11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3374 í B-deild Alþingistíðinda. (2916)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Erindi mitt hingað upp í ræðustólinn er nánast það eitt að minna á, að málefni Húsnæðismálastofnunar ríkisins og byggingarsjóðs hefur borið á góma fyrr hjá okkur í þessari hv. d. Ég minnist þess ágæta afreks, sem hér var unnið í lok þingsins á síðasta vetri, þegar hæstv. félmrh. beitti sér sérstaklega fyrir því að lengja þingið til þess að koma að sínum pólitísku þuklurum í Húsnæðismálastofnun ríkisins, og er það kapítuli út af fyrir sig. En fyrr í vetur hafa málefni byggingarsjóðsins einnig borizt í tal, og var það í umr. um lánveitingar Húsnæðismálastofnunar ríkisins vegna fsp., sem beint var til hæstv. félmrh. Þar var spurt um ýmislegt viðkomandi byggingarsjóðnum og um væntanlegar áætlanir og lánveitingar af hans hálfu á þessu ári, og m.a. var spurt, hver væru úrræði nú um frambúðarlausn fyrir byggingarsjóð ríkisins. Svar hæstv. ráðh. var þá á þessa leið, með leyfi forseta:

„Samkv. bráðabirgðaáætlun, sem hagfræðideild Seðlabanka Íslands hefur gert um byggingarsjóð ríkisins á árinu 1973, er gert ráð fyrir, að á því ári verði til ráðstöfunar í útlán 1.195 millj. kr., og komi í ljós, að þörf sé aukinnar fjáröflunar til íbúðalána á árinu 1973, mun ríkisstj. að sjálfsögðu hlutast til um viðeigandi aðgerðir í því efni, þegar þar að kemur, og gæti þá þurft að leita ákvörðunar Alþ. Þetta er svar mitt í eins stuttu máli og unnt er,“ sagði hæstv. ráðh.

Í þessum sömu umræðum tók hæstv. ráðh. aftur til máls og sagði þá og endurtók efnislega það, sem hér hefur verið upplesið, en m.a. komst hann svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„En ég segi, að ef það reynist svo árið 1973, að byggingarsjóðurinn verði í fjárþröng, þá verður ríkisstj. að reyna að bæta úr og e.t.v. að leita til Alþ. um að styrkja tekjustofna byggingarsjóðsins, en á því hefur ekki orðið nein breyting frá hendi Alþ. fram til þessa. En tekjustofnar byggingarsjóðsins virðast nú nokkurn veginn hrökkva og þó liðlega fyrir eftirspurnunum. Og allar umsóknirnar, sem eru núna með fullum lánarétti, hafa verið afgreiddar og lýkur til þess, að þær, sem á að afgreiða fyrir áramót, verði afgreiddar eins og til stendur.“

Nú er hér á dagskrá frv. til l. um breyt. á lögum um Húsnæðismálastofnun ríkisins, þar sem gert er ráð fyrir í fyrsta lagi hækkun á lánveitingum og hins vegar ákveðinni fyrirgreiðslu til handa hlutaðeigandi sveitarfélögum. En þegar leitað hefur verið umsagna hjá Húsnæðismálastofnun ríkisins, hefur komið ljóslega fram í umsögnum, að það skortir upphæð á bilinu frá 500 millj. til 700 millj. kr. til þess að fullnægja þeirri eftirspurn, sem gert er ráð fyrir að verði á þessu ári. Ég held, að það blandist engum hugur um það og að það hafi komið mjög glöggt fram í þessum umr., að þetta fé skortir. Það þarf að útvega það, til þess að Húsnæðismálastofnunin geti sinnt þeim verkefnum, sem hún hefur fengið til meðferðar, svo að ekki sé talað um þá viðbót, sem hér er um að ræða. Nú leyfi ég mér að ítreka þær fsp., sem reyndar hafa komið hér fram, til hæstv. félmrh.: Hvernig á að brúa þetta bil? Hvaða ráðagerðir eru á prjónunum um að auka tekjur byggingarsjóðs? Og þá vitna ég til þeirra ummæla, .sem ég hef hér lesið upp og sem hann hefur viðhaft hér á hv. þingi fyrr í vetur, þ.e.a.s. þeirra ummæla, að ríkisstj. muni að sjálfsögðu hlutast til um viðeigandi aðgerðir, þegar þar að kemur, ef fé skorti. Þetta voru mjög tvímælalaus ummæli hjá hæstv. ráðh. Hann gaf það fyllilega í skyn hér í vetur, að ríkisstj. mundi grípa til sinna ráða. Og nú þegar að þingslitum er komið og ekki hefur enn bólað á neinum ráðstöfunum til að mæta þessari þörf, þá spyr ég enn og tel það vera siðferðilega skyldu hæstv. ráðh. að veita einhver svör við þeirri sjálfsögðu spurningu: Hvernig á að mæta þessum þörfum byggingarsjóðs?

Ég tel það vera fullkomið ábyrgðarleysi af hv. d. og reyndar hæstv. ríkisstj. að bera hér fram frv. og fá það samþ., — frv., sem felur í sér auknar lánveitingar af hendi Húsnæðismálastofnunar ríkisins, án þess að á móti sé sagt til um það, hvernig eigi að afla tekna til þessara lánveitinga.