12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3391 í B-deild Alþingistíðinda. (2933)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Eins og fram kemur á þskj. 671, nál. minni hl., og formaður meiri hl. hefur þegar gert grein fyrir, var ekki samstaða í sjútvn. um afgreiðslu málsins. N. hélt tvo fundi um málið. Á fyrri fundinum mætti framkvæmdastjóri fiskveiðasjóðs, Sverrir Júlíusson, og gerði okkur grein fyrir ýmsum vandamálum sjóðsins. Okkur er það öllum ljóst, eins og reyndar kemur fram í okkar nál., að sjóðurinn á við mikið fjárhagslegt vandamál að stríða, og hann undirstrikaði þar, og það undirstrikum við líka, að viðkomandi frv. er ekki heildarlausn á vandamálum sjóðsins og því er ekki ætlað að vera það. Hann sagði, að sjóðinn mundi muna um þá aura, sem frv. gerði ráð fyrir að veita, og vildi gjarnan fá þá strax, og er eðlilegt, að framkvæmdastjóri sjóðsins tali svo, þegar fyrir liggja lánsbeiðnir, sem nema mikið á annan milljarð. Hann sundurliðar það nokkuð, og t.d. má nefna, að innanlandsskipasmíðin, eins og hæstv. ráðh. drap á, hefur fjármagnsþörf upp á 700 millj., vinnslustöðvarnar þurfa um 500 millj., þó ekki nákvæmlega sundurliðað, tæki og aðrar viðgerðir um 230 millj., gengistap um 30 millj. og ýmislegt annað vegna erlendra smíða um 265 millj. Alls gerir þetta rétt um 1730 millj. kr. Eigið fé sjóðsins er nokkuð, en þrátt fyrir það má reikna með, að fjármagnsvöntun sjóðsins sé um 1300 millj. kr., sem þarf að leysa úr, áður en langt um líður. Við sjáum því, að þó að þetta frv. veiti sjóðnum á þessu ári eitthvað á annað hundrað millj., eins og kom fram í ræðu hæstv. ráðh., að honum yrðu tryggðar þegar á þessu ári, vantar gífurlega mikið á, að vandamál sjóðsins sé leyst.

Frsm. meiri hl. drap hér á, að fulltrúar útvegsins og sjómannasamtakanna komu á fund n., og aðspurðir sögðust þeir ekki hafa till. í því efni: Það er varla von, að menn hafi stórar till. um frv. eða vandamálið, þegar þeir eru ekki spurðir eins eða neins. Eftir því sem þeir upplýstu, hafði ekki verið haft samráð við þá beint. Hitt er á að líta, reikna ég með, að þeir hafi báðir gert sér grein fyrir því, að sjóðurinn var í mikilli fjármagnsþörf. En það er ekki hægt að líkja þessu alveg saman við hina sjóðina, sem hann drap á, vegna þess að það var staðfest á fundum n., að það gjald, sem tekið er með þessum hætti, er óumdeilanlega dregið frá, áður en fiskverð er ákveðið. En ég mundi ætla, að það væri ekki tryggt, að landbúnaðurinn bæri sitt álag einhliða, — alls ekki. En það mun vera svo í þessu tilfelli með þær álögur, sem útvegurinn fær hér, að þær lækka fiskverðið. Auðvitað kemur fé á móti úr, ríkissjóði, það er rétt. Vinnslustöðvarnar fá orðið stórar upphæðir og þurfa um helming af því fjármagni, sem sjóðinn vanhagar um. Við höfum ekki fengið upplýsingar um það beint, að þær tækju sinn skerf í því öðruvísi en að skapa aukin verðmæti við betri framleiðsluskilyrði. En ég reikna með, að vinnslustöðvarnar fái það fullkomlega uppi borið. Það er augljóst mál, að það getur ekki skipt neinum sköpum, eins og staða sjóðsins er í dag, þótt aðeins sé dokað við og vandi sjóðsins ræddur við hlutaðeigandi aðila, eins og við í minni hl. leggjum til. Við gerum okkur fulla grein fyrir því, að það verður að finna lausn á vandanum. Það er auðvitað hlutverk viðkomandi ríkisstj. hverju sinni. Það er slæmt, að eigið fé sjóðsins hefur farið minnkandi undanfarið.

Ég drap á það í ræðu minni við 1. umr., að það hefði ekki verið óeðlilegt, þegar við vorum að fjalla um útflutningsgjaldið, að við hefðum haft þessa mynd með. Okkur var ekki gerð grein fyrir því í þeim fljótheitum, sem þar áttu sér stað, að fiskveiðasjóður færi með rýrari hlut frá borði. Ég held, að enginn okkar hafi ætlazt til þess. En hlutfallið í heildarútflutningsgjöldunum fer minnkandi, eins og víst er núna. Það má kannske segja, ef vel árar, að krónutalan sé svipuð, en það er annað mál. Enginn okkar vildi, að sjóðurinn færi með rýrari hlut frá borði, það er ég alveg viss um, fyrst við stóðum að því að móta og vinna að kvöðum í sambandi við útflutningsgjöld, sem samstaða var um í n.

Svo er annað í þessu efni, sem stundum er viðkvæmismál og ég hef verið talsmaður fyrir hér á hv. Alþ., en það er, að sjávarútvegurinn fengi aðild að stjórn fiskveiðasjóðs. Enn hefur enginn viljað taka það upp og berjast fyrir því, en það er þó svo í hinum sjóðunum, og menn meta það nokkurs. Það upplýstist einnig, sem kemur fram í nál. okkar, að fiskveiðasjóður hefur tekið innlend lán. Okkur var sagt, og það er prentað í nál., að það væru um 125 millj. kr. og hefur verið bundið við vísitölu byggingarkostnaðar. Allir vita, hvernig hún hreyfist, og það þýðir auðvitað þrátt fyrir góð áform og breytingar á vaxtakjörum hjá nýjum aðilum, að þetta er óhagkvæm lán og kosta miklu meira en 51/2%. Ég vil ekki spá um, hvað þau verða dýr fyrir viðkomandi aðila, en það kæmi mér ekki á óvart að vaxtabætur yrðu yfir 10%, jafnvel meiri.

Ég talaði um það á nefndarfundi, hvort enginn minnsti möguleiki væri á því að samræma öll lán sjóðsins, vegna þess að það hefur verið um langt árabil mjög mikið misræmi í útlánum sjóðsins. Það hafa verið teknar ákvarðanir um það af hálfu stjórnenda sjóðsins að breyta þeim kjörum á næstum því furðulegum forsendum. Það var meira að segja um tíma felld niður gengisáhætta á lánum og þótti sumum broslegt. Einnig hafa sumir 4% lán hjá sjóðnum og aðrir eru með 61/2% til 16 ára. Núverandi skipan er 51/2% til 20 ára. Þetta er eitt atriði í heildarskipulagningu á fjármálum sjóðsins, sem ég tel eðlilegt að taka til greina. Það má vel vera, að menn hafi skrifað undir slík lánakjör í verðskjölum á sín skip, að ekki sé hægt að breyta þessu, en þetta þyrfti að athuga mjög gaumgæfilega. Það hljóta allir að vera sammála um, að það ber að stefna að því að hafa útlánin eins. Það er ekki heldur eðlilegt, að nokkrir aðilar fái útlán núna bundin við vísitölu byggingarkostnaðar og þurfi að greiða miklu hærri vaxtafót en aðrir. Ég veit ekki, hvort þessi lán eru til sérstakra tækjakaupa eða sérstakra viðgerða, en þessi lánakjör eru mun óhagstæðari en heildarlánakjör sjóðsins. Það upplýstist, að um 20% af lánaþörf vinnslustöðvanna fer til saltfiskverkunar. Það munu vera komin fram drög að mikilli fjármögnun við endurnýjun frystihúsanna, sem er algert trúnaðarmál og ómögulegt að fá vitneskju um, hvaða tölur hún hefur í för með sér. Verður því að spá í það, að hér sé um stórar tölur að ræða, miðað við það, sem hefur heyrzt. En ég met stöðu sjóðsins þannig, að það sé útilokað, að auknar álögur á aflann fari til vinnslustöðvanna, vegna þess að þessar auknu álögur eru dregnar frá, áður en fiskverð er ákveðið. Ef þeim væri skipt upp, væri það sanngjarnt og þá stæði ég alveg fyllilega að því að taka minn skerf fyrir hönd útvegsins.

Það eru einmitt þessi atriði, sem við heyrðum, að fulltrúar sjómanna og útvegsmanna töldu eðlilegt að væru rædd miklu nánar, svo að samkomulag næðist um álögurnar innan stéttarinnar. Það er óvenjulegt, að menn eigi í sífelldri togstreitu um, hverjum beri hvað, þegar menn eru í heild sammála um, að það þurfi að laga fjármögnun sjóðsins. Það mun koma þjóðarbúinu í heild að beztum notum, að sjóðurinn geti fjármagnað bæði vinnslustöðvar og nýsmíði með góðum kjörum og með eðlilega endurnýjun í huga. Við viljum sérstaklega leggja áherzlu á, að á þetta væri hlustað, en frv. ekki keyrt í gegn í andstöðu við þessi hagsmunasamtök, af því að það ræður engum úrslitum, alls ekki, því fer víðs fjarri, eins og staða sjóðsins er í dag. Þetta mun gefa af sér á komandi ári eitthvað á annað hundrað millj. kr. Hins vegar er tekjustofninn orðinn öruggur. En mætti ekki alveg eins hugsa sér, að frv. gæti komið fram strax í haust, sem tæki gildi t.d. frá og með 1. nóv. eða jafnvel verkað aftur fyrir sig, og það yrði samkomulagsfrv.? Ég tel það vel hugsanlegt.

Við ræddum nokkuð um vanskil við sjóðinn. Sem betur fer hefur stofnlánakerfið tryggt sjóðnum rétt 90% skil. Og það má segja, að það sé mjög mikilvægt, og framkvæmdastjóri sjóðsins undirstrikaði hversu mikilvægt það væri, að peningar kæmu jafnóðum af framleiðsluverðmætinu upp í vexti og afborganir sjóðsins. Það er gífurlega þýðingarmikið og tryggir það, að þó að lánaupphæð sé orðin mikil, kemur jafnt og þétt inn í sjóðinn og léttir á. Áður var kerfið þannig, að menn höfðu ákveðna gjalddaga, fyrst og fremst 1. nóv., svo aftur 1. júní, en nú fær sjóðurinn peninga jafnóðum og menn skila verðmæti inn. Þeir, sem borga fram yfir fá innistæðu sína aftur út um eða eftir áramót. Hann upplýsti einnig, af því að ég spurði hann um það, og hæstv. ráðh. einnig, að sérsamningur væri í gildi varðandi togskipin nýju, þau mundu ganga undir þá kröfu að borga meira en lögbundna prósentu, og skildist mér, að sú kvöð væri 10%, en af venjulegum fiski hér innanlands er tekin 10% greiðsla, sem fiskkaupandi greiðir og skilar inn í stofnfé sjóðsins. Þannig hafa þeir undirgengizt að skila hlutfallslega meiru inn á sín lán, sem eru mjög há í krónum talið, á annað hundrað millj. kr. á flest skipin. Rekstur þeirra verður því örugglega erfiður varðandi lausafé til ýmiss konar þjónustu, ef 20% kvöð liggur fyrir í öllum tilfellum hjá þessum skipum.

Það getur vel verið, að sumum finnist það ekki nógu ábyrg afstaða hjá okkur að vilja vísa frv. til ríkisstjórnarinnar. En það byggist fyrst og fremst á því, að mér heyrist, þrátt fyrir gagnrýni þeirra manna, sem mættu á fundi hjá okkur, að þeir væru þess fyllilega meðvitandi, hversu vandamál sjóðsins er mikið nú þegar og hvað það verður á næstunni.

Hæstv. sjútvrh. lagði áherzlu á, að með því að gera kröfu til þess, að skipasmíðar landsmanna færðust að mestu eða öllu leyti inn í landið, hlyti það að kalla á gífurlega eftirspurn. Þetta var einmitt undirstrikað sérstaklega af framkvæmdastjóra sjóðsins, að við yrðum að gera okkur grein fyrir því, hvílík óhemjuaukning í fjármagnseftirspurn kæmi fram, þegar ákveðið væri að smíða 5 skuttogara á Íslandi, sem kostuðu hátt í 200 millj. kr. stykkið. Fjármögnun erlendis er fyrir fram tryggð, og henni dreift á margra ára tímabil. Lántakan var lengi vel 6 ár, en er nú komin upp í 8 ár. Þess vegna voru kaupin tiltölulega auðveld og létt erlendis frá. En nú ríkir það sjónarmið, að við eigum einnig að tryggja skipasmíðastöðvunum jafna vinnu við nýsmíði, og skipasmíðastöðvarnar hafa einnig fengið hér góða lánafyrirgreiðslu. Ef ég man rétt, er það í reikningum fyrir árið 1972, sem má búast við, að ráðh. hafi nýlega staðfest, að skipasmíðar eru með um 200 millj. kr. í lánafyrirgreiðslu eða í eignum sagt hér hjá sjóðnum. Það er ekki ljóst af yfirlitinu, á hvaða tímabili það hefur átt sér stað. En skipasmíðastöðvarnar hafa sem sagt líka fengið verulega fyrirgreiðslu hjá sjóðnum, þrátt fyrir það, að iðnlánasjóður á að veita þeim lán, og hér voru afgreidd frv. mjög til hagsbóta fyrir skipasmíðastöðvarnar á hv. Alþ. í tíð fyrrv. ríkisstj.

Við værum þess fýsandi, að málið yrði tekið upp sem ein heild aftur til þess að ná um það breiðari samstöðu og tryggja, að fjármögnun sjóðsins sé öruggari til frambúðar. Þetta er tímabilsbundið ákvæði, sem hér kemur inn núna, og mun ekki leysa úr þörfum sjóðsins, miðað við þá þróun að taka skipasmíðaiðnaðinn að langmestu leyti inn í landið. Ef svo verður, þá verður auðvitað að framlengja þetta ákvæði, sem frv. gerir ráð fyrir, eða tryggja sjóðnum auknar tekjur með öðru móti, ásamt verulegum lántökum. Við komumst ekki hjá því, því að eftirspurnin verður svo gífurleg í lánamálunum. Fari svo, að við náum svo til allri togarasmíði inn í landið, en við höfum nú þegar náð því marki að smíða svo til alla fiskibáta, kemur hér fram gífurleg bylgjuhreyfing, sem þetta frv. nær ekki til. Hér er því um bráðabirgðalausn að ræða, og það mun ekki ráða neinum úrslitum um heildarvandamálið, þó að málið yrði athugað nú í sumar og frv. um varanlegri lausn lagt fram strax í haust, sem aðilar, er bera kvöðina, væru sammála um, að deildist réttlátlega niður, eftir því sem tök væru á a.m.k. Því leggjum við í minni hl. til, að dokað verði við og frv. vísað til ríkisstj.