02.11.1972
Sameinað þing: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

8. mál, kosningar til Alþingis

Vilhjálmur Hjálmarsson. Herra forseti. Flm. þessa máls er hv. 4. landsk. þm., Svava Jakobsdóttir. En þar sem sá hv. þm. dvelur nú erlendis í opinberum erindagerðum, hefur komið í minn hlut að mæla nokkur orð fyrir þessari till. Flm. auk okkar eru hv. 5. landsk. þm., hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 6. þm. Norðurl. e. Till. okkar er um endurskoðun tiltekinna atriða í lögum um kosningar til Alþingis og er þannig orðuð:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að leggja fyrir næsta þing till. til breytinga á kosningalögum með það fyrir augum að auðvelda utankjörfundaratkvgr.“

Í grg. okkar er vikið að tvíþættum tilgangi með tillöguflutningi þessum, annars vegar að auðvelda þeim að neyta kosningarréttar, sem dvelja erlendis, þegar kosningar fara fram, og þar er auðvitað alveg sérstaklega um námsfólk að ræða, þó að einnig fleiri eigi þar hlut að máli, og svo einnig að auðvelda þeim þátttöku í kosningum, sem vistaðir eru á innlendum sjúkrahúsum, þegar kosning fer fram. Bæði þessi atriði hafa töluvert verið íhuguð, einkum þó hið fyrrnefnda. Beinar till. til úrbóta hafa ekki verið lagðar fram opinberlega.

Öðru hverju hafa komið fram óskir frá Íslendingum, sem dvelja erlendis lengri eða skemmri tíma, einkum frá námsfólki, um, að greitt verði fyrir því, að þeir fái notið réttar síns við almennar kosningar. Um eitt skeið var starfandi n. til að íhuga þetta mál. og sátu í henni þrír menn tilnefndir af dómsmrn., Hagstofu Íslands og Sambandi ísl. sveitarfélaga.

Þessi n. skilaði á sínum tíma áliti og till. til dómsmrn., sem síðan bar málið undir utanrrn.

Í till. þessarar n. og svo í áframhaldandi skoðun málsins í rn, komu fram ýmsar hugmyndir um úrbætur í þessum efnum að því er varðar kjósendur erlendis. M.a. var stungið upp á því, að sendiráðsstarfsmenn færu sem kjörstjórar til annarra staða, þar sem engin sendiráð eru, ef tiltekinn fjöldi kjósenda óskaði þess fyrir tilskilinn tíma.

Önnur till. kom líka fram við þessa meðferð málsins um að veita kjörræðismönnum rýmri heimildir en nú eru í kosningal. til þess að framkvæma kosningar utan kjörfundar.

Þá hefur einnig komið fram hugmynd um eins konar bréflega kosningu, sem formuð yrði eitthvað á þá leið, sem ég skal nú lýsa. Menn hugsa sér þá í fyrsta lagi, að kjósandi erlendis óskaði eftir því við kjörstjórn með bréfi eða símskeyti, að hún sendi honum kjörseðil. Kjörstjórn athugaði þá, hvort viðkomandi aðill væri á kjörskrá, og ef svo reyndist, sendi hún honum kjörseðil í ábyrgðarpósti ásamt leiðbeiningum. Síðan útfyllti kjósandi kjörseðilinn, lokaði honum og færi með hann til íslenzks ræðismanns, þ.e. hvaða ræðismanns Íslands sem væri, og sannaði með vegabréfi sínu eða á annan hátt, hver hann sé. Og við slíkan kjörseðil væri síðan fest blað, þar sem prentaður væri á að mestu leyti sami texti og nú er á utankjörfundarseðlum, þ.e. kjósandinn lýsir því yfir, að hann hafi kosið á tilteknum stað: „Þar sem ég vegna fjarveru get ekki sótt kjörfund á kjörstað mínum, legg ég þar við drengskap minn og mannorð, að ég þvingunarlaust og aðstoðarlaust og í einrúmi hef kosið og engan annan kjörseðil frá mér sent“ o.s.frv. Fyrir neðan þetta kæmi svo á íslenzku og ensku, — en allir ræðismenn Íslands munu nú tala og skrifa ensku, — eitthvað á þá leið, að N. N. hefði undirskrifað þetta skjal, sem lokaður kjörseðill væri við festur, það vottaðist hér með, og þá embættisheiti, dagsetning og undirskrift ræðismanns.

Helztu breytingar miðað við núverandi fyrirkomulag yrðu þær, að ekki væri krafizt vitundarvotta, enda sýndist þess ekki full þörf. Og það yrði ekki beinlínis um kjörstjóra að ræða, er færði gjörðabók, heldur mundi ræðismaður aðeins staðfesta, að um rétta undirskrift væri að ræða. Að fengnu vottorði yrði atkv. sett í þar til gert umslag, er hefði sama númer og kjörseðill, og kjósandi yrði svo sjálfur að sjá um að koma því til kjörstjórnar í pósti eða á annan hátt. Þetta þýddi auðvitað, að það giltu sérstakar reglur á erlendri grund og það þyrfti að útbúa ný form fyrir þær.

Af þessu, sem ég hef nú rakið hér stuttlega, má það vera alveg ljóst, að þessi mál hafa fengið töluverða athugun og hafa verið skoðuð nú þegar frá ýmsum hliðum. Flm. till. telja tímabært að gera nú gangskör að því að undirbúa lagabreytingar, sem auðvelda mættu Íslendingum, er dveldust erlendis á kjördag, að neyta kosningarréttar síns. En eins og nú er, hefur þetta verið mjög miklum erfiðleikum bundið og í mörgum tilfellum, — jafnvel þó að um töluvert fjölmenni hafi verið að ræða á hinum einstöku stöðum, — alveg ómögulegt. Ég skal ekki tefja tímann með að lýsa því, það þekkja allir hv. alþm.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að síðara atriðinu, þ.e.a.s. aðstöðu þeirra, er sjúkrahús gista á kjördegi, til þess að neyta sama réttar. Það er staðreynd, að allstór hópur þessa fólks getur ekki kosið, eins og nú er háttað framkvæmd almennra kosninga hér á landi, enda þótt fólkið væri fyllilega fært um að kjósa á sjúkrahúsinu sjálfu. Nú er mér ekki kunnugt um, að þetta atriði hafi nýlega verið gaumgæft á sama hátt eða eins vandlega og aðstaða þeirra, er ytra dvelja, en um þetta hefur auðvitað oft verið rætt. En flm. þessarar till. telja rétt að skoða einnig þessa hlið málsins vandlega og leita leiða til úrbóta, því að engum blöðum er um það að fletta, að stjórnarskrá og kosningalög ætlast til þess, að allir þegnar þjóðfélagsins, sem hafa til þess áhuga og heilbrigði, fái að tjá hug sinn og taka afstöðu við almennar kosningar. Í sambandi við þetta atriði, kosningar á sjúkrahúsum innanlands vil ég leyfa mér að mínna á 6. gr. l. um kosningar til Alþingis, og með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa þessa gr. Þar segir svo:

„Hverju kjördæmi skal skipt í kjördeildir, og er hver hreppur eða kaupstaður ein kjördeild, nema honum hafi verið skipt í fleiri kjördeildir. Heimilt er bæjarstjórn og hreppsnefnd með samþykki yfirkjörstjórnar að skipta kaupstað eða hreppi í kjördeildir. Hreppum má þó ekki skipta í fleiri kjördeildir en fjórar. Í hreppum, þar sem kjördeildir eru færri en 4, eiga 15 kjósendur, sem búsettir eru innan sama hreppshluta, rétt á, að hann verði gerður að sérstakri kjördeild, ef þeir krefjast þess, áður en kjörskrá hefur verið lögð fram, enda sé þessi hluti hrepps afskekktur og erfitt um kjörsóku þaðan að áliti yfirkjörstjórnar. Kjördeildir skal að jafnaði kenna við kjörstaði í sveitum, en tölusetja þær til aðgreiningar í kaupstöðum.“

Ákvæði þessarar gr. lúta alveg augljóslega að því, að auðvelda mönnum að neyta kosningaréttar, sem kunna t.d. vegna staðhátta að eiga erfitt með að kjósa. Hreppsnefnd hefur samkv. þessari gr. heimild til þess að fjölga kjördeildum í hreppi allt að 4, og 15 kjósendur í hreppi hafa einnig rétt á að krefjast sérstakrar kjördeildar undir tilteknum kringumstæðum. Nú hefur framkvæmd þessa ákvæðís verið þannig m.a., að það hafa oft og einatt starfað kjördeildir, þó að í þeim séu miklu færri kjósendur en 15. Mér er kunnugt um, að það hefur starfað kjördeild, á mjög afskekktum stað að vísu, með aðeins tveimur kjósendum, þannig að kjörstjórn hefur verið send úr öðrum hluta hreppsins til þess að stýra kosningu í þessari kjördeild. Hér er því um nokkuð mikla sveigju að ræða í löggjöfinni og alveg sérstaklega í framkvæmd hennar, — sveigju, sem miðar að því að tryggja það, að sem allra flestir kjósendur fái notið kosningarréttar.

Í þessu sambandi vil ég svo einnig mínna á ákvæði laganna um atkvgr. utan kjörfundar, en þau ákvæði er að finna í 13. gr. Og ég vil einnig — með leyfi hæstv. forseta — minna á þá grein með því að lesa hana, en þar segir svo:

„Kjörstjórar við atkvgr. utan kjörfundar samkv. lögum þessum eru sýslumenn og bæjarfógetar (í Reykjavík borgarfógeti), fulltrúar þeirra, sendiherrar og sendifulltrúar, sendiráðsritarar og útsendir aðalræðismenn, útsendir ræðismenn og vararæðísmenn Íslands erlendis, svo og kjörræðismenn, ef þeir eru íslenzkir ríkisborgarar eða af íslenzku þjóðerni og mæla á íslenzka tungu, hreppstjórar og skipstjórar á íslenzkum skipum í millilandasiglingum og á fjarlægum miðum. Nú eru sýslumaður og hreppstjóri búsettir á sama stað, og skal þá sýslumaður vera kjörstjóri. Ef kjörstjórar eru í framboði, skulu þeir víkja sæti og varamenn gegna störfum þeirra. Fulltrúar sýslumanna og bæjarfógeta (í Reykjavík borgarfógeta), skulu vera varamenn þeirra, en sýslumenn skipa varamenn hreppstjóra, og 1. stýrimaður skal vera varamaður skipstjóra. Ekki má utankjörfundarkosning fara fram á heimili frambjóðanda.“

Þannig hljóðar 13. gr. kosningalaganna. Hér er einnig um mjög mikla sveigju að ræða í þessari gr. Hreppstjórar, sýslumenn og bæjarfógetar eru yfir 200, er mér óhætt að segja, og þá jafnmargir varamenn þeirra, auk ótalins fjölda skipstjórnarmanna. Öllum þessum hópi er gefið vald til þess að framkvæma utankjörfundarkosningu. Ef höfð eru í huga ákvæði 6. gr. kosningalaganna um kjördeildir og framkvæmd þeirra ákvæða, sem ég vék að áðan, annars vegar og ákvæði 13. gr. um utankjörfundarkosningu hins vegar, þá virðist mér alveg einsætt, að hægt hljóti að vera með einhverjum hætti að færa kosningarréttinn í ríkara mæli til þeirra, sem liggja á spítulum á kjördegi, heldur en nú er gert, alveg sérstaklega með hliðsjón af þessum lagaákvæðum og hliðsjón af framkvæmd þeirra. Ég ætla ekki að bollaleggja neitt um það, með hverjum hætti slíkt megi verða, en tel, eins og ég sagði áðan, að tilfærðar greinar kosningalaganna gefi um það sínar bendingar.

Eins og segir í grg. með till., er það tilgangur flm. að knýja nú á um nánari skoðun þeirra atriða, sem till. fjallar um, með það fyrir augum, að lagabreyting gæti náð fram að ganga fyrir næstu almennar kosningar. Okkur flm. er vitanlega ljóst, að breyting kosningalaga hlýtur að vera viðkvæmt mál og vandasamt, og það verður því að ætla til þess nægan tíma að undirbúa slíkar breytingar.

Herra forseti. Ég hygg, að þetta mál eigi heima í allshn., og vil leyfa mér að leggja til, að till. verði að lokinni umr. vísað til hv. allshn.