist því vera um tvíverknað að ræða, að menningarsjóður ráði sérstakan mann til viðbótar hálfum starfsmanni hjá menntmrn., sem ætti að vera fullfær um að sjá um þessa starfsemi. Ég vildi því mjög beina því til hæstv. menntmrh., sem ég veit að hefur áhuga á þessum málum, að gerð sé tilraun til þess að skipuleggja þessa starfsemi betur en átt hefur sér stað á s.l. ári, þannig að hún komist undir einn aðila. Þá verð ég að segja, að lang eðlilegast er, að hún sé undir heildarstjórn menntmrn. og sú stofnun, sem búið er að koma á fót til þess að annast slíka starfsemi, menningarsjóður félagsheimila, hafi þessa starfsemi með höndum og annist þau þjónustuhlutverk, sem honum er ætlað með sérstakri löggjöf.

Ég vildi vekja athygli hæstv. menntmrh. á þessu og láta í ljós þá von, að hann beiti sér fyrir betri hagnýtingu fjárins en átt hefur sér stað á s.l. ári og ekki síður betri heildarstjórn á þessari mjög mikilvægu og nauðsynlegu starfsemi.