11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3364 í B-deild Alþingistíðinda. (2911)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Í þessu frv., sem er á þskj. 480, felast þrjár breytingar: Í fyrsta lagi að hækka lánsfjárhæð húsnæðismálastjórnarlána úr 600 þús. upp í 800 þús. kr. Í öðru lagi, að árlega sé breytt lánsfjárhæð þessari til samræmis við breytingar á vísitölu byggingarkostnaðar, en samkv. gildandi l. á að gera þetta á tveggja, ára fresti.

Í þriðja lagi er heimild til að veita lán til byggingar leiguíbúða á vegum sveitarfélaga, er nemi allt að 80% af byggingarkostnaði, enda hafi hlutaðeigandi sveitarfélag ekki byggt íbúðir samkvæmt 1. gr. l. nr. 97 frá 22. des. 1965.

Á undanförnum árum hefur verið mjög mikil óánægja úti á landsbyggðinni yfir því, að þær byggingar, sem hafa gengið undir nafninu Breiðholtsbyggingar, hafa verið byggðar og Húsnæðismálastofnunin veitt þar 80% af byggingarkostnaði að láni, en landsbyggðin hefur ekki talið sig geta byggt samkv. þeim l. Nú er verið að verða við þeim óskum að gera þetta auðveldara fyrir sveitarfélögin. Landshlutasamtökin hafa mjög komið þar við sögu og ýmsir aðrir aðilar að knýja þetta fram, og ég tel, að þetta sé mjög mikilvægt mál fyrir landsbyggðina.

Því miður gat félmn. ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. leggur til, að frv. sé samþ. óbreytt, en það hafa komið fram tvö minni hl. álit. Annað er frá hv. 5. þm. Reykv., Gylfa Þ. Gíslasyni, og hann er að vísu meðmæltur því, að frv. nái fram að ganga, en bendir hins vegar á, að það vanti alveg inn í frv., hvernig eigi að fjármagna þessar framkvæmdir. Hins vegar leggur 1. minni hl., hv. þm. Ólafur G. Einarsson og Gunnar Thoroddsen, fram brtt., sem er um það, að ekki einungis sveitarfélög, heldur önnur félög, fyrirtæki eða einstaklingar geti fengið að byggja þessar íbúðir.

Á fund n. komu ráðuneytisstjórinn í félmrn., forstöðumaður veðdeildar Landsbankans og formaður húsnæðismálastjórnar. Í sambandi við þetta mál lagði ég þá spurningu fyrir ráðuneytisstjórann í félmrn., hvort hann teldi, ef sveitarfélag vildi ekki nota eða gæti ekki notað þennan rétt, að hægt væri að koma því fyrir samkv. þessum l., að atvinnurekandi á staðnum, sem hefði meðmæli sveitarstjórnar, gæti notað þennan rétt. Hann lét mig þá hafa í hendur reglugerð um lánveitingar húsnæðismálastjórnar, sem er gefin út 1970. 21. gr. er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Leigusala er heimilt að gefa út handhafaskuldabréf, tryggð með 2. veðrétti í leiguíbúðum, fyrir allt að fjórðungi kostnaðarverðs íbúðanna. Bréf þessi skulu vera til allt að 10 ára með venjulegum útlánsvöxtum, eins og þeir eru ákveðnir af Seðlabanka Íslands á hverjum tíma. Sá, sem kaupir skuldabréf þessi, skal að jafnaði sitja fyrir öðrum um leigu á íbúð“

25. gr. reglugerðarinnar er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú vill eigandi leiguíbúðar selja íbúð, og skal þá söluverð þeirrar íbúðar eigi vera hærra en nemi kostnaðarverði hennar, að viðbættri verðhækkun, sem samkv. vísitölu byggingarkostnaðar hefur orðið á kostnaðarverði íbúðarinnar. Við sölu skal leigjandi eiga forkaupsrétt, svo og þeir, sem ættu rétt til lána úr byggingarsjóði verkamanna eða keypt hafa handhafaskuldabréf samkv. 21. gr., en að þessum aðilum frágengnum hlutaðeigandi sveitarfélag. Sala íbúðar er háð samþykki húsnæðismálastjórnar. Í slíkum tilfellum skal segja leigjanda upp með 12 mán. fyrirvara, nema um annað semjist milli aðila.“

Ég fyrir mitt leyti er á móti þessari brtt. af þeim ástæðum, að ég tel, að það sé sjálfsagt, að sveitarfélögin hafi fyrst og fremst þennan rétt og noti hann. Að þeim frágengnum, felur frv. og reglugerðin í sér, að það er ekkert, sem hindrar, að atvinnufyrirtæki eða jafnvel einstaklingar geti byggt samkv. þessum lögum.