12.04.1973
Efri deild: 91. fundur, 93. löggjafarþing.
Sjá dálk 3395 í B-deild Alþingistíðinda. (2934)

231. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvrh. (Lúðvík Jósepsson):

Herra forseti. Það eru í rauninni aðeins fáein orð. Ég vil þakka hv. n. fyrir skjóta afgreiðslu á málinu. Mér sýnist á því, sem kom fram hjá frsm. minni hl., sem leggur til, að málinu verði frestað og vísað til ríkisstj. til frekari athugunar og lausnar þá síðar, að hann viðurkenni einnig, að óhjákvæmilegt sé, eins og málum er nú háttað, að leysa fjárhagsmál fiskveiðasjóðs — hann vilji ekki fyrir sitt leyti leggjast gegn því, að lausn verði fundin á málinu á þann hátt, sem hér er lagt til, þó að hann vilji taka sér frest til frekari athugunar.

Ég tók eftir því, að hv. frsm. minni hl., sem var að ljúka máli sínu, taldi það einn gallann við þá leið, sem hér er lagt til að farin verði til tekjuöflunar fyrir fiskveiðasjóð, að ekki væri ljóst, að fiskiðnaðurinn í landinu væri látinn bera sinn hluta af því framlagi, sem ætti að greiða til fiskveiðasjóðs, en hins vegar væri augljóst, að ætlazt væri til þess, að hann fengi allríflegan skammt af þeim lánum, sem fiskveiðasjóður á að lána út. Þetta er á einhverjum misskilningi byggt að mínum dómi. Það er rétt, sem hér hefur verið sagt, að það gjald, sem ætlað er að leggja á, 1% af útflutningsverðmæti sjávaraflans, verður tekið af brúttóframleiðsluverðmætinu, útflutningsverðinu. Það kemur til með að hvíla sem skattur á öllum þeim aðilum, sem þarna eiga hlut að máli, þ.e.a.s. fiskvinnslunni, útgerðinni og sjómönnum, vegna þess skipulags, sem nú er hjá okkur um verðákvörðun á sjávarafla. Það er sem sagt alveg föst regla að miða verðákvörðunina og afkomu jafnt fiskiðnaðarins, bátanna og sjómannanna við það verðmæti, sem eftir er af útfl.verðinu, þegar útfl.gjöld hafa verið dregin frá. Það er það heildarverðmæti, sem lagt er til grundvallar, og því er síðan skipt. Þá er sem sagt við það miðað, að fiskvinnslan hafi rekstrarmöguleika, sömuleiðis bátar og önnur fiskiskip, og að fiskverðið sé ákveðið þannig, að sjómenn hafi fengið sambærilega launahækkun og aðrar vinnandi stéttir í landinu. Þetta eru meginforsendurnar, sem alltaf er gengið út frá. Það er rétt, að auðvitað getur svo farið, að það, sem á að ganga til skipta, af öllu þessu verðmæti, verði í heild of litið, þannig að hvorki fiskvinnslan, bátaútgerð né sjómenn geti náð þessu marki, sem ég var að tala um. Þá er, eins og þm. þekkja svo vel, komið upp efnahagsvandamál í okkar ágæta hagkerfi, og þarf þá að grípa til einhverra sérstakra ráðstafana. En við höfum nú um skeið haft þann hátt á, að taka þó nokkurn hluta af þessu heildarframleiðsluverðmæti útflutningsins og leggja í sérstakan geymslusjóð, verðjöfnunarsjóð. Það er því enginn vafi á því, að byrjað yrði á því í þessu tilfelli að minnka framlagið í verðjöfnunarsjóð, til þess að hægt sé að standa við þessi meginatriði, sem fiskverðsákvörðunin hvílir alltaf á. Hér er því um það að ræða að okkar dómi að minnka nokkuð um skeið framlög í verðjöfnunarsjóð, þó að þangað ætti eðli málsins samkvæmt að renna allmikið fjármagn vegna hækkandi útflutningsverðs, en láta féð í rauninni ganga til þarfa fiskveiðasjóðs að því marki, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ef sá háttur hefði verið hafður á að skipta alltaf öllu verðmætinu, sem um var að ræða, hefði fiskverðið að sjálfsögðu getað hækkað meira, þannig að bátaútvegurinn í landinu hefði enn betri afkomu en ella og eins fiskiðnaðurinn og sjómenn að sínum hluta. Allir skattar af þessu tagi miða auðvitað að því að takmarka þetta nokkuð. Það er lagt til að leggja þetta gjald á í fullu trausti þess, að breytingar hafi orðið svo miklar nú á útflutningsverði sjávarafurða, að hægt sé við næstu fiskverðsákvörðun að tryggja bæði veiðiflotanum og framleiðslustöðvunum, fiskvinnslustöðvunum og sjómönnum, þessa eðlilegu og sanngjörnu viðmiðun, sem oftast nær hefur verið reynt að styðjast við, þrátt fyrir það að þetta gjald sé lagt á.

Það kom fram hjá hv. frsm. minni hl., að hann teldi, að það sakaði ekki mikið, þó að þetta frv. yrði látið liggja að þessu sinni og síðan flutt aftur á næsta hausti, kannske með víðtækara samkomulagi, og málin þá leyst á viðunandi hátt. En þessu er ekki svona farið. Fiskveiðasjóður á aðeins um tvo kosti að velja á þessu ári. Annaðhvort er að taka enn þá meira af erlendum lánum en gert hefur verið, til útlána og jafnvel enn þá meira af öðrum tegundum af lánum, sem til eru nú. Það eru þá innlend lán, sem eru alla jafna verðtryggð eða vísitölubundin. Þeir, sem standa í framkvæmdum á vegum sjávarútvegsins, eiga skip í smíðum, eru að kaupa ný skip, byggja upp frystihús eða ráðast í aðrar framkvæmdir, sem lánað er til úr fiskveiðasjóði, mundu, ef ekki er tryggð viðbótartekjuöflun til sjóðsins, aðeins þurfa að taka mun meira af gengisáhættulánum eða verðtryggðum lánum. Þeirra kjör mundu því augljóslega versna, ef þannig er litið á málið. Það er ekki um annað að ræða í raun og veru, eins og nú er háttað hjá okkur. Framkvæmdasjóður, sem lánar þessum aðilum, stofnlánasjóðunum, á ekki annarra kosta völ en að lána með sams konar kjörum og hann tekur að láni. þ.e.a.s. það eru verðtryggð lán í flestöllum tilfellum og svo aftur erlend lán. Auðvitað er mér ljóst, að þó að fiskveiðasjóður fái þær auknu tekjur, sem hér er um að ræða, verður hann að halda áfram að taka erlend lán og jafnvel eitthvað af verðtryggðum lánum. En það tel ég fullkomlega eðlilegt. Ég tel enga von vera til þess, að við getum smíðað jafnmikið af fiskiskipum hér innanlands og við gerum nú í reynd, án þess að við tökum eitthvað af erlendum lánum út á þær framkvæmdir. Við höfum ekki getu til þess að taka það mikið fjármagn af tekjum ársins í þjóðarbúinu, að ekki þurfi að koma hér til einhver erlend lántaka, eins og alltaf hefur verið áður. Ég vil líka segja það, að ég held, að það sé rétt að halda áfram þeirri stefnu, sem mörkuð hefur verið hjá fiskveiðasjóði um langan tíma, og af því hefur hann staðið sig betur í reyndinni en margir aðrir stofnlánasjóðir, að sjóðurinn haldi sig við það að lána með sams konar lánakjörum og hann nýtur. Þegar um erlend lán er að ræða, verður gengisáhættan að fylgja, en þegar um innlend lán er að ræða með vísitölutryggingu, verða slíkar kvaðir að fylgja með. En af því að fiskveiðasjóður hefur að verulegu leyti verið byggður upp með framlögum frá útveginum, með ákveðinni skattlagningu um langt árabil, og vissum framlögum frá ríkinu og hefur haldið sig við þá stefnu að tapa ekki allajafna miklum fjárhæðum vegna mismunar í lánakjörum, er hann mjög öflugur sjóður. Það er um allmikið eigið fé að ræða. Og það er vegna þess, að sjóðurinn á allmikið af eigin fé, sem svona er til komið, að þeim, sem greitt hafa í sjóðinn, finnst vera fullkomlega eðlilegt, að þeir njóti nokkuð betri lánakjara að vissu leyti í sjóðnum en þeir geti fengið á almennum lánamarkaði.

Sú lækkun um 1%, sem ákveðin var fyrir rúmu ári á aðalvaxtakjörum í sjóðnum, hefur verið framkvæmd. Það er ekki sú lækkun, sem veldur sjóðnum nú neinum sérstökum vandræðum. Þar er um tiltölulega litlar fjárhæðir að ræða enn sem komið er. Það, sem hvílir þyngst á sjóðnum, eins og hér hefur komið fram, eru lánveitingar hans út á innanlandssmíði fiskiskipa og svo í mjög vaxandi mæli lán til uppbyggingar í fiskiðnaðinum eða til þeirrar miklu endurbyggingar, sem þar á sér stað. Ég skil mætavel og þekki það af nokkurri reynslu, að forustumenn í hópi útgerðarmanna hafa löngum verið býsna stífir við samningaborðið ekki síður en aðrir. Þeim þykir mjög hentugt að hafa allan fyrirvara á um það, að svona skattur sé lagður á, eins og sá, sem hér er um að ræða, en vilja þó mjög gjarnan fá hann, á því leikur ekki nokkur minnsti vafi, enda eru það þeir, sem eiga að njóta hans. Ég skil það líka mætavel, að forustumenn í hópi sjómanna segi að þeim sé ekkert um það gefið að leggja á skatt af þessu tagi. Þeir vilja líka hafa allan fyrirvara á um það, að þessi skattur verði ekki til þess að gera launakjör þeirra verri í samanburði við aðrar vinnustéttir í landinu, en þau hafa a.m.k. verið. En auðvitað hefur öflugur fiskveiðasjóður, sem getur staðið að því að endurnýja fiskiskipaflotann og stórbæta fiskvinnsluna í landinu, líka hagsmunalega þýðingu fyrir sjómennina. Það fer ekkert milli mála, að nýju og dýrari skipin veita þeim líka bætt launakjör, betri aðbúð og meira öryggi, svo að þetta mál er ekki heldur óskylt þeim.

Ég skal ekki lengja umr. um málið að þessu sinni. Ég þakka n. fyrir fljóta afgreiðslu á málinu og vil vænta þess, að þrátt fyrir misjafnar skoðanir, sem hér hafa komið fram, verði ekki andstaða gegn því að gera þessa breytingu á fjármálum fiskveiðasjóðs.