02.11.1972
Sameinað þing: 11. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

8. mál, kosningar til Alþingis

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hef kvatt mér hljóðs til að segja nokkur orð, um það mál, sem hér er til umr., m.a. til þess að skýra nokkuð nánar frá því, sem í því gerðist á þeim tíma, sem ég gegndi störfum dómsmrh. Í grg. með þáltill. er það að nokkru rakið, og enn fremur hefur hv. frsm. nú nánar skýrt efni till.

Eins og frá er greint í þessari grg., var í júní 1970 skipuð n. með fulltrúum frá dómsmrn., Hagstofunni og Sambandi ísl. sveitarfélaga til þess að athuga þau atriði í gildandi Íögum um kosningar til Alþingis, sem til álita gæti komið að breyta. Þessi n, skilaði grg. í jan. 1971. Hún skilaði aldrei neinu frv., en hún setur þar fram nokkur atriði og óskaði eftir að kynna sér viðhorf manna til þessara atriða, áður en lengra yrði haldið í nefndarstörfunum. Eftir að þessi grg. lá fyrir í jan. 1971, fór ég þess á leit við þingflokkana, að þeir tilnefndu fulltrúa af sinni hálfu til þess að ræða þær ábendingar og hugmyndir, sem komu fram í grg. n. Það var að sjálfsögðu orðið við þeim tilmælum, og þessir fulltrúar, sem þingflokkarnir tilnefndu, mættu svo á fundum með kosningalaganefndinni og þar voru rædd þau atriði, sem n. hafði vakið máls á og eins og áður sagði, hafði óskað eftir að kynna sér viðhorf manna til, áður en hún héldi lengra. Þeir þm., sem mættu þarna á fundum með n., eiga allir sæti á Alþ. nú utan einn, Jón Þorsteinsson.

Þau atriði, sem n. vakti máls á í grg. sinni og bréfi, vörðuðu fleira en utankjörfundaratkvgr. Þar var m.a. rætt um ákvæði 33. gr. stjórnarskrárinnar um kosningarréttarskilyrði, þ. á m. lögheimili og óflekkað mannorð, og þar var rætt um gerð kjörskrár, hvernig nú tíðkaðist, að menn væru teknir inn á kjörskrá eða felldir út af kjörskrá á tímabilinu frá 1. des., þegar kjörskrár eru gerðar, og fram að kjördegi. Í því sambandi var þá rætt, hvort ætti alveg tvímælalaust að miða við það, að kosningarréttarskilyrðin hefðu verið fyrir hendi 1. des., og þá án tillits til þess, hvort þau síðar og fram að kjördegi kynnu að vera brott fallin eða til komin. Það var rætt um fleiri atriði, sem ég skal ekki drepa hér á, og svo loks utankjörstaðaatkvgr., sem ég skal seinna víkja að.

En það var líka á fundum í n. og á fundum n. og fulltrúa þingflokkanna rætt vandamál, sem upp var komið og snerti íslenzka námsmenn og aðra Íslendinga, sem voru við störf á hinum Norðurlöndunum. Það má segja, að það hafi snert frumatriði alls þessa máls, sem sé það, að menn væru yfirleitt á kjörskrá. 1. okt. 1969 kom til framkvæmda samningur milli Norðurlandanna um manntalsskráningu. Samkv. 3. gr. þess samnings skulu gilda reglur þess lands, sem flutt er til. Nú hefur það sýnt sig, að framkvæmdin hefur á hinum Norðurlöndunum verið töluvert önnur en hér hefur tíðkazt, og þessi framkvæmd í hinum Norðurlöndunum hafði orðið til þess, að fjöldi af íslenzkum námsmönnum og Íslendingum sem voru við störf í þessum löndum, hafði fallið út af þjóðskrá og þar með að sjálfsögðu einnig af kjörskrá. Ég skal skjóta því hér inn þó að það snerti ekki beint þetta mál, að þetta hefur valdið ruglingi og óþægindum í sambandi við sköttun þessara aðila hér, þeirra sem hér hafa haft tekjur eða eiga hér skattskyldar eignir.

Það varð um það samkomulag á þessum fundum, að þetta fólk, sem út var fallið þarna, yrði tekið inn á kjörskrá eftir vissum reglum, sem taldar voru eðlilegar og í samræmi við það, sem hér hafði tíðkazt. Má segja, að þetta vandamál hafi verið leyst með samkomulagi allra þeirra, sem þarna fjölluðu um það. Ég þykist vita, að fulltrúar þingflokkanna hafi gert grein fyrir því hver í sínum flokki og enginn ágreiningur verið um að haga framkvæmdinni þannig, enda mátti segja, að hér væri um fullkomið sanngirnismál að ræða.

Í sambandi við þetta vandamál má geta þess, að núna í sept. var haldinn fundur í Osló með fulltrúum frá manntalsskráningaryfirvöldum allra landanna, þar sem rædd voru ýmis vandamál, sem höfðu komið upp í sambandi við þetta. Ég hef hugboð um, að þetta hafi komið einna verst við okkur, vegna þess að það kunni að vera meira samræmi í framkvæmdinni á hinum Norðurlöndunum. Það kom fram á þeim fundi fullur vilji til að mynda reglur og hliðra til þannig, að þetta þyrfti ekki að verða til teljandi óþæginda eða vandræða fyrir einstök lönd.

Þá er með utankjörstaðaatkvgr. erlendis. Hún var einnig rædd á þessum fundum, og hv. frsm. hefur getið þeirra ábendinga, sem fram hefðu komið frá kosningalaganefndinni um hugsanlegar aðferðir til að leysa vanda þeirra, sem er gert illmögulegt að neyta kosningarréttar síns erlendis. Þessar hugmyndir höfðu verið, eins og hann gat um, til umsagnar hjá utanrrn., og utanrrn. taldi öll tormerki á því, að unnt væri að framkvæma kosninguna á þennan veg. Ég skal ekki þreyta hv, þm. á því að fara að lesa alllangt bréf, sem utanrrn. skrifaði um þetta, en eins og kom líka fram hjá hv. frsm., þá bendir utanrrn. þarna á eina leið, sem sé að Íslendingum erlendis, sem eftir því óska, séu send kjörgögn, sem geri þeim mögulegt að neyta kosningarréttar sins, og þá verði framkvæmdin með þeim hætti, sem hv. frsm. rakti í ræðu sinni. Þetta er ugglaust atriði, sem vert er að gefa fyllsta gaum og athuga nánar.

Þegar þessar umr. fóru fram, var liðið töluvert á þingtímann og kosningar fram undan. Ég mætti ekki á þessum fundum, en mér var tjáð, að þar hefðu menn orðið sammála um framkvæmd þess, hvernig fólk yrði tekið inn á kjörskrá, eins og ég áðan gat um. Að öðru leyti voru ekki uppi neinar ákveðnar óskir, að mér var tjáð, um það að frv. yrði flutt að svo komnu máli á þinginu, enda orðinn til þess nokkuð naumur tími. Hitt þykist ég vita, að allir hv. þm. séu á einu máli um, að það beri að gera allt, sem skynsamlegt getur talizt til þess að auðvelda mönnum að neyta kosningarréttar, og einnig að auka hagkvæmni við framkvæmd kosningalaganna.

Um þá þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég segja það, að ég er henni í fyllsta máta samþykk, svo langt sem hún nær, og mér þykir mjög ánægjulegt, að þarna skuli einnig vera tekin inn í vandamál þeirra, sem vegna sjúkleika eða dvalar í sjúkrahúsum eða öðrum slíkum stofnunum geta ekki neytt kosningarréttar síns. En ég vil beina því til þeirrar hv. þn., sem fær málið til meðferðar, hvort ekki væri athugandi að breyta till. eða orðalagi hennar, svo að hún yrði rýmri og gæti þá rúmað í sér fleiri atriði en einungis utankjörfundaratkvgr. Líka sýnist mér, að þegar till. er komin fram svona snemma á þingi og ef hún fær greiðan framgang og greiða afgreiðslu, sem ég tel allar líkur til, að hún fái, þá ætti jafnvel að vera hægt að leggja fram frv. síðar á þessu þingi, a.m.k. eigi ekki að slá því föstu, að það verði ekki lagt fram fyrr en á næsta þingi. Það er auðvitað aldrei hægt að segja fyrir um það, hvenær kosningar geta orðið, og þó að ég sé fyllilega sammála hv. frsm. um, að breyting á kosningalögum getur í ýmsum atriðum verið býsna vandmeðfarið og viðkvæmt mál, þá var, eins og hann líka sagði, búið a.m.k. að vinna mikið að athugun á þessu máli, endurskoðun kosningalaganna. Hvort frekari athugun hefur farið fram síðan, það er mér ekki kunnugt um. En ég sé það af þeirri skrá, sem við höfum fengið yfir nefndir og ráð, að kosningalaganefndin er enn til. Hins vegar er mér sagt, að hún hafi aldrei verið kvödd saman til fundar síðan eftir áramótin 1970–1971, og má þó vel vera, að það hafi verið unnið að málinu, án þess að það hafi verið beinlínis haldinn fundur í n. En ég ítreka það, að ég er samþykk till. Ég mundi hins vegar óska þess, að hún yrði orðuð þannig, að hún væri rýmri, og tel, að það komi mjög til athugunar, hvort ekki sé hægt að koma frv. fyrir það þing, sem nú situr, svo og að orðalag hennar verði ekki eins og nú er, að úr því sé dregið eða fyrir það sé girt.