11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3375 í B-deild Alþingistíðinda. (2917)

223. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. 2. minni hl. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það liggur við, að mér þyki hálfleiðinlegt að þurfa að koma hér í ræðustól til að leiðrétta ummæli hv. 7. landsk. þm., Karvels Pálmasonar, því að við eigum sæti saman í tveimur n. og kemur ágætlega saman. Þar þarf ég eiginlega aldrei að leiðrétta hann og hann ekki heldur mig. Þess vegna þykir mér það heldur miður að þurfa að gera það hér.

Að vísu er hér ekki um alvarlegt atriði að ræða: Hann taldi, að í mínum orðum hefðu falizt einhverjar úrtölur varðandi það, að sams konar framkvæmdir og Breiðholtsframkvæmdirnar eru, skyldu framkvæmdar úti á landi. Ég vona, að ekki eitt einasta orð, sem ég mælti, hafi mátt skilja réttum skilningi á þann hátt, að í því hafi falizt úrtölur varðandi það, að landssvæði utan Reykjavíkur nytu sama réttar og Reykjavík og Kópavogur nutu með byggingu Breiðholtsíbúðanna. Ég lýsti yfir fylgi mínu og flokks míns við það, að til sams konar framkvæmda yrði efnt annars staðar og gert var á Reykjavíkursvæðinu á sínum tíma. Jafnframt vil ég minna á það, að eins og samþykktirnar voru ákveðnar í kjarasamningum milli vinnuveitenda og verkalýðssamtaka á sínum tíma og staðfestar af ríkisstj., þá hét fyrrv. ríkisstj. þessum hluta kjarasamninganna fyllsta stuðningi sínum. Ég man ekki betur en að einn aðalfulltrúi verkalýðshreyfingarinnar í þeim samningum hafi verið sjálfur núv. félmrh., Hannibal Valdimarsson. Ef það hefði verið ámælisvert á þeim tíma, að þær framkvæmdir skyldu einskorðaðar við Reykjavíkursvæðið eitt, þá er þar ekki við þáv. ríkisstj. að sakast. Það er þá við verkalýðshreyfinguna að sakast. Hún óskaði eftir þessum ákvæðum í kjarasamningum, bundnum við Reykjavíkursvæðið eitt, og á það féllst fyrrv. ríkisstj. Hún hafði ekki frumkvæði um, að þau skyldu bundin við Reykjavíkursvæðið eitt. Ég hygg, að ég muni það rétt, að þegar frá þeim samningum var gengið, þegar ríkisstj. svo að segja skrifaði upp á þennan hluta þessara ágætu kjarasamninga á sínum tíma, þá hafi allt fjármagn verið tryggt til framkvæmdanna. Við það var staðið, og það stóð aldrei á fjármagni til þessara framkvæmda, enda gengu framkvæmdirnar algerlega snurðulaust. Ég á ekki betri ósk til handa hv. 7. landsk. þm., Karvel Pálmasyni, og skoðanabræðrum hans, að jafn vel gangi að útvega fé til þessara framkvæmda, sem nú er verið að veita heimild til, og það gekk á sínum tíma að afla fjár til Breiðholtsframkvæmdanna.

Þetta vildi ég aðeins leyfa mér að leiðrétta hjá hv. þm. Við skulum ekki lengja þingfund á allra síðustu dögum þingsins með því að efna almennt til umr. um húsnæðismál nú og fyrr. Ég skal hins vegar segja honum, hver niðarstaðan af mínum upplýsingum um það mál mundi verða, ég veit, að hún er rétt. Á einum áratug — og nú bið ég hann og aðra að taka vel eftir, því að þetta get ég sannað, ef ástæða þætti til, —- að á engum áratug í sögunni hefur verið veitt meira opinbert fjármagn til styrktar íbúðahúsabyggingum almennings en einmitt á áratugnum 1960—1970. Ég vona, að hann fari ekki að véfengja þetta til að láta mig reka það ofan í sig. Þá væri enginn vandi að birta tölur um þetta. Þær eru tvímælalaust þannig, að á engum áratug hefur opinbert lánsfé til ráðstöfunar í þágu íbúðabygginga einstaklinga verið jafnmikið og vaxið jafnmikið og einmitt á áratugnum 1960 — 1970.