11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3363 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

134. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál., skrifuðum við 3 fulltrúar Sjálfstfl. og Alþfl. í hv. félmn. undir nál. með fyrirvara. Vegna þessa vil ég segja örfá orð.

Það kemur fram í nál., að við töldum ástæðulaust að afgr. þetta frv. á þessu þingi, þar sem það á ekki að taka gildi fyrr en í byrjun næsta árs, enda þurfi ýmis ákvæði frv. nánari athugunar við.

Það er rétt, sem kom fram hjá hv. frsm. meiri hl. að frv. þetta hefur verið alllangan tíma til meðferðar í n. Hins vegar dró ekki til úrslita um afgreiðslu málsins fyrr en nú allra síðustu daga, aðallega vegna þess, að umsagnir bárust heldur dræmt. Ég tek það fram, að við teljum allar brtt., sem n. stendur sameiginlega að, til mikilla bóta. Engu að síður hefðum við talið æskilegra að fresta afgreiðslu þessa máls þar til á næsta þingi. Þótt við teljum brtt. til bóta .og stöndum að þeim, er það nú einu sinni svo, að þær eru samdar í nokkrum flýti og þess vegna ástæða til að skoða þær nokkuð betur.

Það, sem ég tel að athuga þurfi betur í frv., eins og það er nú, er einkum C–liður 5. gr., sem fjallar um það, að, að jafnaði skuli skila íbúðum fullgerðum, en þó skal húsnæðismálastjórn veita undanþágu frá því skilyrði, ef tryggilega er kveðið á um, hvernig lokafrágangi skuli hagað. Þarna er um að ræða undantekningarákvæði frá reglunni um það, að þeir, sem fá framkvæmdalán, verði að skila íbúðum fullgerðum til kaupenda. Það er rétt að geta þess og vekja sérstaka athygli á því, að með l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins er framkvæmdalánunum markaður ákveðinn bás í veðlánakerfi ríkisins. Þetta lánaform hefur reynzt mjög örvandi til þess, að íbúðir séu afhentar kaupendum fullfrágengnar á hagkvæmu verði. Það verður að teljast varhugavert, ef veitt er undantekning til eins eða annars aðila frá því að fullgera íbúðir þær, sem framkvæmdalán er veitt til. Í umsögn húsnæðismálastjórnar kemur fram viss ótti, ef inn á þá braut er farið að veita þessar undanþágur.

Þá vil ég einnig benda á 2. mgr. 7. gr. frv., þar sem takmörkuð er að nokkru skaðabótaskylda byggingarsamvinnufélaganna. Ég skal ekki ræða það efnislega, en þarna er vikið nokkuð frá gildandi reglum. Ég er ekki með þessu að segja, að ekki sé ástæða til að endurskoða þær reglur, en mér sýnist, að þarna væri ástæða til að doka við og skoða betur, hvaða afleiðingar það kann að hafa, ef reglunni er breytt á þann hátt, sem um getur í 2. mgr. 7. gr. Ég er ekki viss um, nema þetta geti haft í för með sér ýmsa erfiðleika fyrir eigendur íbúðanna. Ef gallar koma í ljós síðar, sem ekki verða beinlínis raktir til vanrækslu stjórnar eða framkvæmdastjóra félagsins, kunni þeir að lenda í nokkrum erfiðleikum við að ná rétti sínum.

Með hliðsjón af þessu, sem ég hef hér drepið á, tel ég skynsamlegra að láta þetta mál bíða, ekki sízt með tilliti til þess, að l. eiga ekki að öðlast gildi fyrr en um næstu áramót. Ég geri þetta þó ekki að neinu kappsmáli, enda má segja á sama hátt, að það gefst þá tækifæri til þess að skoða þetta mál allt betur, þó það verði að l., þar sem gildistakan er ekki fyrr en um áramótin, eins og ég áðan sagði.