12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3390 í B-deild Alþingistíðinda. (2932)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Halldór Kristjánsson):

Herra forseti. Sjútvn. hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Hún ræddi um málið á tveimur fundum og fékk til viðtals við sig framkvæmdastjóra Landssambands ísl. útvegsmanna og formann Sjómannasambandsins, en auk þess barst henni bréf frá stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna. Það er skemmst frá að segja, að þessir aðilar, bæði af hálfu Sjómannasambandsins og af hálfu útgerðar manna, mæla gegn samþykkt frv. Aðspurðir kváðust þeir þó ekki hafa neinar till. um það, hvernig komið yrði til móts við þarfir fiskveiðasjóðs og hans málum borgið. Nú er kannske ekki ástæða til, að ég fjölyrði um viðhorf minni hl. í n., því að það mun verða gert af hans hálfu, svo að væntanlega þurfi ekki um að bæta.

Efni þessa frv. kemur raunverulega í staðinn fyrir breytingu, sem gerð var 1970 á l. um fiskveiðasjóð, nr. 75 frá 1966. Sú breyting er raunverulega tekin upp í 1. gr. þessa frv. sem e-liður. Vegna þessa ætti að geta þess nú, að með þessari breytingu séu úr gildi felld lög nr. 33 8. maí 1970. Það, sem hér er um að ræða, er raunverulega hliðstætt því, sem verið er að fjalla um í sambandi við aðra stofnlánasjóði, bæði iðnlánasjóð og stofnlánadeild landbúnaðarins, að auka tekjur þeirra til þess að hamla gegn því, að eigið fé þeirra gangi árlega til rýrnunar vegna vaxtataps eða óhagstæðs vaxtamismunar. Í þessum frv. öllum er stefnt að því að leysa þennan vanda á þann hátt að leggja nokkurt gjald á atvinnuvegina, sem hlut eiga að máli, og ríkissjóður leggur síðan á móti. Það kann að mega færa rök að því, að ýmislegt sé þarna ósambærilegt um hvern stofnlánasjóðinn út af fyrir sig, en þetta er þó sameiginlegt með þeim öllum. Það hefur verið bent á það í sambandi við fiskveiðasjóð, að það frv., sem hér liggur fyrir, þótt að lögum verði, sé alls fjarri því að leysa þá fjármagnsþörf, sem hjá honum er. Að því er ekki stefnt, en hins vegar mun samþykkt þessa frv. ná því marki, að ekki þurfi að óttast á næstunni, að eigið fé sjóðsins gangi til þurrðar af árlegum eðlilegum viðskiptum, svo sem hlyti að verða, ef ekkert væri að gert. Og það horfir allt öðruvísi við að taka lán til að endurlána eða jafna með lántökum þessi óhagstæðu viðskipti sjóðsins. Það hefur sýnt sig, að þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið og gerðar eru alltaf öðru hverju í sambandi við sjávarútveginn og afkomu hans, eru yfirleitt ekki varanlegar og ekki nein framtíðarúrræði. Þess vegna leiðir það af eðli málsins, að slík hlutverk hljóta alltaf að vera til endurskoðunar.

Það er bezt að varast að fara langt í spádóma um það, hvernig afkoma og hagur útgerðarinnar verði á komandi tímum, þó að ekki verði hugsað mörg ár fram í tímann. Það er hægt að spá ýmsu, en það er ekki hægt að vita mikið. Þó er á það að líta í sambandi við hækkandi verð á ýmsum útflutningsvörum, að manni virðist helzt, að það séu töluverð verðbólgueinkenni í veröldinni og heildarþróunin sé sú, að kaupmáttur peninganna tapi gildi sínu, ef þannig mætti orða það. En um þetta skal ekki fjölyrt frekar hér.

Ég held, að það sé ósköp eðlilegt, að meðan verið er að kanna þessi mál, meðan t.d. Landssamband ísl. útvegsmanna er að gera sér grein fyrir því, hvort það hefur einhverjar till. um, hvernig þessi mál eigi að leysa, þá sé málið leyst í bili með samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, og meiri hl. n. mælir með samþykkt þess óbreytts.