11.04.1973
Neðri deild: 86. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3379 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

76. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, var lagt fram til staðfestingar á brbl. frá 11. ágúst s.l. Brbl. fjölluðu um hækkun á sérstökum skattfrádrætti aldraðra, samkv. 4. lið 11. gr. laga frá 16, marz 1972, sem verður 25. gr. í lögum um tekju- og eignarskatt frá 15. júní 1971. Forsendur brbl. voru þær, að við álagningu tekjuskatts á tekjur skattársins 1971 hafði tekjuskattur á hluta hinna tekjulægri í hópi elli- og örorkulífeyrisþega reynzt mun meiri en gert var ráð fyrir, þegar skattal. voru sett, og að brýna nauðsyn bar því til að lækka þessar álögur í samræmi við þá meginstefnu að létta byrðar þeirra, sem minna mega sín.

Fjh.— og viðskn. hefur rætt þetta mál og fram komnar brtt. við það á allmörgum fundum og m.a. kvatt sér til ráðuneytis ríkisskattstjóra, Ævar Ísberg, og ráðuneytisstjórann í fjmrn., Jón Sigurðsson. N. hafði einnig til meðferðar frv. á þskj. 163, flm. Ingólfur Jónsson o.fl., um breyt. á ákvæðum skattalaganna um endurmat fyrnanlegra eigna. Það er, eins og segir í grg. þess frv., að ;,atvinnufyrirtækjum verði leyft að miða fyrningar fasteigna við nýja fasteignamatið, þótt þau hafi ekki eignazt þær fyrr en á árunum 1969—1971…En hafi fasteignin verið seld eftir 1968, er óheimilt að miða fyrningu við hærri upphæð en kaupverð var…“ segir enn fremur í grg. N. hefur ekki tekið afstöðu til þess atriðis, sem þetta frv. fjallar um, en ég vil taka það fram hér, að ég mun beita mér fyrir því, að þetta verði skoðað nánar milli 2. og 3. umr.

Þá hefur fjh.— og viðskn. einnig fjallað um till. og ábendingar, sem n. bárust frá fjmrn. N. var ekki ásátt um afgreiðslu málsins. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem form. n. flytur á sérstöku þskj. Ég hygg nú, að minni hl. sé sammála um flestar þessar brtt., en hann skilar séráliti og gerir að sjálfsögðu nánari grein fyrir afstöðu sinni í framsögu.

Það er í megindráttum afstaða meiri hl. að gera ekki verulegar efnisbreytingar á tekju— og eignarskatts l. að þessu sinni, þar sem þau eru í endurskoðun á vegum ríkisstj. Hins vegar þótti ekki rétt að synja með öllu um breytingar, sem lúta að því sumpart að skýra einstök atriði og taka af tvímæli ellegar leiðrétta eða samræma önnur. Mun ég nú gera grein fyrir nefndum brtt., eins og þær liggja fyrir á þskj. 614, og fara aðeins yfir þær lið fyrir lið. Ég vil taka það fram, að þegar vitnað er til tiltekinna greina í lögum, þá er átt við lögin um tekju— og eignarskatt, nr. 68 frá 15. júní 1971, eftir að lögin um breyt. á þeim, nr. 7 23. marz 1972, hafa verið felld inn í þau.

Fyrsta brtt. á nefndu þskj. er við 14. gr., að tiltekinn málsliður orðist svo :

„Auk frádráttar samkv. 1.—4. mgr. þessarar gr. skal, áður en skattur er á lagður, draga 8% frá heinum tekjum lögskráðra og/eða hlutaráðinna manna af fiskveiðum á íslenzkum fiskiskipum.“

Sá sérstaki sjómannafrádráttur, sem hér er fjallað um, var ákveðinn með breyt. á skattal. frá 23. marz 1972. Ákvæðið, eins og það er nú í lögum, hljóðar þannig:

„Auk frádráttar samkv. 1.—4. mgr. þessarar gr. (þ.e.a.s. 14. gr.) skal frá beinum tekjum sjómanna af fiskveiðum á íslenzkum fiskiskipum draga 8% teknanna, áður en skattur er á þær lagður.“

Þetta hefur verið skýrt svo, að frádrátturinn gildi einungis um þær tekjur af fiskveiðum, sem unnið er fyrir á sjó. Nú er það til, að menn, sem eru lögskráðir eða hlutaráðnir á íslenzk fiskískip, vinna starf sitt allt eða að hluta í landi. Þykir rétt, að þeir njóti einnig 8% frádráttarins af beinum tekjum, sem þeir afla í tengslum við veiðarnar. Einnig skal það tekið fram, að til þess er ætlazt, að þessi frádráttur nái til vinnutekna sjómanna, sem starfa á eigin fiskiskipum, á sama hátt og til annarra. Að þessu lýtur 1. brtt. á þskj. 614.

Næsta brtt. er við 19. gr. og er um orðun á þeirri gr. Það mun aldrei hafa verið ætlun löggjafans að leggja eignarskatt á ógreiddar uppbætur á keyptar afurðir, sem skattþegn verzlar með í umboðssölu og er skyldugur til samkv. lögum, samþykktum eða samningum að greiða viðskipta— eða félagsmanni sínum, né heldur mun það hafa verið ætlunin að skattleggja þannig afslátt af seldum vörum við árslok, þegar eins er ástatt um skyldu skattþegans til greiðslu.

Þetta hefur ekki heldur verið gert á undanförnum árum og áratugum yfir höfuð að tala, en samkv. nýlega uppkveðnum hæstaréttardómi er slík skattlagning þó lögmæt.

Með b-lið 1. brtt. á þskj. 614 er lagt til að staðfesta þá framkvæmd, sem fylgt hefur verið með því að taka inn í 19. gr. laganna svo hljóðandi ákvæði:

„Frá eignum skal draga, áður en skattur er á þær lagður, skuldir skattþegns. Til skuldar ber að telja m.a. ógreiddar uppbætur á keyptar afurðir og ógreiddan afslátt af seldum vörum við árslok, enda sé skattþegni skylt samkv. lögum, samþykktum sínum, ef um félag er að ræða, eða samningum að greiða viðskipta- eða félagsmanni sínum slíkan afslátt eða uppbætur.“

Tveir síðustu málsl. 19. gr. eru svo óbreyttir eins og þeir eru nú í lögunum.

Næsta brtt. er við 37. gr. umorðun á þeirri gr. Hér er stefnt að því að gera ákveðnari kröfur um skyldur allra skattþegna til sönnunar á framtali sínu innan tiltekinna tímamarka. Þegar um bókhaldsskyldu aðila er að ræða, er að sjálfsögðu ætlazt til þess, að bókhald sé þannig, að framteljandi geti með fullnægjandi hætti fært sönnur á, að það sé rétt og að framtal hans sé á því byggt. Fáist ekki fullnægjandi svör og upplýsingar, er afgerandi kveðið á um skyldu skattstjóra til að áætla tekjur og eignir framteljanda svo ríflega, að ekki sé hætt við að áætlaðar fjárhæðir séu lægri en raunverulegar tekjur og eignir. Þessar breytingar eru liðir í sérstökum aðgerðum til réttlátari framkvæmdar skattaálagningarinnar.

Tvær síðustu mgr. 37. gr. verða svo óbreyttar samkv. till.

4. brtt. er við 46. gr. laganna. Þar er um nokkuð margþættar breytingar að ræða. Hin fyrsta er um gjalddaga skattanna. Í 1. málslið 46. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt segir, að „lögreglustjórar, í Reykjavík tollstjóri, innheimti tekju- og eignarskatt á manntalsþingum ár hvert. Samkv. lögum um breytingar á þeim tíma, er manntalsþing skulu háð, þ.e. lögum nr. 68/1921, skulu manntalsþing í hverju lögsagnarumdæmi byrja 14., 15. eða 16. júnídag ár hvert og vera lokið hinn 15. júlí ár hvert, nema sérstakar ástæður hamli. En þrátt fyrir þessi gömlu lagaákvæði, þá eru manntalsþing yfirleitt ekki haldin fyrr en á haustin. Óeðlilegt er, að innheimta tekju og eignarskatts dragist svo lengi, auk þess sem það mun ekki lengur vera almennt, að menn sæki manntalsþingin og greiði þar gjöld sín. Það er því ástæðulaust að miða gjalddaga tekju- og eignarskatts við það, hvenær manntalsþing eru haldin, heldur er talið rétt að ákveða, að gjalddagi hans skuli vera tiltekinn mánaðardag. Með brtt. er lagt til, að gjalddagi tekju- og eignarskatts verði ákveðinn 1. ágúst ár hvert, en verði ekki lengur bundinn við það, hvenær manntalsþing eru haldin. Innheimtumenn geta þá hafizt handa um innheimtu þessara skatta fyrr á árinu, og ætti það að leiða til þess, að innheimtan gangi greiðar en áður.

Varðandi þessa sömu grein, þá er í öðru lagi lagt til, að ákvæði laga um tekju- og eignarskatt varðandi dráttarvexti verði samræmd dráttarvaxtaákvæði laga nr. 8/1973, um tekjustofna sveitarfélaga, þ.e.a.s. 43. gr. þeirra. Hitt veldur miklum óþægindum, sérstaklega þar sem þessi gjöld eru innheimt sameiginlega.

Í þriðja lagi er svo lagt til varðandi þessa gr., að ákvæði í 4. málsgr. reglugerðar um útsvör varðandi ábyrgð kaupgreiðanda á dráttarvöxtum vegna vanskila á fé, sem honum hefði borið að halda eftir og skila upp í útsvör starfsmanna sinna, verði tekin upp varðandi tekju- og eignarskatt.

Í fjórða lagi er lagt til, að upp verði tekið ákvæði í lögum um tekjustofna sveitarfélaga, sem sett er þar til að gera það ótvírætt, að gjaldandi verði ekki krafinn um greiðslu á fé, sem kaupgreiðandi hefur haldið eftir af kaupi hans til greiðslu skatta.

Í fimmta lagi er svo enn lagt til í sambandi við þessa sömu gr. laganna, að heimild fjmrh. til þess að ákveða í reglugerð, að innheimta skuli fyrir fram upp í væntanleg þinggjöld yfirstandandi árs hjá hverjum gjaldanda, verði rýmkuð, þannig að hún verði ekki takmörkuð við þá hluta þeirra þinggjalda, sem honum bar að greiða næstliðið ár, eins og nú er.

Í sjötta lagi er svo lagt til, að tekið verði í lögin um tekju- og eignarskatt sams konar ákvæði og er í lögum um tekjustofna sveitarfélaga varðandi greiðslu vaxta, þegar í ljós kemur, er álagningu lýkur, að gjaldandi hefur greitt meira en álagningu nemur.

Tvær síðustu málsgr. 46. gr., er svo lagt til, að verði óbreyttar.

Þá er hér brtt. við 52. gr., en gr. inniheldur heimild til skattstjóra til að taka til greina umsókn skattþegns um lækkun tekjuskatts, ef svo stendur á sem þar greinir. Til hægðarauka er gr. tekin hér upp í heild, en breytingarnar eru í raun og veru aðeins þrjár, þessar:

Í 1. tölulið laganna er til þess að taka af öll tvímæli bætt inn orðinu „ellihrörleiki“, þannig að liðurinn verði: „Ef ellihrörleiki, veikindi, slys eða mannslát hafa skert gjaldþol skattþegns verulega.“

2) Það er tekinn upp nýr töluliður í þessa upptalningu um tjón af völdum náttúruhamfara, eldsvoða eða búfjársjúkdóma, svo fremi að það sé ekki bætt úr hendi annars aðila.

3) Það er alkunna, hversu mörgum skattþegni hefur reynzt örðugt að brúa bilið, þegar hann lætur af störfum vegna aldurs og tekjur og þar með gjaldþol hans skerðist stórlega af þeim sökum. Hér er lagt til að bæta enn nýjum tölulið við 52. gr., sem heimili lækkun tekjuskatts, þegar svo stendur á eins og þar segir, að skattþegn lætur af störfum vegna aldurs og gjaldþol hans skerðist verulega af þeim sökum.

Þá hef ég gert grein fyrir brtt. á þskj. 614. Um aðrar brtt., sem hér liggja fyrir, vil ég segja þetta:

Á þskj. 84 eru brtt. frá Matthíasi Á. Mathiesen og Matthíasi Bjarnasyni. Þær eru efnislega um það, að elli- og örorkulífeyrir almennatrygginganna verði með öllu undanþeginn tekjuskatti. Meiri hl. fjh.- og viðskn. gat ekki fallist á þessa till. Hins vegar mun meiri hl. leggja fram till. um hækkun á sérstökum skattafrádrætti aldraðra við 3. umr. málsins hér í d.

Mín skoðun er sú, að það sé óeðlilegt að undanþiggja skatti allan ellilífeyri almannatrygginga. Með lögum er þegar fyrir því séð, að fólk, sem hefur ekki aðrar tekjur en þennan lífeyri, elli- og örorkulífeyri almannatrygginga, og er með lágmarkstekjutrygginguna eina, að það fólk greiðir engan tekjuskatt, og ekki heldur þó að eitthvað lítils háttar bætist þar við. Það fólk, sem þannig er á vegi statt, nýtur því engra frekari skattívilnana, þótt brtt. á þessu þskj, verði samþ. Til þess að svo megi verða, þurfa tekjur hins aldraða að nálgast 300 þús., þegar um einstakling er að ræða, eða 400 þús. kr., þegar um hjón er að ræða a.m.k. eftir að búið væri að ákveða, að skattvísitalan næði til hins sérstaka frádráttar aldraðra.

Nú hefur athygli margra beinst að lífeyrissjóðakerfi okkar Íslendinga, hversu það er uppbyggt og hversu það reynist í framkvæmd. Það þykir mörgum, sem þar sé lítils réttlætis gætt, þegar það kemur upp, t.d., að unnt hefur verið og er að taka í senn full laun og full eftirlaun. Og þótt ekki sé tekið svo gróft dæmi, en nú liggur fyrir frv. um að breyta þessu atriði, þá er það í annan stað alkunna, að einn og sami maður getur nú tekið eftirlaun úr fleiri en einum lífeyrissjóði, auk ellilauna almanna trygginganna. Þannig getur launamunur á hærri og lægri tekjuflokki í ýmsum tilvikum orðið meiri á efri árunum heldur en nokkru sinni, á meðan menn eru í fullu starfi.

Nú bera hinir öldruðu enga skatta upp að þeim mörkum, sem ég nefndi áður, og kæmu því ekki til með að njóta neinna viðbótarskattfríðinda við samþykkt brtt. á þskj. 84, eins og ég einnig tók fram áðan. En aftur þeir, sem taka kannske margfaldan lífeyri eða afla nægilega mikilla tekna á annan hátt, mundu njóta að fullu þeirra skattfríðinda, sem nefnd brtt. fjallar um. Þetta sýnist mér stefna að því að auka ójöfnuð þann, sem lífeyrissjóðaflækjan skapar. Legg ég því til, að þessi brtt. verði felld.

Á þskj. 186 er brtt. frá Guðlaugi Gíslasyni, Pétri Sigurðssyni, Friðjóni Þórðarsyni og Matthíasi Bjarnasyni um að undanþiggja tekjuskatti upphæð, sem nemur hálfri kauptryggingu við fiskveiðar á íslenzkum fiskiskipum. Efnislega er hún um það. Meiri hl. fjh.- og viðskn. getur ekki heldur fallizt á þessa brtt. og leggur til, að hún verði felld.

Nýlega hefur verið útbýtt hér í hv. d. brtt. frá hæstv. sjútvrh., fjölritaðri á þskj. 670. Hún hefur ekki legið fyrir fjh.- og viðskn. og því hefur ekki verið tekin nein afstaða til hennar þar, en hæstv. ráðherra mun vafalaust gera grein fyrir henni hér á eftir.

Ég hef þá lokið minni framsögu fyrir meiri hl. fjh.- og viðskn., sem leggur til, eins og ég hef áður tekið fram, að frv. verði samþ. með þeim brtt., sem prentaðar eru á þskj. 614.